Daníel les og útþýðir letrið á veggnum.

1Beltsasar konungur a) hélt veislu mikla sínum 1000 stórhöfðingjum, og drakk vín með þeim;2en er menn tóku til að gjörast ölhreifir, bað Beltsasar að sækja þau gullker og silfurker, sem Nebúkadnesar, faðir hans, hafði tekið úr musterinu í Jerúsalem, til þess að konungurinn sjálfur og hans stórhöfðingjar, konur hans og hjákonur, drykki þar af.3Þá voru fram borin þau gullker, sem tekin höfðu verið úr musterinu, úr Guðshúsi í Jerúsalem; og konungurinn, hans stórhöfðingjar, eiginkonur og hjákonur, drukku af þeim.4Þeir drukku nú vínið, og vegsömuðu þá guði, sem gjörðir voru af gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.5Á sömu stundu komu fram eins og fingur á mannshendi, sem rituðu eitthvað á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósahjálminum, og sá konungurinn inn í lófa handarinnar, sem ritaði.6Þá tók konungurinn litaskipti og varð skelkaður: mjaðmir hans engdust saman, og hans kné titruðu.7Konungurinn kallaði hástöfum, að þangað skyldi leiða stjörnuvitringana, Kaldeaspekinga og spásagnarmennina; lét konungur segja vísindamönnunum í Babel: „hvör sem les þetta letur og segir mér þýðing þess, sá skal klæddur verða í purpura, bera gullfesti á hálsi sér, og vera þriðji yfirhöfðingi í ríki mínu“.8Þá voru allir vísindamenn konungsins leiddir inn þangað, en þeir gátu hvörki lesið letrið, né sagt konungi þýðingu þess;9hvörs vegna Beltsasar konungur varð mjög skelfdur og litverpur, og stórhöfðingjar hans urðu óttaslegnir.10En er svo var ástatt fyrir konungi og stórhöfðingjum hans, gekk drottningin inn í drykkjustofuna, tók til orða og mælti: njóti konungurinn langra lífdaga! vert ei óttasleginn, og skipt ei svo þínum yfirlitum!11Sá maður er í ríki þínu, í hvörjum að býr andi heilagra guða; því á dögum föður þíns fannst hjá þeim manni ljós, skilningur og vísdómur, líkur vísdómi guðanna; og því gjörði Nebúkadnesar faðir þinn, hann að yfirhöfðingja kunnáttumannanna, stjörnuvitringanna, Kaldeaspekinga og spásagnarmanna. Þetta gjörði faðir þinn, konungur,12sökum þess að hjá honum fannst frábær gáfa kunnáttu og skilnings, til að þýða drauma, ráða gátur og greiða úr vandamálum; hann heitir Daníel, en konungurinn lét kalla hann Beltsasar. Kalli nú á Daníel, og mun hann segja hvað þetta merkir.13Síðan var Daníel leiddur inn fyrir konunginn; þá mælti konungur þessum orðum til Daníels: ertú Daníel einn af þeim herleiddu Gyðingum, sem konungurinn, faðir minn, lét hingað flytja frá Júdalandi?14Eg hefi heyrt af þér sagt, að andi guðanna sé í þér, og að hjá þér finnist ljós, skilningur og frábær vísdómur.15Nú hefi eg látið leiða inn fyrir mig vísindamenn og stjörnuvitringa, til að lesa þetta letur og segja mér þýðingu þess, en þeir hafa ekki getað það.16En eg heyri um þig, að þú kunnir þýðingar að ráða og úr vandmælum að greiða. Nú ef þú getur lesið þetta letur og sagt mér þýðingu þess, þá skaltu klæddur verða í purpura, bera gullfesti á hálsi þér, og vera hinn þriðji yfirhöfðingi í ríkinu.17Þá tók Daníel til orða og svaraði konunginum: haltú sjálfur þinni gáfu, og veit gjafir þínar einhvörjum öðrum. En ei að síður mun eg lesa þetta letur fyrir konunginum, og segja þýðingu þess.18Þú konungur! Guð sá hinn hæsti veitti Nebúkadnesar, föður þínum, ríki, vald, ágæti og vegsemd;19og sökum þess veldis, sem hann hafði veitt honum, hræddust hann allar þjóðir, fólk og tungumál, og höfðu beyg af honum, því hann aflífaði hvörn sem hann vildi, og lét lifa hvörn sem hann vildi, hann hóf hvörn er hann vildi, og lítillætti hvörn er hann vildi.20En er hjarta hans metnaðist og hugur hans gjörðist ofdrambsfullur, þá var honum hrundið úr konungshásætinu, og metorðin tekin af honum;21hann var rekinn úr mannafélagi, hans hjarta varð líkt dýrshjarta, hann átti byggð meðal skógarasna, át gras sem uxar, og líkami hans varð votur af himindögginni, allt þar til hann kannaðist við, að hinn hæsti Guð hefir vald yfir ríkjum mannanna, og veitir þau hvörjum sem hann vill.22Og þú Beltsasar, sonur hans, hefir ekki lítillætt þitt hjarta, enn þótt þú vissir allt þetta,23heldur hefir þú sett þig upp á móti Drottni himnanna, og látið færa þér kerin úr hans húsi og drukkið vín af þeim ásamt með stórhöfðingjum þínum, eiginkonum og hjákonum; þú hefir og lof sungið þeim guðum, sem gjörðir eru af silfri, gulli, eiri, járni, tré og steini, sem ekki sjá, ekki heyra og ekkert vita, en þann Guð, í hvörs hendi þinn andardráttur er og ráð hefir á öllum þínum högum, hann hefir þú ekki vegsamað.24Þess vegna er þessi handarlófi frá honum sendur, og þetta letur ritað.25En letrið, sem ritað er, er svolátandi: Mene, Tekel, Peres.26Þessi er þýðing letursins: Mene, talið, þ. e. Guð hefir talið þín ríkisár og leitt þau til enda;27Tekel, vegið, þ. e. þú ert veginn í skálum og léttvægur fundinn;28Peres, deilt, þ. e. þitt ríki er deilt og gefið Medum og Persum.29Því næst bauð Beltsasar að skrýða Daníel purpura, og láta gullfesti á háls honum, og gjöra heyrumkunnugt, að hann skyldi vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu.30En á hinni sömu nóttu var Beltsasar Kaldeakonungur drepinn.

V. 1. a. Líklega sá seinasti kóngur í Babylon, sem aðrir nefna Nabonned.