Jeremías talar um þann rétta hirðir eða kóng, og leiguliða, samt falsspámenn.

1Vei þeim hirðurum sem afvega leiða (týna) og tvístra minni hjörð! segir Drottinn.2Því segir Drottinn svo, Ísraels Guð, um hirðara míns fólks: þér hafið tvístrað minni hjörð, og sundurtætt og ekki eftir henni litið: sjá! eg skal finna yður, fyrir vonsku yðar athæfis, segir Drottinn.3Og eg skal safna leifum minnar hjarðar úr öllum löndum, sem eg hefi hrakið þá í, og eg skal leiða þá aftur í þeirra haglendi, að þeir tímgist og fjölgi.4Og eg skal setja yfir þá hirðara, sem haldi þeim til haga, og þeir skulu ei framar hræðast né skelfast, og einkis þeirra skal saknað verða, segir Drottinn.
5Sjá! þeir dagar koma, þá eg mun láta af Davíð koma, réttan kvist (grein) sem ríkir með vísdómi og eflir réttindi og réttvísi í landinu.6Á hans tíma mun Júda(land) verða lukkulegt og Ísrael búa óhultur, og með þessu nafni munu menn nefna hann: Drottinn vort réttlæti.7Þess vegna, sjáið! dagar munu koma, segir Drottinn, að menn ei framar segja: „svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá sem flutti Ísraelssyni úr Egyptalandi“!8heldur: „svo sannarlega sem Drottinn lifir, sem flutti burt niðja Ísraels húss, og heim aftur, úr landinu norður frá, og úr öllum löndum, hvört eg hrakti þá“; og þeir skulu búa í sínu landi.
9Viðvíkjandi spámönnum er mitt hjarta í mínu brjósti sundurmarið, öll mín bein skjálfa; eg er eins og drukkinn maður, og eins og sá maður sem vínið hefir unnið á, sakir Drottins, og sakir hans heilaga orðs.10Því af hórdómsmönnum er landið fullt; og sakir bölvunarinnar syrgir landið, haglendi eyðimerkurinnar er skrælnað. Þeirra hlaup er vonska, og þeirra kraftur ranglæti.11Því bæði spámennirnir og prestarnir eru hræsnarar; líka í mínu húsi finn eg þeirra vonsku, segir Drottinn.12Því mun þeirra vegur verða þeim sem hálka í myrkri; þeim mun skriðna fótur, og þeir munu detta síðan, því eg skal leiða ógæfu yfir þá, á þeirra hegningartíma, segir Drottinn.
13Hjá Samaríu spámönnum sá eg heimsku: þeir spáðu í nafni Baals, og leiddu í villu mitt fólk, Ísrael;14en á Jerúsalems spámönnum sé eg (eitthvað) óttalegt: að hórast og fara með lygar, og þeir efla vonskuna, svo að þeir ekki snúi sér, hvör frá sinni vonsku; þeir eru mér allir sem Sódóma, og þeirra innbúar sem Gomorra.15Því segir Drottinn herskaranna svo um spámennina: sjá! eg metta þá með malurt og drykkja þá með ólyfjunarvatni; því frá spámönnunum er spilling farin út yfir allt landið.16Svo segir Drottinn herskaranna: hlustið ekki á orð spámannanna, sem spá yður! þeir tæla yður með hégómlegum meiningum, síns hjarta opinberun tala þeir, ekki af munni Drottins.17Þeir tala til þeirra sem forsmá mig; Drottinn segir: yður mun vel vegna: og til allra, sem ganga eftir þverúð síns hjarta, segja þeir: engin ógæfa mun yfir yður koma.18Því hvör hefir staðið í Drottins ráði og séð og heyrt hans orð? hvör hefir hlustað eftir, og hlýtt á hans orð?19Sjá! grimmur stormur fer út frá Drottni, og óttalegt óveður mun steypast yfir höfuð þeirra guðlausu.20Drottins reiði mun ei hætta, fyrr en hann hefir gjört, og fyrr en hann hefir lokið við hugsanir síns hjarta. Seinna munuð þér þess vissir verða.
21Ekki sendi eg spámennina, þó þeir hlypu; og ekki talaði eg við þá, þó þeir spáðu.22En hefðu þeir staðið í mínu ráði, svo hefðu þeir kunngjört mín orð mínu fólki, og leitt þá til baka frá þeirra vondu vegum, og illsku þeirra athæfis.
23Er eg þá aðeins Guð í nánd, segir Drottinn, og ekki Guð í fjærlægð?24Getur nokkur falið sig í fylgsnum svo, að eg ekki sjái hann? segir Drottinn: uppfylli eg ekki himin og jörð? segir Drottinn.
25Eg heyri hvað spámennirnir segja, þeir sem spá lygi í mínu nafni, þeir segja: mig dreymdi, mig dreymdi!26Skal þetta lengi (ganga)? hafa þeir spámenn, sem lygi kenna, og tál sinna hjartna prédika, í huga,27og hugsa þeir til að koma fólki til, með sínum draumum, að gleyma mínu nafni, eins og þeirra feður gleymdu mínu nafni fyrir Baals sakir?28Sá spámaður sem drauma hefir, segi hann drauma; og sá sem mitt orð hefir, hann tali mitt orð með sannleika. Hvað skal strá hjá korni? segir Drottinn.29Er ei mitt orð sem eldur, segir Drottinn, og eins og hamar, sem sundurmolar klettana?
30Sjá! þess vegna skal eg finna spámennina, segir Drottinn: sem stela mínu orði, einn eftir annan.31Sjá! eg skal finna spámennina, segir Drottinn, sem tala eigin tungu, og segja: hann (Guð) segir.32Sjá! eg skal finna spámennina, sem spá lygadraumum, segir Drottinn, og segja frá þeim, og afvegaleiða mitt fólk með sínum lygum, og með sínu yfirlæti, þó eg ekki hafi sent þá, og ekki þeim (neitt) skipað, og þó þeir ekkert gagn gjöri þessu fólki, segir Drottinn.
33Og þegar þetta fólk spyr þig, eða einhvör spámaðurinn eða einhvör presturinn, svo segjandi: hvör er sú Drottins illspá? þá seg þú þeim, hvör sú illspá er: eg vil yður útskúfa, segir Drottinn.34Og þann spámann og prest, og þann af fólkinu sem segir: ill spá Drottins: þann sama mann mun eg straffa og hans hús.35Svona skuluð þér segja hvör við annan, einn vinur (bróðir) við annan: hvörju hefir Drottinn svarað, hvað hefir Drottinn talað“?36En illspá Drottins skuluð þér ekki framar nefna, því (hvörjum) manni munu hans orð ólán verða, af því þér afbakið orð þess lifanda Guðs, herskaranna Drottins, vors Guðs.37Svona skaltu tala við spámennina: hvörju hefir Drottinn svarað þér, og hvað hefir Drottinn talað?38En ef þér nefnið illspá Drottins, þá segir Drottinn svo: af því að þér talið þetta orð: „illspá Drottins“, og eg sendi til yðar og sagði: þér skuluð ekki segja: „illspá Drottins“.39Þá sjá! þess vegna vil eg yður yfirgefa, og yður útskúfa og þeim stað, sem eg gaf yður og yðar feðrum, frá mínu augliti.40Og eg legg á yður eilífa smán og eilífa sneypu, sem ekki skal gleymast.

V. 4. Aðr: vitjað verða. V. 6. Réttlæti, aðr: heill.