Jesús ávítar faríseana, er æskja teikns, og varar við súrdeigi þeirra. Pétur játar, að Jesús sé Guðs Sonur; Jesús segir fyrir sína pínu, og ávítar Pétur; talar um sjálfsafneitun og sína tilkomu.

1Þá komu til hans farísear og sadúsear, freistuðu hans, og kröfðust, að hann vildi sýna þeim teikn af himni.2Hann mælti: að kvöldi, þegar roði er á lofti, þá segið þér, það boði gott veðurlag;3og snemma dags, þegar loftið þá er rautt og ískyggilegt, segið þér, að þann dag muni verða illviðri. Þér, hræsnarar! himinsins yfirbragð vitið þér að dæma, en kenniteikn þessara tíma viljið þér ekki athuga.4Þessi vonda og hórsama þjóð beiðist teikns, og henni skal ekki teikn gefast, nema teikn Jónasar spámanns; og er hann hafði þetta sagt, skildist hann við þá og fór þaðan.
5En er lærisveinar hans fóru yfir um, höfðu þeir gleymt að taka brauð með.6Þá mælti Jesús: varið yður við súrdeigi þeirra farísea og sadúsea.7Þá töluðu þeir sín á milli: að hann mundi segja þetta sökum þess, að þeir ekki höfðu tekið brauð með sér;8og er Jesús varð þess var, mælti hann: því ætlið þér, trúarveikir! að eg hafi sagt þetta sökum þess, að þér gleymduð að taka brauðin með;9eruð þér enn þá svo skilningslausir? eður minnist þér ekki þeirra fimm brauðanna, handa þeim fimm þúsundum manna, og hvörsu margar karfir þér höfðuð þá afgangs?10Ekki heldur þeirra sjö brauðanna, handa þeim fjórum þúsundum, og hvörsu margar karfir þér þá fylltuð með leifar?11Því skynjið þér þá ekki, að eg sagði ekki til yðar brauðanna vegna, að þér skylduð varast súrdeig farisea og sadúsea?12Þá skildu þeir, að hann ekki hafði varað þá við súrdeigi brauðs, heldur við lærdómi fariseanna og sadúseanna.
13Þegar Jesús kom í héröð Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: hvör halda menn að eg Mannsins Sonur sé?14þeir svöruðu: sumir Jóhannes skírara, aðrir Elias, og enn aðrir Jeremías eður einn af spámönnunum.15Þá mælti hann: en hvörn hyggið þér mig vera?16Honum svaraði Símon Pétur, og mælti: þú ert Kristur Sonur ens lifanda (sanna) Guðs.17Jesús mælti: sæll ert þú, Símon Jónasson! því mannleg viska hefir þér ekki þetta auglýst, heldur Faðir minn á himnum.18En eg segi þér: að þú ert Pétur (hellusteinn) a), og á þessari hellu vil eg byggja mína samkundu, og helvítis makt skal aldrei á henni sigrast;19þér vil eg og fá lykla himnaríkis, svo að hvað sem þú bindur á jörðu, skal á himni bundið vera, og hvað þú leyfir á jörðu, skal á himni leyft vera.20Síðan bannaði hann lærisveinum sínum að segja nokkrum það hann væri Kristur.21Eftir þetta tók Jesús að auglýsa lærisveinum sínum, að sér bæri að fara til Jerúsalem, og líða þar margt af öldungunum, prestahöfðingjunum og þeim skriftlærðu, líka líflátinn að verða og upprísa á þriðja degi.22Þá tók Pétur hann afsíðis, átaldi hann og mælti: Guð náði þig, Herra! komi þetta aldrei fram við þig!23En Jesús snerist við honum og mælti: vík frá mér, Satan! þú ert mér til ásteytingar. Þú skynjar ekki Guðs vilja, heldur manna.24Þá mælti Jesús til lærisveina sinna: hvör, sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki sinn kross upp á sig, og fylgi mér eftir.25Hvör hann hyggur að forða lífi sínu, mun því týna, en hvör, sem vogar því í hættu fyrir mína skuld, mun fá því borgið.26Því að hvörju gagni kæmi það, þótt einn eignaðist allan heiminn, ef hann liði tjón á sálu sinni? eða hvað getur maðurinn gefið til lausnar sálu sinni?27Því Mannsins Son mun koma með dýrð síns Föðurs og englum sínum, og þá mun hann gjalda hvörjum sem einum eftir verkum sínum.28Sannlega segi eg yður: að hér eru nú viðstaddir nokkrir þeir, sem auðnast mun að lifa svo lengi, að þeir sjái Mannsins Son koma til ríkis síns.

V. 1–14. sbr. Mark. 8,11.12. V. 4. sbr. Lúk. 11,16–29. V. 5–12. sbr. Mark. 8,13–21. V. 13–28. Mark. 8,27–39. Lúk. 9,18–27. V. 18. a. Sjá Jóh. 1,42.