Jesús er fyrirlitinn; útsendir postula; nokkrir ætla hann sé Jóhannes; seður 5000 mans; gengur á sjónum; læknar.

1Þaðan fór hann til ættjarðar sinnar og lærisveinar hans voru í fylgd með honum,2og næsta hvíldardag tók hann til að kenna í samkunduhúsinu, og undruðust margir, sem það heyrðu, og mæltu: hvaðan hefir þessi maður numið þetta? og hvílíka visku hefir hann öðlast, og hvílík eru þau kraftaverk, er hann fremur?3er hann ekki smiðurinn, sonur Maríu og bróðir þeirra Jakobs og Jósesar, Júdasar og Símonar? og eru ekki systur hans hér með oss? og þeir hneyksluðust á honum.4En Jesús mælti við þá: hvörgi er nokkur spámaður miður virtur, en á fósturjörðu sinni og meðal ættmanna sinna og heima;5og hann gat ekkert kraftaverk gjört þar, að undanteknu því, að hann lagði hendur yfir fáeina sjúka og læknaði þá, og furðaði hann sig á trúarleysi þeirra,6og fór um þorpin þar í kring og kenndi.
7Nokkru síðar kallaði hann þá tólf til sín, og sendi þá frá sér tvo og tvo saman, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum;8til ferðarinnar bannaði hann þeim að taka nokkuð með sér, nema einungis staf, en hvörki nestismal, brauð eður fé í beltum sínum,9en þeir skyldu hafa skó á fótum; ekki skyldu þeir heldur klæðast tvennum kyrtlum;10og enn framar sagði hann við þá: haldið kyrru fyrir í hvörju því húsi, er þér takið yður gistingu, þar til þér farið úr því þorpi,11en hvar menn ekki vilja veita yður móttöku eða heyra yður, þá farið þaðan og hristið duft af fótum yðar til vitnis gegn þeim.12Þeir fóru og kenndu fólkinu að bæta ráð sitt,13ráku marga djöfla út, og smurðu marga sjúka með viðsmjöri, og læknuðu þá.
14Þetta heyrði Heródes konungur, (því miklar sögur gengu nú frá Jesú), þá sögðu menn: Jóhannes skírari er endurlifnaður og því gjörast slík kraftaverk af honum.15Sumir sögðu hann a) væri Elías, aðrir, að hann væri spámaður, líkur þeim fyrri spámönnum.16En er Heródes heyrði þetta, mælti hann: Jóhannes, sem eg hefi látið hálshöggva, er nú endurlifnaður.17Því áður hafði Heródes látið höndla Jóhannes og setja í myrkvastofu vegna Heródíadis, konu Filippusar bróður hans, hvörja Heródes nú hafði gengið að eiga;18því Jóhannes hafði sagt við Heródes: þú mátt ekki eiga bróðurkonu þína.19Vegna þessa var Heródíadi illa til Jóhannesar og vildi ráða honum bana, en gat það ekki,20því Heródes virti Jóhannes, þar hann vissi hann vera réttlátan og helgan mann, og verndaði hann, og gjörði margt að hans ráðum, og heyrði hann gjarna.21En sem hentugur dagur kom, þá Heródes gjörði veislu á sínum fæðingardegi fyrir gæðingum sínum, þúshundraðshöfðingjum og enum helstu mönnum í Galíleu,22kom inn dóttir Heródíadis og dansaði, svo Heródesi og þeim, sem boðnir voru, líkaði það vel. Þá sagði konungurinn við stúlkuna: bið mig hvörs þú vilt, og mun eg veita þér.23Og hann lofaði henni með eiði: hvörs þú beiðist af mér, þá mun eg veita þér allt að helmingi ríkis míns;24en hún gekk út, og spurði móður sína: um hvað skal eg biðja?25Hún mælti: um höfuð Jóhannesar skírara. Hún kom inn aftur með skyndi til konungsins og mælti: eg vil að þú gefir mér strax höfuð Jóhannesar skírara á diski.26Við þetta varð konungurinn næsta hryggur, en sökum eiðs þess, er hann hafði unnið, og boðsmanna sinna, vildi hann ekki synja henni þess;27sendi þá konungurinn strax einn varðmanna sinna b) og skipaði að færa sér höfuð Jóhannesar;28en hann fór og afhöfðaði hann í myrkvastofunni, kom með höfuðið á fati og færði meyjunni, en hún bar það til móður sinnar.29En er lærisveinar hans heyrðu þetta, komu þeir, tóku lík hans og lögðu það í gröf.
30Postularnir komu aftur til Jesú, og sögðu honum frá öllu því, sem þeir höfðu gjört og kennt;31þá sagði Jesús til þeirra: farið með mér einir á afvikinn stað, og hvílist þar um stund, því svo margir vóru komandi og farandi, að þeir höfðu ekki matfrið.32Síðan fóru þeir einir sér á skipi til óbyggða,33en menn sáu þegar þeir fóru burt, og margir þekktu þá; hlupu menn því saman þangað á fæti úr öllum borgum og komu þeir á undan þeim og fundu hann.34Og er hann steig af skipi, sá hann þar mikinn mannfjölda, og kenndi í brjósti um þá, því þeir vóru sem sauðir án hirðis, og prédikaði fyrir þeim um marga hluti;35en er mjög var áliðið dags, komu lærisveinar hans til hans og sögðu: vér erum hér í eyðistað, og framorðið er dags,36lát þá frá þér, svo þeir geti farið í byggðina og þorpin hér um kring og keypt sér vistir, því þeir hafa alls ekkert til matar.37Jesús mælti: gefið þér þeim mat. Þeir sögðu til hans: skulum vér fara og kaupa þeim mat fyrir 200 peninga, og gefa þeim að eta?38Jesús mælti þá: hve mörg brauð hafið þér? farið og gætið að því! þeir gjörðu svo, og sögðust hafa fimm brauð og tvo fiska.39Þá bauð hann þeim að láta fólkið setjast niður hópum saman í grasið,40og það settist niður í flokkum, og vóru hundrað í sumum, en fimmtygir í sumum.41Þá tók Jesús þau fimm brauðin og þá tvo fiska, leit til himins, gjörði Guði þakkir, braut brauðin, og fékk þau lærisveinum sínum, að þeir legðu þau fyrir fólkið; slíkt hið sama skipti hann þeim tveimur fiskum meðal allra;42en þeir neyttu allir, og urðu saddir.43Síðan tóku þeir upp molana, og urðu það tólf karfir fullar, og einnig fiskleifarnar;44en þeir, sem neytt höfðu matarins, vóru að tölu fimm þúsundir manna.
45Strax er þessu var lokið, bauð hann lærisveinum sínum að stíga á skip og fara undan sér yfir um til Betsaída, meðan hann skildi fólkið við sig;46en er hann hafði látið fólkið frá sér, fór hann upp á fjallið að biðjast fyrir;47og er kvöld var komið, var skipið á miðju vatninu, en hann einn á landi;48þá sá Jesús, að róðurinn gekk þeim mjög örðugt, því andviðri var á. En nær fjórðungur lifði nætur, kom hann til þeirra, og gekk á sjónum, og lét sem hann ætlaði að ganga framhjá þeim.49En er þeir sáu hann ganga á sjónum, meintu þeir að það mundi vera vofa, og æptu upp yfir sig;50því allir sáu þeir hann, og urðu felmtursfullir. Hann varpaði þá strax orðum á þá, og mælti: verið hughraustir, eg er það, óttist ekki!51Síðan fór hann upp í skipið til þeirra; lægði þá veðrið. Og þeir urðu mjög fránumdir og undruðust;52því þeir höfðu ekki orðið hyggnari við brauðatáknið, þar eð hjarta þeirra var svo blindað.
53Síðan fóru þeir yfirum og lentu við Genesaretsland.54Og er þeir stigu af skipi, þekkti fólkið hann strax,55og hljóp um allt það byggðarlag, og tóku að færa sjúka í burðarrekkjum þangað, sem þeir heyrðu hann væri;56og hvar, sem hann fór inn í þorp, borgir eður bæi, þá lögðu þeir vanheila menn á torgin, og báðu hann, að þeim mætti leyfast að snerta einungis klæðafald hans; því þeir, sem snertu þar við, urðu heilbrigðir.

V. 1–6, sbr. Matt. 13,58. (Jóh. 6,42). V. 7–13, sbr. Matt 10,5. ff. Lúk. 9,1–6. 10,1. ff. V. 14–29, sbr. Matt. 14,1–13. Lúk. 9,7–9. V. 15. a. Hann, nefnil. Jesús; Gyðingar héldu, að Elías og jafnvel fleiri spámenn mundu upprísa, áður en Messías kæmi, Jóh. 1,21–25. V. 27. b. Konungar plöguðu fyrr meir, að láta varðmenn sína aflífa þá, sem þeir vildu feiga. V. 30–44, sbr. Matt. 14,13–21. Lúk. 9,10–17. Jóh. 6,1–13. V. 45–52, sbr. Matt. 14,22–33. Jóh. 6,16–21. V. 47. Matth. 14.