Sakarías kennir, að Guð muni varðveita sitt fólk móti óvinum þess, og með sínum anda hræra það til iðrunar.

1Þetta er það orð, er Drottinn hefir upp kveðið um Ísraelsmenn; það er atkvæði Drottins, hans, sem útþenur himininn, grundvallar jörðina, og skapar þann anda, sem með manninum býr.2Sjá, eg læt Jerúsalemsborg verða að ofdrykkjubikar fyrir allar þær þjóðir, sem í kring eru; og jafnvel Júda ættkvísl skal neyðast til að vera með í umsátrinu um Jerúsalemsborg.3Á þeim degi vil eg gjöra Jerúsalemsborg að aflraunarsteini fyrir allar þjóðir; hvör sá, sem vill hefja hann upp, skal hrufla sig á honum: því allar þjóðir á jörðunni skulu samansafnast móti henni.4Á þeim degi vil eg, segir Drottinn, slá felmtri á alla hesta, og vitleysu á sérhvörn þann, sem ríður þeim. Eg vil hafa vakanda auga á Júda ættkvísl, en slá alla hesta þjóðanna með blindu.5Þá skulu höfðingjar Júda ættkvíslar segja með sjálfum sér: sterkir eru innbyggjendur Jerúsalemsborgar fyrir aðstoð Drottins allsherjar, Guðs þeirra.6Á þeim degi vil eg láta höfðingja Júda ættkvíslar vera sem glóðarker í viðarkesti og sem blys í kerfum; þeir skulu fella alla þá menn, sem í kring um þá eru, til hægri og vinstri handar; og Jerúsalemsborg skal vera kyrr á sínum samastað, þar sem hún áður var.7Drottinn mun frelsa tjaldbúðir Júda ættkvíslar á undan (Jerúsalemsborg), svo að frami Davíðs ættar og Jerúsalemsborgarinnbyggjenda verði ekki meiri, en frami Júda ættkvíslar.8Á þeim degi mun Drottinn vera hlífiskjöldur Jerúsalemsborgar innbyggjenda: sá sem er lítill fyrir sér meðal þeirra, skal á þeim degi verða önnur eins hetja og Davíð, og Davíðs ætt eins og Guð, eins og engill Drottins, (sá er forðum gekk) á undan þeim (2 Mós. 14,18).9Á þeim degi vil eg gjöra mér far af að afmá alla þá heiðingja, sem farið hafa í móti Jerúsalemsborg.
10Þá vil eg úthella líknaranda og bænaranda yfir Davíðs ætt og yfir innbyggjendur Jerúsalemsborgar: þeir skulu renna augum til mín, til hans, sem þeir hafa gegnum stungið; þeir skulu kveina hans vegna, eins og menn harma lát einkasonar síns: þeir skulu hryggjast hans vegna, eins og menn hryggjast af láti frumgetins sonar.11Á þeim degi skal eins mikið harmakvein verða í Jerúsalemsborg eins og (forðum) varð í Hadad-Rimmonsborg í Megiddonsdal. a).12Landið skal kveina, hvör kynþáttur fyrir sig: kynþáttur Davíðsættar sér í lagi, og konur þeirra fyrir sig; kynþáttur Natansættar sér í lagi, og konur þeirra fyrir sig;13kynþáttur Levíættar sér í lagi, og konur þeirra fyrir sig; kynþáttur Símeíættar sér í lagi, og konur þeirra fyrir sig;14og eins allir hinir aðrir kynþættir, hvör kynþáttur sér í lagi, og kvinnur þeirra fyrir sig.

V. 11. a) Eftir fall Jósíass, Júdaríkiskonungs, sjá 2 Kron. 35,20–25.