Vígsluræða Salómon kóngs.

1Þá mælti Salómon: Drottinn hefir ásett sér að búa í dimmunni.2En eg hefi byggt þér hús til íbúðar og stað til aðseturs að eilífu.3Og konungurinn sneri sínu andliti og blessaði allan Ísraelssöfnuð, og allur Ísraelssöfnuður stóð.4Og hann mælti: lofaður sé Drottinn Ísraels Guð, sem talaði með sínum munni til Davíðs föður míns, og framkvæmdi það með sinni hendi, þá hann sagði:5frá þeim degi, er eg flutti mitt fólk úr Egyptalandi, hefi eg engan stað útvalið meðal allra Ísraels kynkvísla, til að byggja hús, að mitt nafn væri þar, og hefi engan mann kosið höfðingja yfir mitt fólk Ísrael;6en eg valdi Jerúsalem, að mitt nafn væri þar, og kaus Davíð, að hann væri yfir mínu fólki.7Og föður mínum Davíð var í hug að byggja hús nafni Drottins, Ísraels Guðs,8og Drottinn sagði til Davíðs, föður míns: þar eð þér hefir komið í hug að byggja hús nafni Drottins, svo hefir þú gjört vel að þér var það í hug;9samt skalt þú ekki byggja húsið, heldur sonur þinn, sem kemur af þínum lendum, sá hinn sami skal byggja mínu nafni hús.10Og Drottinn hefir haldið það orð, er hann talaði, og eg kom í stað föður míns Davíðs, og settist í Ísraels hásæti, eins og Drottinn hefir talað, og byggði hús nafninu Drottins Ísraels Guðs.11Og eg setti þangað inn örkina, í hvörri að er sáttmáli Drottins sem hann gjörði við Ísraelssyni.12Og (Salómon) gekk fyrir altari Drottins, í nærveru alls Ísraelssafnaðar og rétti út sínar hendur.13Salómon hafði nefnilega gjört stall af eiri og sett hann mitt í forgarðinn, hann var 5 álna langur, og 5 álna breiður, og 3 álnir á hæð og upp á hann sté hann, og lagðist á kné í augsýn alls Ísraelssafnaðar, og hóf upp sínar hendur til himins,14og mælti: Drottinn, Ísraels Guð, enginn Guð er sem þú í himni og á jörðu, þú sem heldur sáttmála (og auðsýnir) náð þínum þjónum, er ganga fyrir þér með einlægu hjarta,15þú sem hélst við þinn þjón föður minn Davíð það sem þú við hann talaðir; þú hefir talað það með þínum munni, og framkvæmt með þinni hendi, eins og nú (er skeð).16Og nú, Drottinn Ísraels Guð! halt þú við þinn þjón Davíð, föður minn, það sem þú talaðir við hann, þá þú sagðir: þig skal ekki vanta mann frammi fyrir mér, sem sitji í Ísraels hásæti, þegar synir þínir aðeins gefa gætur að sínum vegum, að ganga eftir mínu lögmáli, eins og þú hefir gengið fyrir mér.17Og nú, Drottinn Ísraels Guð! þitt orð, sem þú talaðir við þinn þjón Davíð, sé statt og stöðugt.
18Mundi Guð í raun réttri búa hjá mönnum á jörðunni? Sjá! himinninn og allir himnanna himnar taka þig ekki, miklu miður það hús sem eg hefi þér byggt.19En snú þér til bænar þíns þjóns og til hans grátbeiðni, Drottinn, minn Guð! að þú heyrir ákall og bæn þá, sem þinn þjón í dag biður frammi fyrir þér,20að þín augu séu opin yfir þessu húsi dag og nótt, yfir þeim stað, um hvörn þú hefir sagt, að þú viljir láta þitt nafn vera þar; að þú heyrir þá bæn, sem þinn þjón mun biðja á þessum stað.21Svo heyr þá grátbeiðni þíns þénara og þíns fólks Ísraels, sem þeir munu biðja á þessum stað; heyr hana í þínum aðsetursstað himninum, heyr og fyrirgef (synd).22Þegar einhvör syndgar móti sínum náunga, og menn leggja á hann eið, að hann sverji, og eiðurinn kemur fyrir þitt altari, í þessu húsi:23svo heyr þú í himninum og gjör og dæm þinn þjón, að þú gjaldir þeim seka, og leiðir hans breytni (veg) yfir hans höfuð, og réttlætir þann, sem hefir rétt málefni, með því að endurgjalda honum eftir hans réttlæti.24Og þegar þitt fólk Ísrael verður sigrað af sínum óvinum, af því það syndgar móti þér, og það umvendir sér og viðurkennir þitt nafn, og biður og grátbænir þig í þínu húsi:25svo heyr þú í himninum og fyrirgef syndirnar þínu fólki Ísrael, og leið þá heim aftur í það land sem þú gafst þeim og þeirra feðrum.26Verði himninum lokað og ekkert regn komi, af því þeir syndga móti þér, og þeir biðja á þessum stað, og viðurkenna þitt nafn, snúa sér frá sínum syndum, af því þú auðmýkir þá:27svo heyr þú í himninum og fyrirgef syndir þinna þjóna og þíns fólks Ísraels, eftir að þú hefir sýnt þeim þann góða veg sem þeir eiga að ganga á, og gef regn landinu, sem þú gafst þínu fólki til eignar.28Sé dýrtíð í landinu, sé drepsótt, sé bruni og visnun (kornsins), engisprettur, kálormar; þrengi þeirra óvinir að borgarhliðunum í þeirra landi, einhvör plága, einhvör sótt:29allar bænir, alla grátbeiðni sem þá mun gjörð verða, af hvörjum sem helst manni og af öllu þínu fólki Ísrael, þegar þeir kenna til, hvör sinnar plágu, og sinna meina, og útbreiða sínar hendur til þessa húss:30þá heyr þú það í himninum, á þínum aðsetursstað, og fyrirgef, og gjör við einn og sérhvörn eftir hans breytni, eftir því sem þú þekkir hans hjarta; því þú einn þekkir hjarta mannanna sona,31svo þeir óttist þig og gangi á þínum vegum allan þann tíma sem þeir lifa í landinu er þú gafst þeirra feðrum.32Líka þann útlenda, sem ekki er af þínu fólki Ísrael, og kemur úr fjarlægu landi, sökum þíns mikla nafns, og þinnar styrku handar, og þíns útrétta arms, og kemur og biður í þessu húsi,33svo heyr þú í himninum, á þínum aðsetursstað, og gjör allt, sem sá útlendi biður þig um, til þess að allar þjóðir á jörðinni viðurkenni þitt nafn, og óttist þig, eins og þitt fólk, Ísrael, og að þeir viti, að þetta hús, sem eg hefi byggt, er nefnt eftir þínu nafni.34Þegar þitt fólk fer í stríð móti sínum óvinum, um þann veg, sem þú sendir það, og þeir biðja þig (og snúa sér) til þessa staðar, sem þú hefir útvalið, og til þess húss, sem eg hefi byggt þínu nafni:35svo heyr í himninum þeirra bæn og þeirra grátbeiðni, og lát þá ná sínum rétti.36Ef að þeir syndga á móti þér (því enginn maður er sá að hann ekki syndgi) og þú reiðist þeim og ofurselur þá þeirra óvinum, og sigurvegarar þeirra flytja þá í fjarlægt eða nálægt land;37Og þeim gengur það til hjarta, í því landi, hvört þeir eru fluttir herteknir, og umvenda sér og grátbæna þig, í landi sinna sigurvegara, og segja: vér höfum syndgað og brotið og verið óguðlegir;38og þeir snúa sér til þín af öllu hjarta og allri sálu, í landi þeirra herleiðingar, hvört menn hafa flutt þá hertekna, og biðja (og snúa sér) til síns lands, sem þú gafst þeirra feðrum og til þess staðar sem þú útvaldir, og til þess húss sem eg byggði þínu nafni:39svo heyr í himninum, þínum aðsetursstað, þeirra bæn og þeirra grátbeiðni, og réttu hluta þeirra, og fyrirgef þínu fólki það sem þeir syndguðu móti þér.40Svo lát nú, minn Guð! þín augu vera opin, og þín eyru gefa gaum bænum þessa staðar.41Og tak þig nú upp, Guð Drottinn! til þíns hvíldarstaðar, þú og örk þinnar dýrðar! þínir prestar, Guð Drottinn, séu klæddir velferðinni, og þínir guðræknu gleðji sig við hið góða.42Guð Drottinn! útskúfa ekki þínum smurða, hugsa þú til þinnar náðar við Davíð þinn þénara!