Gullkálfurinn.

1En er fólkið sá, að seinkaðist koma Mósis af fjallinu, þá fóru þeir á fund Arons, og sögðu til hans: kom og gjör oss guði þá, er fyrir oss fari, því vér vitum ekki, hvað af þessum Móses er orðið, er oss leiddi burt af Egyptalandi.2Aron sagði til þeirra: takið eyrnagullin úr eyrum kvenna yðvarra, sona og dætra, og færið mér!3Þá tók allur lýðurinn eyrnagullin úr eyrum þeirra, og færðu Aroni,4en hann tók við gullinu af þeim, lagaði það með grafalnum *) og gjörði þar af steyptan kálf. Þá sögðu þeir: Ísraelslýður, þetta eru þínir guðir, sem færðu þig burt af Egyptalandi.5Þegar Aron sá það, hlóð hann þeim altari, kallaði þá saman og sagði: á morgun er hátíð Drottins.6Næsta morgun risu þeir upp árla, fórnuðu brennifórnum og færðu þakkarfórnir; síðan settist fólkið niður til að eta og drekka, og þvínæst stóðu þeir upp til að gamna sér.
7Þá sagði Drottinn til Mósis: far ofan í skyndi, því landar þínir, sem þú útleiddir af Egyptalandi, hafa stórum syndgað;8skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem eg bauð þeim, þeir hafa gjört sér steyptan kálf, fallið fram fyrir honum, fórnað honum, og sagt: Ísraelslýður, þetta eru þínir guðir, sem leiddu þig út af Egyptalandi.9Og enn sagði Drottinn við Móses: eg hefi reynt þenna lýð, og fundið, að hann er baldstýrugur.10Lát mig nú kyrran, svo mín reiði upptendrist í gegn þeim og eyðileggi þá; síðan vil eg láta stóra þjóð æxlast út af þér.11Þá bað Móses auðmjúklega til Drottins Guðs síns, og sagði: hví skal þín reiði, Drottinn, upptendrast gegn þínu fólki, sem þú útleiddir af Egyptalandi með miklum styrk og voldugri hendi?12hví skulu Egyptalandsmenn segja, og kveða svo að orði: til ills leiddi hann þá út, til að deyða þá á fjöllum uppi, og afmá þá af jörðunni? Snú þér frá þinni brennandi reiði, og hlíf þínu fólki við slíku tjóni!13Minnst þinna þjóna, Abrahams, Ísaaks og Jakobs, hvörjum þú hefir svarið við sjálfan þig og gefið þetta fyrirheit: eg vil gjöra yðar afkomendur eins marga og stjörnur himinsins, og allt þetta land, sem eg hefi um talað, vil eg gefa yðar niðjum, og þeir skulu eignast það ævinlega.14Þá hlífðist Drottinn við að gjöra sínu fólki það tjón, sem hann hafði um talað.
15Síðan sneri Móses burt, og gekk ofan af fjallinu; hann hafði báðar lögmálstöflurnar í hendi sér; þær töflur voru skrifaðar báðum megin, á einni hliðinni, sem á annarri;16þessar töflur voru verk Guðs, og letrið, sem grafið var á töflurnar, var Guðs letur.17Nú sem Jósúa heyrði ópið í fólkinu, sagði hann til Mósis: það er er heróp í búðunum!18Hann svaraði: það hljóð, sem eg heyri, er ekki siguróp og ekki valhljóð, heldur sönglæti.19En er Móses nálgaðist herbúðirnar, og sá kálfinn og dansleikinn, þá varð hann stórreiður, kastaði töflunum úr hendi sér, og braut þær í sundur fyrir neðan fjallið;20síðan tók hann kálfinn, sem þeir höfðu gjört, brenndi hann í eldi, muldi hann í smátt, og dreifði duftinu á vatnið, og lét Ísraelsmenn drekka.21Þá sagði Móses til Arons: hvað hefir þetta fólk gjört þér þess, að þú skulir hafa leitt þá í slík stórmæli?22Aron svaraði: reiðst eigi, herra! þú þekkir þetta fólk, að það er lastafullt;23þeir sögðu til mín: gjör oss guði þá, er fyrir oss fari, því vér vitum ei, hvað af þessum Móses er orðið, er leiddi oss burt af Egyptalandi.24Þá sagði eg til þeirra: hvör sem gull hefir á sér hann slíti það af sér; fengu þeir mér þá gullið, lét eg það í eld, og kom þá fram þessi kálfur.25En er Móses sá, að fólkið var taumlaust, því Aron hafði sleppt við þá taumnum, til þess þeir skyldu verða fyrir hneisu af mótstöðumönnum sínum,26þá gekk hann upp í herbúðahliðið, og mælti: komi til mín hvör sá, er Drottni vill fylgja! Þá söfnuðust allir Levítar til hans,27og hann sagði til þeirra: svo segir Drottinn Ísraels Guð: hvör einn festi sverð á hlið sér, fari svo fram og aftur frá einu hliði herbúðanna til annars, og slái hvör sinn bróður, vin og frænda í hel!28Levítar gjörðu, sem Móses bauð þeim, og féllu af fólkinu á þeim degi þrjár þúsundir manna;29því Móses hafði sagt: verið örlátir í dag við Drottin (færið Drottni fullar hendur fórna í dag), og sæki hvör að syni sínum og bróður, og mun hann veita yður blessun í dag.30Næsta dags morgun sagði Móses til lýðsins: þér hafið drýgt stóra synd; en nú vil eg fara upp til Drottins, má vera að eg fái uppgjöf á yðvarri synd.31síðan sneri Móses aftur til Drottins, og mælti: æ, þetta fólk hefir framið stóra synd, er það hefir gjört sér goð úr gulli!32Eg bið, fyrirgef þeim nú þeirra synd! ef ekki, þá bið eg, að þú afmáir mig af þinni bók, sem þú hefir skrifað.33Drottinn sagði til Mósis: þann, sem syndgað hefir móti mér, vil eg afmá af minni bók;34far nú, og leið fólkið þangað sem eg hefi sagt þér; sjá! minn engill skal fara fyrir þér; en þegar minn hegningartími kemur, skal eg hegna þeim fyrir þeirra syndir.35En Drottinn sló fólkið, af því þeir höfðu látið Aron gjöra kálfinn (fyrir það, sem þeir höfðu gjört við kálfinn, sem Aron hafði gjört).

*) myndaði það í móti?