Guðhræðsla Tobía og mótgangur.

1Bók sögunnar um Tobías, son Tobíels, sem var sonur Ananíels, sonar Adúels, sonar Gabaels, af ætt Afíels, af kynþætti Naftalí,2sem á dögum Enemessars, (Salmanassar), Assýríukóngs, var fluttur hertekinn frá Tisbe, sem liggur hægramegin við Kedes-Naftali í Galíleu fyrir ofan Asor.
3Eg Tobías gekk á sannleikans og réttlætisins vegum alla daga míns lífs og veitti margvíslega velgjörð bræðrum mínum og landsmönnum, sem með mér fóru til Ninive í Assýríumannaland.4Og meðan eg enn nú lifði í mínu föðurlandi, í Ísraelslandi, og var ungur maður, hafði Naftali kynkvísl (ætt) föður míns, fallið frá Jerúsalems húsi, sem útvalið var af öllum Ísraels kynkvíslum, til þess að allar kynkvíslir skyldu (þar) fórnfæra, og musteri var helgað til bústaðar þeim æðsta og byggt fyrir allar ættkvíslir til eilífðar.5Og allar kynkvíslir, sem líka voru fráfallnar, færðu fórnir Baalskálfi, og ætt föður míns Naftali sömuleiðis.6En eg einn fór oft til Jerúsalem á hátíðum, eins og öllum Ísraels lýð er fyrirskrifað með eilífri reglugjörð, og eg tók frumgróða og tíundir af afrakstrinum, og þau fyrst afskornu vínber og gaf þetta prestunum, Aronssonum, altarinu til handa.
7Af öllum afrakstrinum gaf eg (fyrst) tíund Levísonum, sem höfðu þjónustugjörðina í Jerúsalem; og þá aðra tíund seldi eg, og fór og eyddi henni árlega í Jerúsalem;8og þá þriðju tíund gaf eg þeim sem hana áttu, eins og Debóra bauð mér, móðir föður míns; því munaðarlaus var eg eftirskilinn af föður mínum.
9Og þegar eg var orðinn fulltíða maður, tók eg mér konu af voru föðurkyni, Önnu, og með henni átti eg Tobías.10Og þegar við vorum flutt hertekin til Ninive, átu allir mínir bræður og allir af minni ætt heiðingjanna fæðu.11En eg varðveitti mína sál, svo eg át ei þar af,12því eg mundi til Guðs af allri sálu.13Og sá æðsti gaf mér gunst og fríðleik frammi fyrir Enemessar og eg varð hans kaupmaður.14Og eg fór til Medíen, og fékk Gabael, bróður Gabría, í Rages, í Medíen, 10 talenta a) silfurs.15Og þegar Enemessar dó, varð hans son Sennakerím (Sankeríb) kóngur í hans stað, og hans ráðlag var hvikult og eg gat ekki framar komið til Medíen.16Og á dögum Enemessars veitti eg marga velgjörð bræðrum mínum: mitt brauð gaf eg þeim hungruðu,17og klæði þeim nöktu; og hvörn sem eg sá af mínu fólki dáin, er kastað hafði verið út fyrir Niniveborgar vegg, jarðaði eg.18Og þegar kóngurinn Sennakerim drap einhvörn er kom úr Júdalandi sem flóttamaður, svo stalst eg til að jarða hann; því hann drap marga í sinni reiði. Og kóngur lét leita líkanna og þau fundust ekki.19Þá fór einhvör af þeim í Ninive, og kom þessu upp um mig hjá kónginum, að eg jarðaði þá, og eg fól mig. En sem eg varð þess áskynja að mín var leitað, svo eg yrði drepinn, varð eg hræddur og strauk.20Þá var allt tekið frá mér, sem eg átti, og ekkert átti eg eftir nema konu mína Önnu og son minn Tobías.21En ekki liðu 50 dagar þangað til báðir synir hans (Sennakerims) drápu hann; og þeir flúðu í fjallið Ararat. Og Sakerdon (Assarhaddon), hans son, varð kóngur í hans stað. Og hann setti Akiarkus, son bróður míns Anaels, yfir alla reikninga síns ríkis og yfir alla bústjórnina.22Og Akiarkus bað fyrir mig, og svo kom eg aftur til Ninive. En Akiarkus var skenkjari og innsiglisgeymari og ráðsmaður og reikningsmeistari, og Sakerdon hafði hann næstan sér í ríkinu. En hann var bróðurson minn.

V. 13. Gunst og fríðleik, þ. e. kónginum leist á hann, því hann var fríður sýnum. V. 14. a. Talent, þ. e. 5 til 10 þúsund ríkisdalir.