Esekíel er burtfluttur frá Babýlon til Jerúsalems, 1–3; sér margs konar ljótustu afguðadýrkun, sem viðgekkst í forgarði musterisins, 4–16; Guð hótar Gyðingum hegningu þar fyrir, 17–18.

1Það var á sjötta ári, þann fimmta dag hins sjötta mánaðar, þá eg sat í húsi mínu og forstjórar Júda sátu frammi fyrir mér, að hönd Drottins hins alvalda kom þar yfir mig.2Og sjá, eg sá mannsmynd, tilsýndar sem eld; þar í frá, sem mér þóttu lendar hans vera, og niður eftir, var eins og eldur; en frá lendum hans og upp eftir sást bjarmi, eins og ljómandi af lýsigulli.3Hann útrétti líkast sem hönd væri, og tók í höfuðhár mitt, hóf andinn mig þá upp, og flutti mig milli himins og jarðar, í guðlegum sjónum, til Jerúsalemsborgar að norðurhliði innra forgarðsins, hvar eð skapraunar-storkunar-móðgunar líkneskjan a) stóð, sú er uppvakti Drottins vandlætingu.
4Og sjá! hér birtist hin sama dýrðarsjón Ísraels Guðs, eins og eg hafði séð í dalnum.5Hann sagði til mín: þú mannsins son, hef upp þín augu, og lít til norðurs. Eg hóf upp mín augu og leit til norðurs, og sá, að storkunarlíkneskið stóð norðanmegin við altarishliðið, rétt þar sem inn er gengið.6Hann sagði þá til mín: þú mannsins son, sér þú hvað þessir gjöra? sér þú þær stóru svívirðingar, sem Ísraelsmenn hafa hér í frammi, til þess að byggja mér út úr mínum helgidómi? En þú skalt enn fá að sjá stærri svívirðingar.7Nú leiddi hann mig að forgarðshliðinu, og þá sá eg, að þar var smuga nokkur inn í vegginn.8Hann sagði til mín: þú mannsins son, graf þú í gegnum vegginn. Eg gróf í gegnum vegginn, og sjá! þar voru dyr á.9Hann sagði þá til mín: gakk inn, og sjá þær vondu svívirðingar, sem þeir hafa hér í frammi.10Eg gekk inn og litaðist um, og sá, að þar voru ristnar allt umhverfis á vegginn ýmsar myndir orma, viðbjóðslegra kvikinda og ýmsra skurðgoða, sem Ísraelsmenn blótuðu;11frammi fyrir þeim stóðu 70 menn af forstjórum Ísraelsmanna, þar á meðal Jasanía Saffansson, og hélt hvör þeirra á reykelsiskeri í hendi sér, og sté þar upp af ilmandi reykelsismokkur.12Hann sagði þá til mín: þú mannsins son, sér þú hvað forstjórar Ísraelsmanna hafast að í myrkrinu, hvör í sínu myndum prýdda herbergi? þeir segja: Drottinn sér oss ekki, Drottinn hefir yfirgefið landið.13Og enn sagði hann til mín: þú skalt enn sjá stærri svívirðingar, sem þeir hafa í frammi.14Hann leiddi mig þá að hinu nyrðra hliði Drottinshúss, og sjá! þar sátu konur, sem grétu yfir Tamús b).15Þá sagði hann til mín: sér þú þetta, mannsins son? þú skalt enn fá að sjá stærri svívirðingar, en þessar.16Hann leiddi mig þá inn í innra forgarð Drottinshúss; og sjá! fyrir musteris dyrum Drottins, milli forhússins og altarisins, stóðu 25 menn, sem sneru bökum við musteri Drottins, og horfðu á móti austri, og tilbáðu þá upprennandi sól.
17Þá sagði hann til mín: sér þú þetta, mannsins son? er það ekki nóg, að Júdamenn hafi í frammi allar þær svívirðingar, sem þeir hér fremja, þó þeir ekki þar á ofan fylli landið með rangindum, og láti ekki af að reita mig til reiði? En, þeir reka kvistinn upp í nasir sér.18Eg skal líka láta mína reiði koma niður á þeim; eg skal ekki vægja, og öngva meðaumkun hafa; þó þeir kalli með hárri raust fyrir mínum eyrum, þá skal eg þó ekki heyra til þeirra.

V. 3. a. Líkneski Baals, 2 Kóng. 21,3. eða Móloks. V. 14. Tamús, ástargoð. V. 17. Málsháttur! þeir baka sér sjálfir hegningu.