Jesús afhentur Pílatus; örvænting og dauðdagi Júdasar; Jesú játning og þögn; Barabbas er laus látinn, en Jesús afhentur til húðstroku og krossfestingar, spottaður, þyrnikrýndur og hæddur. Teiknin við Jesú dauða; Jesús greftraður. Við legstaðinn setjast verðir.

1Að morgni næsta dags tóku allir hinir æðstu prestar og öldungar lýðsins ráð sín saman gegn Jesú, svo þeir gæti ráðið hann af dögum,2bundu hann síðan, færðu hann þaðan og seldu í hendur landstjórnaranum Pontíus Pílatus.
3En er Júdas, sá er sveik hann, sá að hann var til dauða dæmdur, iðraðist hann og skilaði hinum æðstu prestum og öldungunum aftur þeim þrjátíu silfurpeningum, og mælti:4illa gjörði eg, er eg sveik saklausan mann; en þeir sögðu, það kæmi sér ekki við, og báðu hann sjálfan fyrirsjá.5Þá kastaði hann silfrinu á musteris gólfið, skundaði þaðan og hengdi sig.6En hinir æðstu prestar tóku silfrið, og kom það ásamt, að ekki væri hæfilegt að leggja það í guðskistuna, því það hafi verið til höfuðs lagt.7Tóku þeir því það til ráðs að kaupa með því leirkerasmiðs akur til að jarða þar í útlenda menn,8og þess vegna er hann enn þá kallaður Blóðs-akur.9Þannig rættist það, er Jeremías segir: „þeir tóku þá þrjátíu silfurpeninga, verð þess, er metinn var, hvörn Ísraelsmenn höfðu metið,10og þeir keyptu fyrir þá leirkerasmiðs akur, eins og Drottinn hafði boðið mér“.
11Nú er Jesús kom fyrir landstjórann, frétti þessi, hvört hann væri Gyðinga konungur? Jesús kvað það satt vera.12En er hinir æðstu prestar og öldungar báru sakir á hann, svaraði hann engu.13Þá sagði Pílatus til hans: heyrir þú ekki þeirra sakargiftir?14en hann svaraði honum ekki til neins orðs, svo að landstjórnarann furðaði mjög.15Á hátíðinni var Landstjórnarinn vanur að láta fólkinu lausan bandingja þann einn, er þeir sjálfir kysu,16en þá var þar bandingi nokkur nafnkunnur, sá er Barabbas hét;17nú er þeir voru samankomnir, tók Pílatus svo til orða: hvörn viljið þér nú að eg gefi yður lausan, Barabbas eður Jesúm, sem Kristur er kallaður;18því hann vissi, að þeir höfðu Jesúm fyrir haturs sakir framseldan.19En er hann sat á dómstólnum, sendi kona hans til hans, og lét segja honum: láttú þenna saklausa mann vera, því margt þungt hefir mér borist í drauma í dag hans vegna.20En hinir æðstu prestar og öldungarnir eggjuðu alþýðuna, að þeir skyldu biðja um Barabbas, en Jesúm skyldu þeir lífláta.21Síðan tók landstjórnarinn til orða og mælti: hvörn þessara tveggja viljið þér nú að eg gefi yður lausan? en þeir sögðu: Barabbas!22Þá spurði Pílatus þá: hvað skal eg gjöra við Jesúm, er Kristur kallast? þeir sögðu allir: að hann skyldi krossfestast.23Þá spurði landstjórnarinn: hvað hefir hann þá illt gjört? en þeir kölluðu þess meir: krossfestist hann!24Nú er Pílatus sá, að hann engu mundi fá til vegar komið, heldur mundi þar upphlaup verða, tók hann vatn og þvoði hendur sínar, svo allir sáu, og mælti: sýkn er eg í lífláti þessa saklausa manns, sjáið þér fyrir því.25Þá mælti allur lýður: komi blóð hans yfir oss og börn vor.26Síðan gaf hann þeim Barabbas lausan, en Jesúm lét hann húðstrýkja og afhenti hann til að krossfestast.27Að svo búnu færðu stríðsmenn landstjórnarans Jesúm inn í höll (Landstjórnarans), og söfnuðu að honum öllum flokknum,28færðu hann af klæðum sínum og lögðu yfir hann skarlatskápu,29fléttuðu kórónu af þyrnum og settu á höfuð honum, gáfu honum reyr í hönd, hneigðu honum, hæddu hann og mæltu: heill vertú Gyðingakonungur!30hræktu á hann, tóku reyrinn og hröktu um höfuð honum.31Þegar þeir nú þannig voru búnir að hæða Jesúm, færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin föt, og leiddu hann út til að krossfestast.
32En er þeir gengu út, fundu þeir mann, er Símon hét, ættaðan frá Sýrene; þessum nauðguðu þeir til að bera hans kross.33Þegar þeir nú komu til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir Hausaskeljastaður,34buðu þeir honum súrt vín beiskjuborið; en er hann hafði það smakkað, vildi hann ekki drekka.35En þá þeir höfðu krossfest hann, skiptu þeir með sér klæðum hans eftir hlutkesti,36biðu svo þar og gættu hans.37En yfir höfuð hans var fest hans dauðasök, skrifuð á þessa leið: þessi er Jesús, konungur Gyðinga.38Með honum voru líka krossfestir ræningjar tveir, annar til hægri hliðar, hinn til vinstri.39En þeir, er framhjá gengu, illmæltu honum, skóku höfuð sín og mæltu:40þú, sem ætlaðir að niðurbrjóta musterið, og byggja það aftur innan þriggja daga, hjálpa þú nú sjálfum þér; ef þú ert Guðs Sonur, þá stíg niður af krossinum.41Líka hæddu hann hinir æðstu prestar ásamt öldungunum og hinum skriftlærðu, og sögðu:42öðrum gat hann hjálpað, en sjálfum sér getur hann ekki bjargað; sé hann konungur Ísraels, þá stígi hann niður af krossinum, þá viljum vér trúa honum;43hann treysti Guði, hjálpi hann honum nú, ef honum er vel til hans, þar hann kvaðst vera Guðs Sonur.44Um hið sama brigsluðu honum ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir.45Þá kom myrkur mikið yfir allt landið frá sjöttu til níundu stundar;46og um níundu stundu kallaði Jesús hátt og mælti: Elí! Elí! lama sabachtaní! það þýðir: Guð minn! Guð minn! því hefir þú yfirgefið mig?47En er nokkrir af þeim, er við voru staddir heyrðu þetta, sögðu þeir: að hann kallaði á Elias;48og strax hljóp einn af þeim að, tók njarðarvött og fyllti með súrt vín, setti hann ofan á reyrlegg, og gaf honum að drekka,49en hinir sögðu: reynum vér, hvört Elías kemur að hjálpa honum.50Þá kallaði Jesús aftur hárri röddu, og gaf upp andann.51Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður í gegnum, jörðin skalf og björgin klofnuðu,52og legstaðir hinna dauðu opnuðust, og margir helgir menn risu upp, þeir er áður voru dauðir;53og sem þeir voru útfarnir af gröfum sínum, komu þeir, eftir hans upprisu, í borgina helgu, og urðu þar sénir af mörgum.54Nú er hundraðshöfðinginn og þeir, sem með honum voru, sem Jesús átti að gæta, sáu jarðskjálftann og það sem skeði, urðu þeir næsta hræddir, og sögðu: sannarlega var þessi maður Guðs Sonur.55Þar vóru og konur margar, sem stóðu langt frá og sáu til; þessar höfðu fylgt með Jesú úr Galíleulandi og þjónað honum.56Meðal þeirra voru þær María frá Magdölum, María móðir þeirra Jakobs og Jósis, og móðir þeirra Sebedeusarsona.
57Þegar kvöld var komið, kom maður sá, er Jósep hét, frá Arimatíu, auðugur að fé;58þessi var og einn af lærisveinum Jesú; hann fór til Pílatusar og bað um lík Jesú, og lét Pílatus afhenda honum það.59Síðan tók Jósep við líkinu, og sveipaði það í hreinu líni,60og lagði það í nýjan legstað, sem hann hafði látið úthöggva í klett handa sjálfum sér, velti síðan stórum steini fyrir dyrnar og fór burt.61Þar var líka María frá Magdölum og hin önnur María; þær sátu gegnt gröfinni.
62Daginn eftir, sem næstur var eftir aðfangadaginn, söfnuðust hinir æðstu prestar og farisearnir saman og komu til Pílatusar,63og sögðu: oss er það í minni, Herra! að meðan villumaður þessi lifði, kvaðst hann mundi upprísa innan þriggja daga.64Lát þú því gæta legstaðarins allt til þriðja dags, svo að ekki komi lærisveinar hans og steli honum, segi síðan lýðnum, að hann sé upprisinn, og verði svo seinni villan verri enni fyrri.65Pílatus mælti: hér hafið þér varðhaldsmennina; farið og gætið legstaðarins, sem þér hafið best vit á.66Þeir fóru og innsigluðu steininn, og létu varðmennina gæta grafarinnar.

V. 1–31. sbr. Mark. 15,1–20. Lúk. 23,1–25. Jóh. 18,28–40. 19,1–16. V. 9. Sak. 11,12.13. sbr. Jer. 18,2. V. 32–56. sbr. Mark. 15,21–41. Lúk. 23,26–49. Jóh. 19,17–37. V. 43. Sálm. 22,9. V. 46. Sálm. 22,2. V. 48. Sálm. 69,22. V. 57–61, sbr. Mark. 15,43–47. Lúk. 23,50–56. Jóh. 19,38–42.