Spámaður Drottins kunngjörir frelsun Gyðinga, og lýsir sæluhag þeirra; lofsöngur þjóðarinnar.

1Andi Drottins hins alvalda er yfir mér, því Drottinn hefir smurt mig til að flytja hinum nauðstöddu fagnaðarboðskap; hann hefir sent mig til að lækna hin særðu hjörtun, til að kunngjöra hinum herteknu frelsi, og hinum fjötruðu lausn,2til að kunngjöra líknarár Drottins (49,8) og hefndardag vors Guðs, til að hugga alla sorgbitna,3til að sýna og gefa hinum sorgbitnu Síonsborgar innbyggjendum höfuðdjásn fyrir ösku, fagnaðar viðsmjör fyrir hryggð, vegleg klæði a) fyrir harmþrunginn anda. Þeir munu kallaðir verða „heillavænleg terpentíntré, rótsett af Drottni, honum til vegsemdar“.4Þeir munu upp byggja hinar fornu borgarrústirnar, viðrétta aftur það, sem áður fyrr meir lá í eyði, reisa af nýju enar niðurbrotnu borgir, sem legið hafa við velli í marga mannsaldra.5Útlendingar skulu standa yfir hjörðum yðar, og synir útlendra manna vera yðar akurmenn og víngarðsmenn.6En þér skuluð kallast kennimenn Drottins, og heita þjónar vors Guðs; þér skuluð njóta auðlegðar heiðingjanna, og hafa fullræði yfir ríkdómi þeirra.7Fyrir þá smán, sem yður hefir verið gjörð, skuluð þér fá tvöföld laun; og fyrir þá sívirðingu, sem þeir urðu að þola, skulu þeir fagna glaðir á óðölum sínum; já, þeir skulu eignast tvöföld óðöl í landi sínu, og eilífur fögnuður skal falla í skaut þeim.8Því eg Drottinn elska réttindi, en hata rangfengnar brennifórnir; eg geld þeim réttilega sín laun, og bind við þá eilíft sáttmál.9Afsprengi þeirra skal vera auðkennt meðal þjóðanna, og afkomendur þeirra meðal annarra manna, allir, sem sjá þá, skulu þekkja, að þeir eru sú kynslóð, sem Drottinn hefir blessað.10Eg vil gleðja mig í Drottni, mín sál skal glaðvær vera í Guði mínum, því hann hefir íklætt mig klæðum hjálpræðisins, og lagt yfir mig kyrtil réttlætisins, eins og þegar brúðgumi lætur á sig prýðilegan höfuðbúning, og brúður býr sig í skart sitt.11Því eins og jörðin lætur grösin upp koma, og aldingarðurinn frækornin upp spretta, eins mun Drottinn hinn alvaldi láta réttlæti og vegsemd upp renna í augsýn allra heiðingja.

V. 3. a. Í staðinn fyrir „vegleg klæði“ hafa sumir útleggjendur „lofsöng“, aðrir „glaðværð“.