Spádómur um ófarir Egyptalands, og um það, að Egyptar og Assyríumenn muni á síðan snúa sér til Drottins.

1Spádómur um Egyptaland. Sjá, Drottinn ekur á léttfæru skýi, og kemur til Egyptalands; hjáguðir Egyptalands skelfast fyrir hans augliti, og hjörtu egypskra manna renna sundur í brjósti þeirra.2Eg vil vopna hvörn egypskan mann móti öðrum, svo að bróðir skal berjast við bróður, vinur við vin, borg við borg, og ríki við ríki.3Hyggindi Egyptalandsmanna skulu að öngu verða, eg vil ónýta þeirra ráðagjörðir, svo þeir skulu ganga til frétta við hjáguði, galdramenn, útisetukonur og kunnáttumenn.4Eg vil selja Egyptalandsmenn harðráðum drottnum á vald, og grimmur konungur skal ríkja yfir þeim, segir hinn Alvaldi, Drottinn allsherjar.5Vatnið í ánni skal uppþorna, og fljótið (Níl) verða vatnslaust og þurrt.6Vatnsföllin skulu grynnast, díki Egyptalands þverra og þorna, reyrinn og sefið visna.7Engjarnar með fljótinu, við sjálfan árósinn, og öll sáðlönd við fljótið skulu uppþorna, fjúka burt og hverfa.8Þá munu fiskimennirnir verða hryggvir; allir, sem öngli renna í fljótið, munu sýta, og þeir, sem leggja net í vatnið, munu blikna.9Þeir sem hörinn vinna, og vefa línið, verða sér til minnkunar.10Bústólpi landsins skal bresta í sundur, og allir verklaunamenn verða hugdaprir.11Höfðingjarnir í Sóansborg eru ráðlausir; ráðleggingar hinna vitru ráðgjafa faraós eru heimskulegar. Hvörsu dirfist þér að segja við faraó: eg em sonur vitringanna, og kominn af ætt fornkonunganna?12Hvar eru nú vitringar þínir? Lát þá nú kunngjöra þér, svo menn verði vísari, hvörja fyrirætlan Drottinn hafi með Egyptaland!13Höfðingjarnir í Sóansborg standa eins og afglapar, höfðingjarnir í Nofsborg eru á tálar dregnir; höfuðsmenn hinna egypsku ættkvísla leiða Egyptaland í villu.14Drottinn hefir byrlað þeim sundlunaranda a), svo þeir gjöra það, að Egyptaland er á reiki í öllum þess fyrirtækjum, eins og drukkinn maður reikar þar um, sem hann hefir spúið.15Ekkert skal Egyptalandi heppnast af því, sem æðri menn eða lægri, meira eða minnaháttar menn b) taka sér fyrir hendur að gjöra.16Á þeim degi skulu egypskir menn vera sem konur, hræddir og skjálfandi fyrir reiddri hönd Drottins allsherjar, þegar hann hefir hana á lofti uppi yfir þeim.
17Þá skal Egyptalandi standa sá ótti af Júdalandi, að sérhvör, sem heyrir þess getið, skal skjálfa af hræðslu fyrir þeirri ráðstöfun, sem Drottinn allsherjar hefir ályktað yfir landinu.18Á þeim tíma munu fimm borgir í Egyptalandi, tala á kanverska tungu, og sverja við Drottinn allsherjar; ein af þeim borgum skal nefnast Frelsunarborg.19Á þeim tíma mun altari Drottins standa í miðju Egyptalandi, og minnisvarði Drottni til heiðurs við takmörk landsins.20Það skal vera til teikns og vitnisburðar í landi egypskra manna, um Drottin allsherjar; því þegar þeir kölluðu á Drottin til hjálpar sér í gegn ofríkismönnunum, þá sendi hann þeim hjálparmann og fyrirliða, og frelsaði þá.21Drottinn mun kunnur verða Eyptalandsmönnum, og egypskir menn munu læra að þekkja Drottin á þeim degi; þeir munu fórna slátursfórnum og matfórnum, vinna Drottni heit og gjalda þau.22Drottinn slær Egyptalandsmenn, en eins og hann slær þá, eins græðir hann þá; þegar þeir snúa sér til Drottins, mun hann bænheyra þá, og lækna þá.23Þá skal brautarvegur leggjast frá Egyptalandi til Assýralands; Assýríumenn skulu koma til Egyptalands, og Egyptar til Assýralands; og Egyptar skulu þjóna Assýríumönnum c).24Á þeim tíma munu Egyptalandsmenn, Assýríumenn, og Ísraelsmenn hinir þriðju, vera blessaðar þjóðir á jörðu;25því Drottinn allsherjar mun blessa þá, og segja: „blessað vertú, mitt fólk, þér Egyptalandsmenn! og þú, verkið minna handa, þér Assýríumenn! og þú, mín arfleifð, þér Ísraelsmenn“!

V. 14. a. Þ. e. gjört þá truflaða og ráðlausa. V. 15. b. á hebr. „höfuðið og halinn, pálmakvisturinn og sefreyrinn“, eins og 9,13. V. 23. c. aðrir útleggja: „að Egyptar skulu þjóna (Guði) ásamt með Assyríumönnum.