Sönn guðsþjónusta er ekki innifalin í föstu, heldur í sönnum Guðs ótta og mannkærleik.

1Kalla þú af megni, og drag ekki af! Hef upp raust þína, sem básúna, og kunngjör mínu fólki þess misgjörðir, og afsprengi Jakobs þess syndir!2Þeir leita mín dag frá degi, og vilja gjarna þekkja mína vegu. Þeir krefja mig réttra laga, eins og væru þeir sú þjóð, sem gjörir hvað rétt er og víkur eigi frá lögmáli Guðs, og vilja því gjarna þreyta lög við Guð.3„Hvar fyrir föstum vér (segja þeir), og þú gætir þess ekki? hví þjáum vér oss, og þú skeytir því ekki“?—Sjáið! þegar þér fastið, þá fáið þér yðvarn vilja, og kúgið alla skuldamenn yðar.4Sjáið! þér fastið, til þess að vekja deilur og þrætur, og slást upp á aðra með hnefahöggum fyrir enga sök. Fastið eigi, eins og þér nú gjörið, að háreysti yðar heyrist upp í hæðirnar.5Mun þvílík fasta vera sú fasta, sem mér líkar, að maður meinlæti sjálfum sér, hengi niður höfuðið, sem sef, og liggi á hárklæði og í ösku? Viltu kalla slíkt föstu og þakknæmilegan dag fyrir Drottni?6Nei, þetta er sú fasta, sem mér líkar: að þú leysir fjötra rangsleitninnar, látir rakna bönd oksins, gefir frjálsa hina kúguðu, og sundurbrjótir sérhvört ok,7deilir brauð þitt með hinum hungraða, hýsir bágstadda, ofsótta (hælislausa) menn. Ef þú sér mann klæðlausan, og klæðir þú hann, og firrist hann eigi, af því hann sé maður eins og þú:8þá skal hamingja þín upprenna, sem morgunroði, og heill þín bráðlega fram spretta; þá mun þitt réttlæti fara fyrir þér, og dýrðin Drottins fylgja á eftir þér.9Þá muntu ákalla Drottin, og hann mun bænheyra; þú munt kalla, og hann mun svara: „Sjá! hér em eg“. Ef þú heldur þér frá alls konar undirokun, spotti og syndsamlegum orðum:10ef þú réttir hinum hungraða bitann frá munni þínum, og seður svo þann, sem bágt á, þá mun ljós upp renna fyrir þér í myrkrinu, og dimma verða þér sem hádegi dags.11Drottinn mun ávallt leiða þig, og seðja þig og styrkja, þó þú sért staddur á vatnslausum stöðum; þú munt verða sem vökvaður aldingarður, og sem uppsprettulind, þar er aldrei bregst vatn.12Afkomendur þínir munu upp byggja þær enar fornu borgarrústirnar, og þú munt aftur viðreisa það, sem við velli hefir legið um marga mannsaldra; og um þig mun sagt verða, að þú hafir hlaðið upp í veggjaskörðin, og endurbætt þjóðveguna, svo landið yrði byggilegt.13Ef þú varast að vanhelga hvíldardaginn, og gjörir eigi hvað þig sjálfan lystir til á þeim degi, sem mér er helgaður, heldur álítur hvíldardaginn sem feginsdag, helgaðan Drottni og heiðursverðan: ef þú virðir hann svo, að þú fer ekki fram eigin hugþótta þínum, og gjörir ekki allt hvað þig lystir, né talar hégómaorð:14Þá muntu gleðjast í Drottni, og þá skal eg láta þig fram bruna á hæðum landsins, og njóta arfleifðar Jakobs, föður þíns. Því Drottins atkvæði hefir svo skipað.