Dauði hins réttláta; lýsing skurðgoðadýrkunarinnar; Guðs þolinmæði, miskunnsemi og réttlæti.

1Hinn réttláti líður undir lok, án þess nokkur leggi það á hjarta; góðir menn verða í burt numdir, án þess nokkur hyggi að því. En hinn réttláti verður burt numinn frá hinu vonda.2Þeir sem ganga frammi fyrir honum (þeir sem þjóna Drottni), þeir innganga í frið, og hvílast (eins og þeir svæfi) í hvílurúmum sínum.
3Komið hingað, þér a) seiðkonusynir, þú hórkarla og skækjuafsprengi!4Að hvörjum skopist þér? Að hvörjum hlæið og spottist þér b)? Eruð þér ekki syndarinnar börn, afsprengi lyginnar?5þér sem brennið af girndarbruna til hjáguðanna undir hvörju grænutré, og slátrið börnunum í dölunum fyrir neðan bjargskorurnar?6þú c) átt heima í dalarjóðrunum, þar eru átthagar þínir, þar úthellir þú drykkjarfórn þinni, þar framber þú matarfórn þína. Get eg látið mér lynda slíkt?7þú setur legurúm þitt uppi á háfjöllum, gengur síðan upp þangað til að fórnfæra.8Á hurðarbaki og á bak við dyrustafi setur þú menjagripi þína d); án þess að skipta þér um mig, afklæðir þú þig, stígur upp í, lætur rúmt vera í sæng þinni, slær kaupi við suma af þeim e), og girnist samlag við þá, nær sem þú sér þér færi.9Þú kemur fyrir Mólok með viðsmjör og margháttuð smyrsl, og sendir sendiboða þína í fjarlæg lönd, og allt niður í undirheima.10Þó þú sért þreytt af þessu langa ferðalagi, lætur þú þó aldrei bilbug á þér finna; meðan þú finnur kvika fjör í hendi þér, kennir þú þér einskis meins.
11Hvörn óttaðist og hræddist þú, að þú skyldir bregða svo trúnaði þínum, að þú skyldir ekkert muna til mín, og enga hugsun þar á hafa? Eg þagða, og það í langa tíma; þess vegna óttaðist þú mig ekki.12En eg skal opinbera dyggðasemi þína og framferði þitt, og munu þau ekki koma þér að haldi.13Láttu flokk þann, er þú hefir samandregið, bjarga þér, þá þú kallar um hjálp! Vindurinn mun svipta þeim öllum í burtu, og gusturinn taka þá. En sá sem á mig vonar, hann mun erfa landið og eignast mitt heilaga fjall;14og þá mun sagt verða: „jafnið, jafnið, ryðjið veginn! takið af allar torfærur á vegi míns fólks“.15Því svo segir hinn háleiti og hátt upphafni, hann sem ríkir eilíflega, heilagt er hans nafn: Eg bý á hávum og helgum stað, og þó er eg hjá þeim, sem hafa sundurknosaðan og lítillátan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu, til að lífga hjörtu enna sundurknosuðu.16Eg ávíta ei ætíð, og reiðist ei ævinlega; því þá mundi vanmegnast andi mannanna og þær sálir, sem eg hefi skapað.17Sökum þeirra megnu ágirndar reiðist eg þeim, svo eg byrgi mitt andlit fyrir þeim og slæ þá; eg reiðist, þegar þeir rísa á móti mér, og fara fram því sem þá sjálfa lystir til.18Eg sé þeirra athafnir, og þó fyrirgef eg þeim, leiði þá, og veiti þeim aftur hugsvölun, hvörjum þeim sem sorgmæddir eru.19Eg skapa ávöxt varanna, „frið, frið“, fjær og nær; þannig viðrétti eg hag þeirra, segir Drottinn.20En hinir óguðlegu eru sem ólgufullt haf, sem aldrei getur kyrrt verið, og hvörs bylgjur út kasta aur og leir.21Hinir óguðlegu hafa engan frið, segir minn Guð.

V. 3. a. Þ. e. Gyðingar, sem gengið hafa á tryggðir við Drottin og þjónið hjáguðum. b. Hlæið og spottist þér, á Hebr., „víkkið munninn og lengið tunguna“. V. 6. c. Þú, Gyðinga þjóð! V. 8. d. Menjagripir, þ. e. skurðgoð, hjáguði; e. þeim, goðunum. Hjáguðadýrkuninni er lýst með sömu litum og skækjulifnaði.