Jesús fæðist; er umskorinn; færður Drottni til musterisins; er uppalinn í Nasaret; fer 12 ára til páskahátíðarinnar.

1Um þessar mundir kom það boð frá Augústus keisara, að taka skyldi manntal um allan heim.2(Þetta manntal varð fyrst þá Kyreníus var landshöfðingi á Sýrlandi).3Fóru þá allir til manntals, hvör til sinnar borgar.4Þá fór og Jósep frá Galíleu úr borginni Nasaret upp til Júdeu til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, því hann var af húsi b) og kynþætti Davíðs,5til manntals, ásamt með Maríu heitkonu sinni, sem þá var með barni.6En svo bar við á meðan þau dvöldu þar, að kom að þeim tíma, er hún skyldi ala barnið,7fæddi hún þá Son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann niður í jötuna, því þau fengu ekki húsrúm í gestaherberginu.8En í því byggðarlagi voru fjárhirðarar, er vöktu úti um nóttina yfir hjörð sinni;9og sjá, engill Drottins stóð hjá þeim, og mikil birta ljómaði í kringum þá, urðu þeir við það næsta hræddir;10þá tók engillinn svo til orða: óttist ekki—sagði hann—því eg flyt yður stór fagnaðartíðindi, sem viðkoma öllu fólki;11því í dag er yður Frelsari fæddur, hvör að er Drottinn Kristur, í borg Davíðs,12og hafið það til marks, að þér munuð finna reifað barn liggjanda í jötunni.13Strax var þar hjá englinum mikill fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:14dýrð sé Guði í upphæðum, friður á jörðu, og (Guðs) velþóknan yfir mönnunum.15Eftir að englarnir vóru farnir til himna, sögðu hirðararnir hvör við annan: vér skulum fara til Betlehems og sjá þenna atburð, sem Guð hefir oss kunngjört.16Síðan fóru þeir með skyndi, fundu Maríu og Jósep, og barnið liggjanda í jötunni;17skýrðu síðan frá því, er þeim hafði verið sagt um sveininn,18og undruðust allir, er heyrðu sögu þeirra.19En María hugfesti allt þetta gaumgæfilega.20Síðan sneru hirðararnir aftur, lofuðu Guð og vegsömuðu fyrir allt það, er þeir höfðu séð og heyrt, sem allt bar saman við það, er þeim hafði sagt verið.
21Þegar liðnir voru átta dagar, þá hann skyldi umskerast, var hann nefndur J e s ú s, eins og hann var kallaður af englinum c), áður en hann var getinn í móðurlífi.
22En er þeirra hreinsunartími var liðinn, eins og Mósislög bjóða, fóru þau með hann til Jerúsalem til að færa hann Drottni,23(eins og boðið er í lögmáli Guðs, að „allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal vera Drottni helgað“),24og færa þá fórn, sem boðin er í lögmáli Guðs, sem var tvær turtildúfur eða tveir dúfuungar.25Þá var í Jerúsalem sá maður, er Símeon hét, hann var ráðvandur og guðrækinn, og vænti eftir huggun Ísraelsmanna, og heilagur Andi var yfir honum.26Honum hafði Guð birt, að hann ekki skyldi deyja, fyrr enn hann sæi Drottins Smurða a).27Símeon kom að andans tillaðan, í musterið, í því sama og foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesúm, til að fara með hann eftir lögmálinu, eins og siður var til;28hann tók hann í fang sér, og lofaði Guð með þessum orðum:29„lát þú nú, Drottinn! þjón þinn í friði (héðan) leysast, eins og þú hefir mér heitið,30þar eð eg hefi fengið að sjá þann,31sem þú hefir ætlað til hjálpræðis öllum þjóðum,32til upplýsingar heiðingjum og vegsemdar Ísraelsfólki.33En Jósep og móðir hans undruðust yfir því, er um hann var spáð.34Síðan bað Símeon þeim góðs, og mælti svo til Maríu móður hans: þessi er settur til að verða mörgum Ísraelsmanna til falls og mörgum til viðreisnar, og til að verða það tákn b), hvörju móti verður mælt.35{En (sorgar)sverð mun þína eigin sálu nísta,} svo margra hjartans hugrenningar munu verða opinberar c).36Þar var og Anna spákona, dóttir Fanúels af ætt Assers, hún var þá hnigin á efra aldur, hafði verið sjö ár í hjónabandi með manni sínum, er fékk hennar meyjar;37nú var hún ekkja, og hafði hér um bil fjóra vetur um áttrætt. Hún var jafnan í musterinu, og dýrkaði Guð nætur og daga með föstum og bænum.38Hana bar þar að í því sama, prísaði hún Guðs gæsku, og lagði út af henni fyrir öllum þeim í Jerúsalem, sem Frelsarans væntu.39Nú er þau höfðu lokið öllu, er lögmál Drottins bauð, sneru þau aftur til Galíleu til borgar sinnar Nasaret.40En sveinninn vóx og styrktist í anda og fylltist visku; því Guðs náð var yfir honum.
41Það var vani foreldra hans að fara hvört ár upp til Jerúsalem á páskum.42Nú bar svo við, þegar hann var tólf vetra, að þau ferðuðust þangað, eins og siður var til á hátíðinni.43Þegar hún var liðin, sneru þau aftur heimleiðis; en sveinninn Jesús varð eftir í Jerúsalem, svo Jósep og móðir hans urðu ekki vör við það;44því þau ætluðu að hann mundi vera í flokki samferðamanna þeirra; fóru þau svo eina dagleið, og leituðu eftir honum meðal frænda og kunningja.45Og þegar þau fundu hann ekki, sneru þau aftur til Jerúsalem, og leituðu hans þar;46og eftir þrjá daga fundu þau hann í musterinu, hvar hann sat meðal lærifeðranna, hlýddi á tal þeirra og spurði þá;47en alla, sem heyrðu, furðaði á skilningi hans og andsvörum.48Og þau undruðust næsta er þau sáu hann þar. Þá sagði móðir hans: því breyttir þú svo við okkur, Sonur minn? faðir þinn og eg leituðum þín sorgmædd.49Hann mælti: því hafið þið leitað eftir mér? vissuð þið ekki, að mér ber að vera í því, sem míns föður er?50En þau skildu ekki hvað hann meinti.51Síðan fór hann með þeim til Nasareth, og var þeim hlýðinn. Allt þetta hugleiddi móðir hans;52en Jesú óx viska með aldri, og hylli Guðs og manna.

V. 4. b. Hvör ættkvísl hjá Gyðingum var skipt í kynþætti, og hvörjum kynþætti í ættfeðrahús. 4 Mós. 1,2.18.20. o. s. frv. V. 21. c. Sjá Matt. 1,21. V. 23. 2 Mós. 13,2. V. 24. 3 Mós. 12,6.8. V. 26. a. Messías. V. 34. b. sbr. Lúk. 11,30. V. 35. Jóh. 19,25. c. þegar Jesús var líflátinn, lýsti það sér, hvör hefði elskað hann og hans lærdóm af hreinu hjarta, og hvörjir af sérplægni. V. 41. sjá 2 Mós. 23,14. ff.