Sigur Drottins yfir óvinum sínum; lofsöngur um Guðs miskunnsemi og velgjörninga.

1Hvör er þessi, sem kemur í rauðlituðum klæðum frá Edomslandi, frá Bosraborg? þessi hinn tíguglega búni, sem treystir á sinn mikla mátt?—Eg em hann, trúfastur í orðum og máttugur til að hjálpa.2Hví er búningur þinn svo rauður á lit, og klæði þín, eins og þess, er troðið hefir vínþrúgu?3Eg hefi troðið vínþrúguna aleinn, enginn af landsfólkinu var með mér; eg tróð þá (óvinina) í reiði minni, og sundurmarði þá í heift minni; þá hraut lögur þeirra á klæði mín, og þá verkaði eg klæðnað minn.4Því eg hafði tiltekið hefndardag, og það ár var komið, þá eg hafði ásett mér að frelsa minn lýð a).5Eg litaðist um, og sá engan hjálparmann; mig undraði stórlega, að enginn skyldi aðstoða mig. En minn armleggur hjálpaði mér, og mín heift aðstoðaði mig.6Þannig tróð eg þjóðirnar í reiði minni, gjörði þær drukknar í bræði minni, og lét löginn af þeim fljóta til jarðar.
7Eg vil minnast á velgjörninga Drottins, og víðfrægja hans lof fyrir allt það, er hann hefir gjört við oss, fyrir þá mörgu velgjörninga, sem hann hefir auðsýnt Ísraels niðjum af sinni miskunnsemi og mikilli góðgirni.8Hann sagði: „þeir eru þó mitt fólk, þeir eru börn mín, sem ekki ættu að bregðast mér“; og hann var þeirra frelsari.9Aldrei voru þeir svo í háska staddir, að þeim yrði mein að; því engill sá, sem stendur fyrir hans augliti, hjálpaði þeim (2 Mós. 23,20–23). Af elsku sinni og vorkunnsemi frelsaði hann þá, tók þá upp og bar þá alla daga hinna fyrri tímanna.10En þeir gjörðust mótsnúnir, og hrelldu hans hinn helga anda; gjörðist hann þá óvinur þeirra, og barðist sjálfur í móti þeim.11Nú minnist hans fólk hinna fyrri tíðanna, þegar Mósis var á dögum. Hvar er nú hann, sem lét þá stíga upp af hafinu ásamt með hirði hjarðar sinnar? Hvar er hann, sem lét sinn helga anda búa mitt á meðal þeirra?12Hann, sem leiddi hina hægri hönd Mósis með hinum dýrðarsamlega armlegg sínum? Hann, sem sundurklauf vatnið í augsýn þeirra, til þess að afreka sér eilíft nafn?13Hann, sem leiddi þá í gegnum vatnageiminn, svo þeir hnutu ekki heldur en hestur sá, er rennur yfir slétta sanda?14Andi Drottins færði þá til hvíldar, eins og hjörð þá, er ofan gengur í dalinn: eins leiddir þú þinn lýð, til þess að afreka þér dýrðarsamlegt nafn.15Horf nú af himni ofan, og lít niður frá hinum heilaga og dýrðarsamlega bústað þínum! Hvar er nú þín vandlæting og þitt máttarveldi? Hefir hjartagæska þín og miskunnsemi við mig dregið sig í hlé?16Þú ert þó vor faðir; því Abraham skiptir sér ekki af oss, og Ísrael kannast ekki við oss. Þú Drottinn, ert vor faðir, vor frelsari: það er þitt nafn frá örgamalli tíð.17Hví léstú oss, Drottinn, villast af vegum þínum? Hví léstú hjarta vort harðna, svo það óttaðist þig ekki? Snú þér, fyrir sakir þinna þjónustumanna, fyrir sakir ættkvísla arfleifðar þinnar!18Skamma stund sat þitt heilaga fólk í arfi sínum; óvinir vorir hafa niðurtroðið þinn helgidóm.19Vér höfum í langa tíma verið, eins og þú hefðir aldrei drottnað yfir oss, og eins og vér hefðum ekki verið nefndir eftir þínu nafni.

V. 4. a. Hebr., og ár minna endurleystu var komið. V. 11. Hirðir hjarðar Guðs; Móses, leiðtogi Gyðingalýðs. V. 14. Hvíld, óhultur bústaður í Kanverjalandi.