Nikanor er sigraður og deyr.

1En er Nikanor heyrði að Júdas og hans menn héldu til á Samaríufjöllum, einsetti hann sér að yfirfalla þá á hvíldardegi, (því hann hélt það) hættulaust.2Þeir Gyðingar, sem neyddir voru til að fara með honum, sögðu: fyrirfar þeim ei svo hörmulega og grimmilega, heldur haf í heiðri þann dag, sem sá alvoldugi hefir helgað.3En sá vitstola (maður) spurði: er nokkur herra á himnum, sem boðið hefir að halda helgan hvíldardaginn?4Þeir svöruðu: það er sá lifandi Guð sjálfur, Herrann á himnum, sem boðið hefir að halda helgan þann sjöunda dag.5En hann mælti: og eg, herra á jörðunni, býð að taka vopn, og gegna kóngsins þjónustu. Þó tókst honum ekki að framkvæma þetta svívirðilega áform.
6Nikanor hóf sig sannarlega hátt með ofmetnaði, og ætlaði sér að hrósa fullkomnum sigri yfir Júda og hans mönnum.7En Makkabeus treysti því óaflátanlega, með allri von, að hann mundi fá hjálp frá Drottni,8og áminnti sína menn, að hræðast ekki þá heiðingja sem að þeim færu, heldur muna til þess liðsinnis, sem þeir hefðu áður fengið af himni, og að vona líka nú, að þeim mundi veitast sigur og hjálp af þeim almáttuga.9Hann huggaði þá með lögmálinu og spámönnunum, og minnti þá á orrusturnar, sem þeir höfðu unnið og gjörði þá örugga.10Hann hressti upp þeirra hug, og eggjaði (til hreysti), með því að setja þeim ásamt fyrir sjónir heiðingjanna svik og meinsæri.11Hann vopnaði einn og sérhvörn þeirra, ekki svo með hlífð skjalda og spjóta, sem huggun hressandi orða, og þá hann hér að auki sagði þeim draum, trúverðuga sýn, svo gladdi hann þá alla.
12En þessa manns sýn var þessi: Onías (sagði hann) sem verið hafði höfuðprestur, vænn og ráðvandur maður, siðsamur í hegðan, hógvær í siðum, sómasamlegur í tali, og sem frá æsku hafði lagt stund á alla mannkosti: þessi breiddi út sínar hendur um nóttina og bað fyrir öllu Gyðingafólki.13Síðan kom í ljós framúrskarandi maður nokkur gráhærður og dýrðlegur, umkringdur furðanlegri og vegsamlegri hátign;14þá mælti Onías: þessi er bræðra vinurinn, sem bað svo mikið fyrir fólkinu og þeirra heilögu borg, Spámaður Guðs, Jeremías;15og hefði þá Jeremías rétt fram höndina og fengið Júdas gullbúið sverð, og í því hann rétti það að honum, kallað þetta til hans:16tak þetta heilaga sverð sem gjöf frá Guði, með því muntu fella óvinina.
17Hresstir af þessum Júda fögru orðum, sem geta vakið til hreysti og uppörvað hjörtu ungra manna, einsettu þeir sér að setja ekki herbúðir, heldur ráðast í móti (óvinunum) með karlmennsku, og berjast með allri hreysti, og láta sverfa til stáls, þar eð borg og helgidómur og musteri væri í hættu.18Því orrusta fyrir konur og börn, fyrir bræður og náunga lá þeim minna á hjarta, mesta og fyrsta umhyggjan viðvék því helgaða musteri.19En þeir sem eftir höfðu orðið í borginni, voru ei heldur í lítilli angist, þeir voru órólegir, út af þeim (fyrir hendi verandi) bardaga, út á landinu.20Þegar nú allir bjuggust við þeirri nálægu úrlausn, og óvinirnir voru farnir að hópa sig, og farið var að fylkja liðinu, og setja fílana á hentuga staði, og skipta riddaraliðinu til beggja fylkingar armanna,21og Makkabeus sá nálægð fjöldans, þann margbreytilega vopnaútbúnað og ólmleika fílanna, hóf hann upp sínar hendur til himins, og ákallaði Drottin, þann alskyggna, sem gjörir furðuverkin, sannfærður um, að sigurinn kemur ei fyrir vopnin, heldur að þessi veiti verðugum sigurinn, eftir því sem hjá honum er ályktað.22En hann ákallaði hann með eftirfylgjandi orðum: þú Drottinn sendir þinn engil á dögum Esekía Júdakóngs, og deyddir af Sankeríbs umsátursher, hartnær 185 þúsundir;23svo send og nú, himinsins herra, góðan engil fyrir oss, til skelfingar og hræðslu (óvinunum).24Skelfist þeir af stærð þíns armleggs, sem með lastmælum ganga fram móti þínu heilaga fólki! Og þar með hætti hann.
25Nikanors her fór nú fram með trumbum og stríðssöng;26Júdas og hans menn þar á mót réðust á óvinina biðjandi og grátandi.27Þeir börðust með höndunum, og báðu Guð með hjörtunum, og lögðu að velli ei færri en 35 þúsundir óvinanna, og glöddust mjög af Guðs bersýnilegu hjálp.28Þegar orrustan var úti, og þá þeir sneru til baka með fögnuði, fundu þeir Nikanor fallinn í hans herklæðum.29Þá kom upp óp mikið og ys, og þeir lofuðu Drottin á feðra sinna tungu.30Og sá látið hafði líkama og sál í sölurnar í því hann barðist fremstur í flokki fyrir sína meðborgara, sem hafði auðsýnt elsku sínum landsmönnum, bauð að höggva höfuðið af Nikanor, og höndina með öxlinni og fara með það til Jerúsalem.31Þegar hann var þar kominn, kallaði hann saman sína landsmenn, skipaði prestunum niður fyrir framan altarið, og lét setuliðið koma úr kastalanum.32Þá sýndi hann þess óguðlega Nikanors höfuð og guðlastarans hönd, sem hann hafði með ofmetnaði hafið móti helgidómi þess almáttuga.33Hann skar og tunguna úr þeim guðlausa Nikanor, og bauð að kasta henni fyrir fugla í smábitum og hengja upp þá óhreinu (óguðlegu) hönd fyrir framan musterið.34Allir prísuðu nú hátt (svo ópið sté) til himins, þann hjálpsama Drottinn, og sögðu: lofaður sé sá sem varðveitt hefir sinn stað óflekkaðan!35Nikanors höfuð hengdi hann upp á kastalann, svo það væri glöggt og öllum auðsætt merki Drottins hjálpar.36Og þeir einskorðuðu allir með samhljóða atkvæðum að láta ei þennan dag vera einkennislausan, heldur að halda helgan þann 13da dag í þeim 12ta mánuði, sem heitir í sýrlensku máli adar, daginn á undan Mardokeusdegi.
37Fyrst að þannig er nú komið fyrir Nikanor, og hebreskir upp frá þessu hafa getað haldið staðnum, vil eg hér enda mína frásögu.38Hafi eg sagt hana vel, og eins og sögu á að segja, þá er það einmitt það sem eg vildi sjálfur; en ef illa og í meðallagi, svo gjörði eg þó það sem eg gat.39Eins og það er ekki lystilegt að drekka eintómt vín, og eins eintómt vatn aftur; heldur eins og vín blandað með vatni er þægilegt, og veitir unaðsamlega nautn, svo skemmtir og vel samin saga eyrum þeirra, sem söguna lesa. Þetta sé niðurlagið.