Mikkas huggar Gyðinga með þeim spádómi, að musterið skuli aftur verða uppbyggt, og verða enn veglegra, en hið forna; áminnir þá til þolinmæði í hinni babýlonsku herleiðingu, sem fyrir þeim lá.

1Á hinum síðustu dögum mun það verða, að fjall það, er musteri Drottins stendur á, skal grundvallað verða á tindi fjallanna, og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þjóðirnar skulu streyma þangað.2Þá skal fjöldi heiðingja fara af stað, og segja: komið, látum oss ganga upp til Drottins fjalls, og til húss Jakobs Guðs, svo hann vísi oss sína vega, og svo vér megum ganga á hans stigum; því lögmálið gengur út frá Síonsfjalli, og orð Drottins frá Jerúsalemsborg.3Hann skal dómari vera meðal margra þjóða, og úrskurð veita voldugum þjóðum í fjarlægum löndum, svo að þær skulu smíða plógjárn úr sverðum sínum, og kornsigðir úr spjótum sínum; engin þjóð skal sverði bregða í gegn annarri, og þaðan í frá enga hernaðaríþrótt læra a);4heldur skal hvör búa undir sínu víntré og fíkjutré, án þess nokkur skjóti þeim skelk í bringu; því Drottinn allsherjar hefir svo boðið.5Og enn þótt allar þjóðir vildu fram ganga hvör í nafni síns Guðs, þá skulum vér samt framganga í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.6Á þeim degi, segir Drottinn, vil eg taka að mér hina höltu, og saman safna hinum tvístruðu, og þeim sem eg hefi plágað.7Eg skal halda hinum höltu við lýði, og gjöra hina útreknu að voldugri þjóð, og Drottinn skal vera konungur yfir þeim á Síonsfjalli héðan í frá og til eilífðar.8Og þú hjarðarturn, þú Síonshæð! hið forna veldi skal til þín koma og aftur til þín hverfa, konungdómurinn skal aftur hverfa til Jerúsalemsborgar.
9Nú, hví hljóðar þú svo hástöfum? hefir þú engan konung? er ráðgjafi þinn horfinn? Þú hefir tekið sótt, eins og jóðsjúk kvinna.10Fá þú hríðir og fæð, Síonsdóttir, sem jóðsjúk kvinna! Því að sönnu hlýtur þú út af borginni að ganga og búa á víðavangi, og fara allt til Babelsborgar, en þar skaltu frelsuð verða, þar skal Drottinn leysa þig af hendi óvina þinna.11Fjöldi heiðingja mun að vísu bráðum safnast á móti þér, og segja: „hún er vanheilög orðin! vér höfum gaman af að horfa á Síonsfjall“;12en þeir vita ekki Drottins hugsanir, og skilja ekki hans ráð, að hann safnar þeim sjálfum saman, eins og kerfum á kornláfa.13Rís upp og þresk, Síonsdóttir! eg skal gefa þér járnhorn og eirklaufir, svo þú skalt sundurmerja margar þjóðir; eg skal helga Drottni þeirra eignir, og þeirra auðlegð hinum alvalda Drottni allrar jarðarinnar.14Þá skaltu þú engja þig saman, þú (Babelsborg!) sem sendir út hleypiflokkana, er setja munu hervirki í kringum oss, og ljósta munu landshöfðingja Ísraelsmanna stafshöggi.

V. 3. a. Þessi þrjú vers eru samhljóða Es. 2,2–4.