Mikkas prédikar móti ranglæti og kúgun, og lygispámönnum, sem tældu þjóðina.

1Vei þeim mönnum, sem hugsa upp rangindi og hafa ill ráð með höndum í hvílurúmum sínum, og framkvæma þau, þegar ljómar af degi, af því þeir hafa kraft í hendi.2Langi þá til að eignast akra, þá ræna þeir þeim: langi þá til að eignast hús, taka þeir þau; þeir gjöra ofríki á húsbúandanum og húsi hans, á landeigandanum og landeign hans.3Þar fyrir segir Drottinn svo: eg hefi ásett mér að leggja á þessa kynslóð þá óhamingju, er þér skuluð eigi fá af yður hrundið, og ekki undir risið; svo mikil skal sú óhamingja verða.4Á þeim degi munu menn kveða kvæði um yður, og hafa grátlegar harmatölur: „vér erum gjörsamlega eyðilagðir! landeign míns fólks er úthlutuð öðrum! ó að mér skuli vera fyrirmunað, að ná aftur ökrum vorum, sem menn hafa skipt í milli sín!“5Já, þetta skal á þér rætast! þú skalt engan finna, sem úthluti þér nokkuru hlutskipti meðal Drottins safnaðar.
6„Spáið þér ekki (segja þeir)! Spái hinir heldur, þeir spá ekki eins og þessir, hvörra skútyrðum aldrei linnir“.7Þér svonefndu Jakobs niðjar! Er Drottinn þá óþolinmóður: er hans aðferð þessháttar? Eru mín orð ekki gæskurík við þá, sem ganga hinn rétta veg?8En mitt fólk hefir nú þegar lengi risið upp á móti mér, sem óvinur; þá menn, sem heim koma úr herferð og ganga ugglausir, afklæðið þér og færið þá úr yfirhöfninni, svo þeir hafa ei eftir nema kyrtilinn;9konur míns fólks rekið þér út af húsum sínum, hvar þær hafa átt góða daga; frá ungbörnum þeirra takið þér það skart, sem eg hefi þeim gefið, svo þau fá það aldrei aftur!10Burt með yður héðan! því hér er ekki samastaður handa yður. Landið er spillt og fársjúkt!11Fari nokkur með hégóma og lygar, og segi: „eg skal spá fyrir þér, ef eg fæ vín og áfenga drykki“, hann er réttur spámaður fyrir þetta fólk.
12Samt vil eg á síðan safna yður öllum saman, þér Jakobsniðjar! Eg vil samansafna eftirleifum Ísraelsmanna, eg vil safna þeim saman í eitt, eins og sauðfé í kvíum, eða hjörð í fjárhúsi; þar skal verða kliður mikill af mannmergðinni.13Eitt sinn mun nokkur sá upp rísa, sem brjóta mun hlið á fyrir þá; þá skulu þeir ryðjast fram, fara í gegnum hliðið og ganga út, skal konungur þeirra fara fyrir þeim, og Drottinn vera í broddi fylkingar þeirra.