Unnin Ógg kóngur í Basan.

1Síðan fórum vér þaðan, og héldum veginn til Basan, þá réðst kóngurinn Ógg af Basan út á móti oss með öllu sínu liði til að heyja bardaga við Edrei.2En Drottinn sagði við mig: Vertú óhræddur við þá, því eg hefi gefið í þínar hendur, bæði hann sjálfan, lið hans allt og land, skaltú svo fara með hann, eins og þú fórst með Síhon Amorítakóng sem bjó í Hesbon.3Svo Drottinn vor Guð gaf oss þannig í hendur einnig Ógg kónginn í Basan og allt lið hans, svo vér drápum þar hvört mannsbarn.4Um sama leyti sigruðum vér allar hans borgir og var sú engin, að vér ekki næðum undan honum, en þær voru talsins 60 í héraðinu Argob, sem Ógg af Basan hafði til yfirráða;5allar þessar borgir voru rambyggðar með háum múrveggjum, hliðum og slagbröndum, hér að auk var fjöldi mikill af óumgirtum þorpum,6og settum vér þá í bann *) eins og vér höfðum áður gjört við Síhon kónginn af Hesbon, vér settum í þetta bann allar borgirnar bæði menn, konur og börn.7En allan fénað og herfang úr borgunum drógum vér undir oss.
8Með svofelldu móti tókum vér á þeim tíma, af hendi beggja Amorítakónga, land allt hinumegin Jórdanar, frá læknum Arnon, allt til fjallsins Hermon.9Fjallið Hermon kalla Sídonítar Sirion, en Amorítar kalla það Senir.10Allar borgir á flatlendinu allt frá Gileað og Basan til Salka og Edrei heyrðu undir kóngsríki Óggs af Basan.11Því kóngurinn Ógg í Basan var sá eini sem eftir var orðinn af risunum. Sjá þú! hans járnsæng er hér í Rabbat hjá Amorítum, hún er 9 álna löng, og 3 álna breið, alinin reiknuð eftir karlmanns alboga.12Vér lögðum þetta land undir oss þann tíma, frá Aroer, sem er við lækinn Arnon, og hálft Gíleaðfjall með sínum borgum, og eg gaf það þeim Rúbenítum og Gaðítum;13en það sem eftir var gaf eg hálfri Manassis ættkvísl (allt héraðið Argob og allt Basan kallast risaland;14Jair son Manassis nam allt héraðið Argob til Gessúri og Maakati landamerkja, og hann kallaði Basan eftir sér Jaírsþorp og helst það nafn við enn í dag).15Makkir gaf eg Gileað,16Rúbenítum og Gaðítum gaf eg part af Gileað til Arnonlæks, eða í hann miðjan, hvar mörkin eru, og allt að ánni Jabok, hvar merki eru Amorítalands,17sömuleiðis flatlendið og Jórdan, sem er á mörkum, frá vatninu Kinneret til sjávarins á sléttlendinu, sem er Saltisjórinn, neðanvert við fjallið Písga austan í móti.18Um sama leyti bauð eg yður og sagði: Drottinn yðar Guð hefir gefið yður þetta land til eignar; gangið þess vegna herklæddir á undan bræðrum yðar, Ísraelsbörnum, allir þér sem þar til eruð færir,19nema konur yðar, börn og fénaður, því eg veit þér hafið mikinn fénað. Þetta skuluð þér allt skilja eftir í þeim borgum sem eg hefi gefið yður,20þangað til Drottinn kemur bræðrum yðar til hvíldar eins og yður, og þeir eru búnir að ná því landi, sem Drottinn yðar Guð mun gefa þeim hinumegin við Jórdan, þá skal hvör yðar mega snúa aftur til eigna sinna sem eg hefi honum gefið.21Um sama leyti bauð eg Jósúa: þín augu hafa séð allt hvað Drottinn yðar Guð hefir gjört þessum 2 kóngum, sama mun Drottinn gjöra við öll þau kóngsríki sem þú átt að koma til.22Verið ei hræddir við þá, því Drottinn yðar Guð mun stríða fyrir yður.23Þá beiddi eg Drottin og sagði:24Drottinn minn Guð, þú hefir byrjað að sýna þínum þénara þitt veldi og þína öflugu hönd, því hvör er sá Guð á himni eða jörðu sem fái komist nærri þínum verkum og þínum mætti?25Lofaðu mér að sjá það góða landið hinumegin við Jórdan, fjallið góða og Libanon.26En Drottinn reiddist mér yðar vegna og bænheyrði mig ekki, en sagði við mig: slepptu þessu, og tala ekki við mig um það oftar!27Stíg þú upp á tindinn á Písgafjalli, og lyft augum þínum mót vestri, norðri, suðri og austri, og lít þaðan yfir landið, því þú munt ekki komast yfir þessa Jórdan.28En seg þú Jósúa að vera huggóðum og öruggum, því hann skal vera yfir þessu fólki, og hann skal skipta með því landinu sem þú munt sjá.
29Dvöldum vér svo um hríð í dalnum á móts við Betpeor.

*) Í hebreskunni þýðir orðið að helga eður ánafna. Með þessu móti helguðu Gyðingar Jehóva bæði fénað, lendur og menn, sem þeir höfðu hertekið, þær lendur er þannig vóru helgaðar féllu prestinum, en mennirnir vóru líflátnir, var svo mikil helgi á þessu að ef einhvör skaut manni eða öðru undan, var hann sjálfur dræpur. Í stríðum við heiðingja vóru stundum heilar borgir með öllu, helgaðar með þessum hætti, eða sem betur lætur í voru máli, settar í bann.