Jeremías ræður frá förinni til Egyptalands.

1Og allir herforingjarnir og Jóhanan, sonur Kareas, og Jesanía, sonur Hosaja, og allt fólkið, svo smár sem stór, gengu fram,2og sögðu við Jeremía spámann: Leyf oss auðmjúklega að grátbæna frammi fyrir þér, og bið Drottin þinn Guð fyrir oss, fyrir allar þessar leifar; því fáir erum vér eftir orðnir af mörgum, eins og þín augu sjá oss:3að Drottinn þinn Guð opinberi oss, hvörn veg vér skulum fara, og hvað vér eigum að gjöra.4Og Jeremía spámaður sagði til þeirra: gott og vel! eg skal gjöra það, eg skal biðja Drottin yðar Guð, eins og þér óskið, og eg skal opinbera yður allt sem Drottinn svarar yður, og öngvu fyrir yður leyna.5Og þeir sögðu við Jeremía: Drottinn sé móti oss sannur og áreiðanlegur vottur, ef vér ei gjörum öldungis eins og Drottinn þinn Guð býður þér, oss viðvíkjandi!6Það veri gott eða illt, raustinni Drottins vors Guðs, sem vér sendum þig til, viljum vér hlýða, svo að oss vel vegni, þegar vér hlýðnumst raustinni vors Guðs.
7Og eftir tíu daga kom orð Drottins til Jeremía.8Og hann kallaði Jóhanan, son Kareas, og alla herforingjana, sem með honum voru, og allt fólkið, smáan sem stóran,9og mælti til þeirra: svo segir Drottinn, Ísraels Guð, sá sem þér senduð mig til, að eg bæri fyrir yður auðmjúka grátbeiðni:10ef þér búið kyrrir í þessu landi, svo vil eg yður uppbyggja, og ekki niðurrífa, og eg vil yður gróðursetja og ekki uppræta, því eg iðrast þess illa sem eg hefi gjört yður.11Verið óhræddir við kónginn af Babel, sem þér eruð hræddir við; verið ekki hræddir um yður fyrir honum! segir Drottinn, því eg er hjá yður til að hjálpa yður, og frelsa yður af hans hendi.12Og eg skal útvega yður miskunn, að hann aumkist yfir yður og láti yður koma til baka í yðvart land.13En ef þér segið: vér viljum ekki vera í þessu landi, svo að þér ekki hlýðið raust Drottins yðar Guðs,14og segið: nei, vér viljum heldur fara til Egyptalands, svo vér sjáum ekkert stríð, og heyrum ekki lúðraþyt, og sveltum ekki af brauð (skorti), og þar viljum vér vera.15Nú þá, heyrið því orð Drottins, þér Júdaleifar! svo segir Drottinn herskaranna, Ísraels Guð: ef að þér snúið yðar andliti þá leið, að fara til Egyptalands, og komið þangað til að staðnæmast þar:16svo mun sverðið sem þér eruð hræddir við, ná yður þar í Egyptalandi; og það hungur, sem þér hafið beyg af, skal vera á hælum yðar til Egyptalands, og þar munuð þér deyja.17Allir þeir sem snúa sínu andliti á þá leið, að fara til Egyptalands, til að staðnæmast þar, þeir munu deyja fyrir sverði, hungri og drepsótt; og enginn þeirra mun eftir verða, og sleppa undan ógæfunni, sem eg yfir þá leiði.18Því svo segir Drottinn herskaranna, Ísraels Guð: eins og mín reiði og mín grimmd hefir úthellt sér yfir Jerúsalems innbúa, svo skal mín grimmd úthellast yfir yður, ef þér farið til Egyptalands; og þér skuluð verða að bölvun, (eiginl: að eyði), og að viðbjóð, og að formælingu, og að smán, og ekki aftur sjá þennan stað.19Drottinn hefir til yðar talið, þér Júdaleifar! farið ekki til Egyptalands; vita skuluð þér, að eg í dag hefi það vitnað fyrir yður;20því þér táldragið, yður til tjóns, yðar sálir; því þér hafið sent mig til Drottins yðar Guðs, og sagt: bið Drottin, vorn Guð, fyrir oss, og opinbera oss allt, sem Drottinn vor Guð segir, og vér viljum það gjöra.21Og nú hefi eg opinberað yður það; en þér hlýðið ekki raust Drottins yðar Guðs, og öllu sem hann bauð mér, yður viðvíkjandi.22Og nú skuluð þér vita, að þér munuð deyja á þeim stað, hvört yður langar að fara, til þess þar að staðnæmast, fyrir sverði, fyrir hungri, og fyrir drepsótt.