Sama efni.

1Hafir þú verið vinur, þá skaltu ei gjörast óvinur; því illt mannorð, spott og skömm verður hlutdeild slíkra manna, eins og þess tvítyngda.2Upphef þig ekki í áformi þinnar sálar, svo að þín sál ekki verði sundurtætt, eins og manneygt naut.3Þín blöð verði af (þér) nöguð, þínir ávextir skemmdir, og frá þér verði gengið sem þurru tré.4Vond sál eyðileggur sinn eiganda, og gjörir hann að athlægi sinna óvina.
5Blíðlegt ávarp fjölgar vinum, og velhljómandi tunga a) fjölgar vinsamlegum ávörpum.6Margir hafi frið við þig, en einn af þúsund sé þinn ráðanautur.7Eignistu vin, þá skaltu eignast hann í reynslu, og trúðu honum ekki fljótt.8Því margur er vinur þegar honum hagar, og verður ei trúr á degi þinnar neyðar.9Margur vinur verður óvinur og uppljóstar um þig þínum svívirðubardaga.10Margur vinur býður þér gjarnan til borðs með sér, en verður ei trúr þegar þér á liggur.11Í eigum þínum (vasar b) hann sem þú, og við þína heimamenn er hann djarfmæltur.12Gangi þér illa, svo er hann á móti þér, og felur sig fyrir þínu augliti.13Vertu fjærlægur þínum óvinum, og varaðu þig líka á þínum vinum.14Trúr vinur er örugg vörn; og hvör sem hann finnur, sá hefir fundið sjóð.15Trúr vinur er ómetanlegur, engin vog tekur hans verð.16Trúr vinur er læknismeðal lífsins, og þeir, sem óttast Drottin, finna hann.17Sá sem óttast Drottin leiðir sinn vin, því eins og hann er, svo mun og sá annar (vera).
18Elska, barn, uppfræðingu frá æskualdri, svo muntu finna visku til elliára;19eins og sá, sem plægir og sáir, svo haltu þér til hennar, og búst við hennar ávöxtum.20Stuttan tíma muntu mæða þig, með því að vinna að henni, en fljótt muntu njóta hennar ávaxta.21Erfið er hún þeim ónámfúsa, og sá fávísi eirir ei hjá henni.22Eins og mikill prófsteinn leggst hún á hann, og hann frestar ei lengi að snara henni frá sér.23Því viskan er eins og nafn hennar er, og fáum verður hún opinberuð.24Heyr, barn, og meðtak mína tilsögn, og burtskúfa ekki mínu ráði!25Láttu þína fætur í hennar fjötra og þinn háls í hennar hálsband.26Frambjóð þínar herðar og ber hana, og haf engan ímugust á hennar böndum.27Nálægðu þig henni af öllu hjarta, og varðveittu hennar vegu af öllum þínum mætti.28Grennslastu eftir henni, og leita hennar, þá mun hún verða þér kunnug; og eignist þú hana, þá láttu hana ekki frá þér;29því að lyktum muntu endurnæringu af henni hafa, og hún mun snúast þér í fögnuð.30Hennar fjötrar verða þér að sterkri vörn, og hennar hálsband að dýrðlegu skarti.31Því hún ber gullskart, og hennar bönd eru ofin úr bláu silki.32Þú munt klæðast henni sem dýrri skikkju, og setja þér á höfuð fagnaðarkórónu.33Viljir þú, barn, svo verður þú menntað, og gefir þú þína sál (viskunni) fær þú hyggindi.34Ef þú girnist að heyra, muntu meðtaka (hana), og leggir þú við eyrun, svo verður þú hygginn.
35Kom þú á samkomur enna gömlu, og halt þig til hvörs manns sem er vitur.36Heyr þú gjarnan hvað eitt tal um guðleg efni, og láttu ei hjá þér skjótast snillyrði viskunnar.37Hvar sem þú sér skynsaman mann, þá heimsæk hann snemma, og þinn fótur gangi oft um hans dyrastiga.38Hugsa um Drottins boðorð, og mundu ætíð til hans skipana. Hann mun festa þitt hjarta, og þín löngun eftir visku, mun þér veitast.

V. 5. a. Eiginl. sætur barki. V. 11. b. Eiginl. er hann.