Sakaría sér fjögur horn og fjóra smiði, er tákna, að mótstöðumenn Guðs safnaðar skuli af æðra krafti sigraðir verða; hann sér mæliþráð, sem merkir að Guð vilji sjálfur vernda Jerúsalemsborg; hann upphvetur Gyðinga, sem eftir voru í Babel, að koma heim; spáir, að heiðingjar muni sameinaðir verða við Guðs fólk.

1Þá hóf eg upp augu mín, og sá hvar fjögur horn voru.2Eg spurði engilinn, er við mig talaði: hvað eru þessi? Hann svaraði mér: þetta eru þau horn, er tvístrað hafa Júdaríkis mönnum, Ísraelsmönnum og Jerúsalemsborgar innbyggjendum.3Því næst lét Drottinn mig sjá fjóra smiði.4Eg spurði til hvörs eru þessir komnir? Hann svaraði: þessir eru komnir til að hræða þau horn, sem tvístruðu Júdaríkis mönnum, svo að enginn þeirra mátti um frjálst höfuð strjúka, og til að niðurvarpa hornum þeirra þjóða, er reistu horn gegn Júdalandi, til að tvístra því.
5Enn hóf eg upp augu mín, bar þá fyrir mig sýn: eg sá mann, sem hélt á mæliþræði í hendi sér.6Eg spurði (þenna mann): hvört ætlar þú? Hann svaraði mér: eg fer að mæla Jerúsalemsborg, til að vita hvörsu breið og hvörsu löng hún er.7En er engill sá, er við mig talaði, gekk fram (úr skóginum), mætti hann öðrum engli,8og sagði til hans: bregð við skjótt, tala þú til þessa hins unga manns, og seg: Jerúsalemsborg skal vera múrveggjalaus, sökum þess fjölda manna og skepna, sem í borginni skal vera;9en eg vil vera sem eldveggur umhverfis um hana, segir Drottinn, og í miðri borginni skal eg sýna mig dýrðlegan.
10Upp, upp! Flýið úr Norðurlandinu a), segir Drottinn, því eg vil útbreiða yður eftir himinsins fjórum höfuðáttum, segir Drottinn.11Upp, Síonsbyggjar, þér sem búið í Babelsborg! forðið yður!12Því svo segir Drottinn allsherjar: „nú er vegsemd í vændum“. Hann hefir sent mig til heiðingjanna, sem ræntu yður; því hvör sem yður snertir, sá snertir hans augastein.13Því sjá, eg bregð hendi minni yfir þá, og þá skulu þeir verða Ísraelsmönnum að herfangi; og þá skuluð þér viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig.14kyrja upp og fagna, Síons dóttir! því sjá þú, eg kem, og vil búa mitt í þér, segir Drottinn.
15Á þeim degi skulu Drottni bætast margir heiðingjar, og þeir skulu vera sem mitt eigið fólk; eg vil búa mitt á meðal þín, og þú skalt viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til þín.16Þá skal Drottinn eignast Júdaríki í sinn hlut í hinu heilaga landi, og hann skal enn nú hafa velþóknun á Jerúsalemsborg.17Þegi allar skepnur fyrir augliti Drottins, þegar hann gengur fram af sínum heilaga bústað!