Amos hótar Ísraelsmönnum hegningu Guðs fyrir þeirra rangsleitni, sællífi og ofmetnað.

1Vei hinum andvaralausu á Síonsfjalli, og hinum grannlausu á Samaríufjalli, höfðingjum hinnar ágætustu þjóðar, hjá hvörjum Ísraelsmenn halda samkomur sínar.2Farið yfir til Kalneborgar, og litist um! Gangið þaðan til Hemats, hinnar miklu borgar! Farið ofan þaðan til Gatsborgar í Filistalandi! eru þær voldugri, en þessi ríki? Eru landamerki þeirra stærri, en yðar landamerki?3Vei yður, sem haldið að hegningardagurinn sé hvörgi nærri, og flýtið komu hans með ranglátum dómum:4sem sofið á legubekkjum af fílsbeini, og liggið flatir í hvílurúmum yðrum, etið feit lömb af sauðahjörðinni, og alikálfa úr stíunni:5sem syngið undir með hörpunni, og finnið upp hljóðfæri, sem Davíð:6drekkið vín af bikurum (skaftkerum), smyrjið yður með dýrasta viðsmjöri, án þess tjón Jósepsættar renni yður til rifja.7Þessa vegna skulu þeir bráðum herleiddir verða á undan öðrum útlegðarmönnum, og þá skal fagnaðaróp sælkeranna þagna.
8Drottinn alvaldur hefir svarið við sjálfan sig, segir Drottinn, Guð allsherjar: eg hefi viðbjóð á ofmetnaði Jakobsættar; eg hata hennar hallir; eg vil selja borgina, og allt sem innan borgar er, í hers hendur.9Þá mun svo fara, að verði tíu menn eftir í einu húsi, þá skulu þeir allir deyja;10og þegar einhvör ættingi eða líkbrennumaður tekur upp beinin, til að færa þau út af húsinu, og spyr einhvörn, sem liggur í afkima hússins: „eru nokkurir fleiri hjá þér?“ Þá mun sá svara: „enginn!“ Þá mun hinn segja: „haf hljótt um þig! því hér er eigi staður til að lofa nafn Drottins“.11Því sjá! Drottinn býður, og þegar mun (óvinurinn) ljósta hið meira húsið, svo það skal hrynja, og hið minna húsið, svo það skal rifna.12Geta hestar hlaupið á klettum, eða erja menn þar með uxum? Því þér umhverfið lagaréttinum í eitur, og ávöxtum réttvísinnar í ólyfjan:13þér gleðjist yfir því sem ekkert er, og segið: hefir oss ekki vaxið styrkur sökum harðfengi vorrar?14Því sjáið! eg vil hefja eina þjóð móti yður, Ísraelsmenn, segir Drottinn, Guð allsherjar, og sú þjóð skal bægja yður frá Hamatsborg og allt að læknum á sléttlendinu, (1 Kóng. 8,65).