Um inntöku Jerúsalemsborgar, útbreiðslu Guðs safnaðar, og sameiningu heiðingjanna við Guðs fólk.

1Sjá! eftir ráðstöfun Drottins kemur sá dagur, að því herfangi, sem frá þér er rænt (Jerúsalemsborg!), verður skipt mitt í sjálfri þér.2Því eg vil kveðja upp alla heiðingja til hernaðar móti Jerúsalemsborg, og borgin skal verða tekin, húsin rænd, kvinnur smánaðar og helmingur borgarmanna herleiddur; en þó skal eftir verða nokkurt fólk í borginni, sem ekki skal afmáð verða.3Því Drottinn mun út fara, og berjast við þessa sömu heiðingja, eins og þá hann barðist forðum a) á orrustudeginum.4Á þeim degi munu fætur hans standa á Viðsmjörsviðarfjallinu, sem liggur gagnvart Jerúsalemsborg móti austri; mun þá Viðsmjörsviðarfjallið klofna um þvert frá austri til vesturs; og þar mun verða geysivíður dalur, því annar hluti fjallsins mun undan síga til norðurs, en hinn til suðurs.5Þá munuð þér flýja í þennan minn fjalldal: því dalurinn milli fjallanna mun ná allt niður að fjallsrótum; þér munuð flýja, eins og þegar þér flýðuð undan landskjálftanum á dögum Usías, Júdaríkis konungs. Þá kemur Drottinn, minn Guð, og allir heilagir með honum.6Á þeim degi mun ekkert ljós skína, heldur vera blendingur birtu og dimmu.7Þessi dagur mun verða einstakur Drottni (einum) kunnur, hvörki dagur né nótt; en undir kvöld mun ljós verða.
8Á þeim degi munu vötn út fljóta frá Jerúsalemsborg, og mun annar helmingur vatnanna falla í hafið móti austri, en hinn helmingurinn í hafið móti vestri; þetta skal vara sumar og vetur.9Þá skal Drottinn konungur vera yfir öllum löndum; á þeim degi skal Drottinn vera einn, og nafn hans eitt.10Allt landið frá Geba til Rimmons fyrir sunnan Jerúsalemsborg skal verða að sléttum velli. Háreist og óhult skal Jerúsalemsborg standa á stöðvum sínum, frá Benjamínshliði til hins gamla hliðs, hyrningarhliðsins, og frá Hananelsturni til víntraða konungsins.11Menn skulu búa í borginni, og engin óblessun skal framar í henni vera; Jerúsalemsborg skal óhult standa.
12Þetta skal vera sú plága, sem Drottinn skal láta ganga yfir allar þær þjóðir, sem fara herför móti Jerúsalemsborg: líkami sérhvörs manns skal uppþorna, meðan hann er enn á fótum, augun skulu hjaðna í augnatóftunum, tungan visna í munninum.13Á þeim degi skal Drottinn æsa mikið upphlaup meðal þeirra, svo þeir skulu takast á, og hvör hefja hönd sína móti öðrum.14Einnig þú, Júda ættkvísl, skalt herja á Jerúsalemsborg: og auður allra heiðingja, sem í kring eru, skal þar saman safnast, gull, silfur og klæði, svo að stóru nemur.15Sama plága, sem þessi, skal koma yfir hesta, múla, úlfalda, asna, og öll þau dýr, sem í þeim herbúðum eru.
16Það skal verða, að allar eftirleifar allra þeirra heiðingja, sem farið hafa móti Jerúsalemsborg, skulu hvört ár þangað upp fara, til að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, og til að halda heilagt laufskálahátíðina.17En hvör sú þjóð á jarðríki, sem eigi vill upp fara til Jerúsalemsborgar, til að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, yfir hana skal ekki regnskúr koma.18Og vilji Egyptaþjóð ekki upp fara, og ekki þangað koma, þá skal eigi heldur yfir þá regn koma; yfir þá skal koma sú plága, sem Drottinn mun láta ganga yfir þær þjóðir, er ekki vilja upp fara, til að halda heilagt laufskálahátíðina.19Þetta skal vera hegning Egyptalandsmanna, og hegning allra þeirra þjóða, sem ekki vilja upp fara, til að halda heilagt laufskálahátíðina.20Á þeim degi skulu þessi orð standa á bjöllum a) hestanna, „helgað Drottni“; og katlarnir í húsi Drottins skulu vera sem fórnarskálirnar fyrir altarinu.21Já, sérhvör ketill í Jerúsalemsborg og í Júdaríki skal helgaður vera Drottni allsherjar; og hvör, sem fórnfæra vill, skal koma og taka einhvörn þeirra, og sjóða í. Og á þeim degi skulu öngvir Kanverjar framar vera í húsi Drottins allsherjar.

V. 3. a. Við Egyptalandsmenn. V. 20. a. Eða laufum, sem héngu til prýðis á reiðingi hestanna.