Jesús kallar sig dyr á sauðahúsi og hirðir; á tal við Gyðinga á vígsluhátíðinni.

1Sannlega, sannlega segi eg yður: hver, sem ekki gengur um dyrnar inn í sauðahúsið, heldur fer inn annars staðar, sá er þjófur og ræningi.2En sá, sem gengur inn um dyrnar, sá er hirðir sauðanna;3dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum og sauðirnir þekkja hans raust og hann kallar sína sauði með nafni og fer út með þá.4Og eftir að hann hefir látið út sína sauði, gengur hann fyrir þeim og sauðirnir fylgja honum, af því þeir þekkja hans raust; en ókunnugum fylgja þeir ekki,5heldur hlaupa frá honum, af því þeir þekkja ekki ókunnugra raust.6Þessa eftirlíkingu sagði Jesús til þeirra, en þeir skildu ekki hvað það var, sem hann talaði til þeirra.7Þess vegna sagði Jesús aftur til þeirra: sannlega, sannlega segi eg yður: eg em dyr sauðanna.8Allir, sem komu á undan mér eru þjófar og ræningjar, en sauðirnir gegndu þeim ekki.9Eg em dyrnar, ef nokkur gengur inn um mig, sá mun frelsast og hann mun ganga inn og ganga út og fá fóður.10Þjófurinn kemur ekki til annars en að stela, drepa og skemma. Eg em kominn til þess, að þeir hafi líf og nægtir.11Eg em góði hirðirinn; sá góði hirðir gefur líf sitt út fyri sauðina;12en leiguliðinn og sá, sem ekki er hirðir og á ekki sauðina, hann sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr og úlfurinn grípur þá og tvístrar sauðunum,13en leiguliðinn flýr, af því hann er leiguliði og hirðir ekki um sauðina.14Eg em góði hirðirinn, eg þekki mína og mínir þekkja mig, eins og eg þekki Föðurinn og Faðirinn þekkir mig;15og eg gef út lífið fyrir sauðina.16Eg hefi aðra sauði, sem ekki eru af þessu sauðahúsi, þá byrjar mér og að leiða a) og þeir munu heyra mína raust og þar mun verða ein hjörð og einn hirðir.17Þess vegna elskar Faðirinn mig að eg læt mitt líf, svo að eg taki það aftur.18Enginn tekur það af mér, heldur læt eg það sjálfviljuglega. Eg hefi vald til að láta það og vald til að taka það aftur. Þetta boðorð hefi eg meðtekið af mínum Föður.19Af þessum orðum varð aftur ágreiningur millum Gyðinga.20Margir af þeim sögðu: hann hefir djöful og er óður, hví hlýðið þér á hann?21aðrir sögðu: þessi orð eru ekki djöfulóðs manns orð, mun djöfull geta opnað augu blindra?
22En musterisvígsluhátíðin var haldin í Jerúsalem og þá var vetur.23Og Jesús var á gangi í musterinu í forbyrgi Salómons.24Þá flykktust Gyðingar að honum og sögðu: hversu lengi ætlar þú að halda sálu vorri í efa? ef þú ert Kristur, þá segðú oss það einarðlega.25Jesús svaraði þeim: eg hefi sagt yður það, en þér trúið ekki. Þau verk, sem eg gjöri í míns Föðurs nafni, þau vitna um mig:26en þér trúið ekki, því þér eruð ekki af mínum sauðum.27Eins og eg sagða yður, þekkja mínir sauðir mína raust og eg þekki þá og þeir fylgja mér,28og eg gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu týnast, enginn skal slíta þá úr minni hendi.29Faðir minn, sem hefir gefið mér þá, er meiri en allir og enginn getur slitið þá úr hendi míns Föðurs.30Eg og Faðirinn erum eitt.31Gyðingar tóku þá upp aftur steina til að grýta hann.32Jesús sagði við þá: mörg góðverk sýnda eg yður frá mínum Föður, fyrir hvert af þessum verkum grýtið þér mig?33Gyðingar svöruðu honum og sögðu: vér grýtum þig ekki fyrir gott verk, heldur fyrir guðlast og fyrir það að þú, sem ert maður, gjörir sjálfan þig að Guði.34Jesús svaraði þeim: er ekki skrifað í yðar lögum a): „eg hefi sagt: þér eruð Guðir“.35Ef (Ritningin) kallar þá Guði, til hverra Guðs orð skeði b) og Ritningin getur ekki raskast,36megið þér þá segja við þann, sem Faðirinn vígði og sendi í heiminn: „þú guðlastar“ af því eg sagði: eg em Sonur Guðs.37Ef eg gjöri ekki verk míns Föðurs, þá trúið mér ekki.38En ef eg gjöri þau, þó þér ekki viljið trúa mér, þá trúið samt verkunum, svo þér þekkið og sannfærist um, að Faðirinn er í mér og eg í Föðurnum.39Þá leituðust þeir við aftur að taka hann,40en hann gekk þeim úr greipum og fór aftur yfir um Jórdan, til þess staðar hvar Jóhannes fyrst skírði c) og var þar.41Og margir komu til hans og sögðu: Jóhannes gjörði að sönnu ekkert jarteikn, en allt hvað Jóhannes sagði um þennan, er satt.42Og margir trúðu þar á hann.

V. 8. Jer. 23,2. V. 16. a. Sjá 4 v. V. 22. 1 Makkab. 4,59. V. 23. 1 Kóng. 6,3. V. 31. Kap. 8,59. V. 34. Sálm. 82,6. 2 Mós. 22,8.9. a. Allar bækur Gamla testamentisins kölluðu Gyðingar lög sín. V. 35. b. Guðs orð skeði til spámannanna, þegar þeir fengu köllun að boða hans vilja eða brýna fyrir Gyðingum boðorð Guðs í hans umboði. V. 39. Kap. 8,59. V. 40. c. Kap. 1,28.