Spádómur um Frelsarann og hans ríki, og um frelsun Gyðingalýðs.

1En af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta, og angi uppvaxa af rót hans.2Yfir honum mun hvíla andi Drottins, andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins.3Það mun hans unun vera, að óttast Drottin; hann mun ekki dæma eftir því sem hans augu sjá, og ekki úrskurð veita eftir því, sem hans eyru heyra:4með réttvísi mun hann dæma hina fátæku, og unna réttra laga hinum nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta jörðina með sprota síns munns, og deyða hina óguðlegu með andanum sinna vara.5Réttlætið mun vera belti hans lenda, og trúfestin belti hans mjaðma.6Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu, og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum; kálfar, ljónskálfar og alifé ganga saman, og smásveinn leiða þau.7Kýrin og bjarndýrið munu vera á beit saman, og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum; ljónið mun hey eta, sem naut.8Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og það barn, sem nývanið er af brjósti, mun stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.9Hvörgi á mínu heilaga fjalli munu þau nokkurt mein eða skaða gjöra; því jörðin er full af kynningu Drottins, eins og sjávardjúpið er vötnum hulið.10Þá skal rótarkvistur Ísaí standa sem hermerki fyrir þjóðirnar; þær munu leita hans atkvæða, og hans bústaður mun dýrðlegur vera.11Þá mun hinn Alvaldi útrétta hönd sína í annað sinn, til þess að endurkaupa þær leifar síns fólks, sem eftir eru í a) Assýralandi og Egyptalandi, í Patroslandi, Blálandi og Elamslandi, í Sínearslandi og Hamatsborg, og í hinum fjarlægustu strandbyggðum.12Hann mun upp setja merki fyrir þjóðunum, heimta saman hina útreknu Ísraelsmenn, og samansafna hinum tvístruðu Júdaniðjum frá fjórum höfuðáttum jarðarinnar.13Þá mun öfund Efraimsættar hverfa, og óvinir Júdaríkismanna undir lok líða; Efraimsætt mun ekki öfundast við Júda ættkvísl, og Júda ættmenn ekki amast við Efraims ættmönnum.14Þeir munu steypa sér niður á Filistealand gegn vestri, og ræna í sameiningu Austurvegsmenn. Edomsmenn og Móabsmenn skulu verða þeim að herfangi, og Ammonsmenn lýðskyldir þeim.15Og Drottinn mun lýsa banni yfir vogum Egyptahafs, og í ákefð síns anda b) bregða hendi sinni yfir Fljótið, og skipta því í sjö kvíslir, svo þar skal mega yfir ganga með skó á fótum.16Þannig skal brautarvegur verða fyrir þær leifar fólks hans, sem enn eru eftir í Assýralandi, eins og (fyrr meir) varð fyrir Ísraelsmenn, þá þeir fóru út af Egyptalandi.

V. 1. Ísaí, faðir Davíðs, stofn Isaí, eftirleifar Davíðsættar. V. 11. a. Sjá v. 16. V. 15. b. Lýsa banni yfir vogum Egyptahafs, svo þeir þorni upp og verði færir yfirferðar; í ákefð síns anda, aðrir útleggja „með sterkum stormi“. Fljótið, Evfrat.