Spádómi um Messías framhaldið.

1Hvör trúir því, sem vér kunngjörum? Og armleggur Drottins, hvörjum er hann opinber orðinn?2Hann rann upp eins og runnur fyrir hans augliti, og sem rótarkvistur úr þurri jörðu. Á honum var engi fegurð, ekkert glæsilegt, að oss gæfi á að líta, ekkert álitlegt, sem oss fyndist til.3Hann var fyrirlitinn og af mönnum yfirgefinn, undirorpinn harmkvælum, auðkenndur af sárum, líkur manni þeim, er menn byrgja fyrir andlit sín, svo fyrirlitinn, að vér möttum hann einskis.4Þó bar hann vor sár, og lagði á sig vor harmkvæli; en vér álitum hann refsaðan, sleginn og lítillættan af Guði.5Og þó var hann vegna vorra misgjörða særður, og fyrir vorra synda sakir lemstraður; hegningin lá á honum, svo vér höfðum frið, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.6Vér fórum allir villir vega, sem sauðir: hvör vor stefndi sína leið; og þó lagði Drottinn á hann syndir vor allra.7Sektin var krafin, og hann leið: hann lauk ei upp sínum munni, sem lamb það, er til slátrunar er leitt; eins og sauðurinn þegir fyrir þeim, er hann klippir, eins lauk hann ei upp sínum munni.8Frá angist og dómi er hann burt numinn; en hvör af samtíðamönnum hans mundi hugsa, að hann væri af landi lifendra burt hrifinn fyrir misgjörða sakir míns fólks, sökum þeirrar hegningar er fyrir því lá?9Svo var til ætlað, að gröf hans skyldi vera meðal illræðismanna, en legstaður hans var látinn vera hjá ríkum manni, af því hann hafði engum órétt gjört, og engin svik voru í hans munni.10Drottinn lét sér vel líka að kremja hann með harmkvælum. En þegar hann hefir látið líf sitt til sektafórnar, þá skal honum afsprengis auðið verða, og langra lífdaga; og áform Drottins mun fyrir hans hönd framgengt verða.11Fyrir þær mannraunir, sem hann leið, skal hann njóta gnóglegra launa. Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti þjón minn, marga réttláta gjöra, því hann bar þeirra syndir.12Þess vegna vil eg gefa honum marga í sitt hlutskipti, og hann skal öðlast hina voldugu að herfangi, fyrir það að hann útgaf sitt líf í dauðann og var með illræðismönnum talinn, og af því hann bar margra syndir og bað fyrir afbrotamönnunum.