Um matfórnir.

1Ef nokkur er, sem færa vill Drottni matfórn þá skal sú fórnargáfa vera af hveitimjöli, og skal hann hella þar yfir viðsmjöri, og leggja þar ofan á reykelsi,2færa það svo prestunum, sonum Arons; en presturinn skal taka fullan knefa sinn af hveitinu og viðsmjörinu ásamt með öllu reykelsinu, og gjöra þar af upptendran, minningarfórn á altarinu. Þvílík fórn er eldfórn sætleiksilms fyrir Drottni.3Leifar fórnarinnar tilheyra Aron og sonum hans, og eru þær háheilagar á meðal eldfórna Drottni færðra.
4En viljir þú færa Drottni matfórn af því sem bakað er í ofni, þá séu það ósýrðar hveitimjölskökur, smurðar með viðsmjöri og þunnir ósýrðir leifar döggvaðir með viðsmjöri.5En ef matfórn þín er af því, sem bakað er á pönnu, þá skal það vera ósýrt af hveitimjöli, döggvað með viðsmjöri.6Þú skalt brjóta kökuna í mola og hella yfir viðsmjöri, þá er það matfórn.7En ef að þín fórnargáfa er tilbúin af því, sem í katli er soðið, þá sé það af hveitimjöli menguðu með viðsmjöri,8og þá gáfu, sem af þessu er tilbúin handa Drottni skaltu frambera og færa prestinum; en hann skal bera hana til altarisins,9og upplyfta nokkrum parti hennar til minningarfórnar og upptendra á altarinu. Þvílík eldfórn er fórn sætleiksilms fyrir Drottni.10Leifarnar tilheyra Aron og sonum hans, og eru þær háheilagar af Drottins eldfórnum.
11Enga matfórn sem þér færið Drottni skuluð þér sýra, því ekkert súrdeig eða hunang skal vera í þeirri eldfórn, sem þér Drottni færið.12En í frumgróðafórnum megið þér færa það Drottni, en á altarið má þetta ekki koma til sætleiksilms.
13Sérhvör matfórn skal með salti saltast. Þú skalt ekki láta vanta að strá salti sáttmálans við þinn Drottin yfir þína matfórn, með öllum þínum gáfum skaltu frambera salt.
14Ef þú vilt frambera fyrir Drottin gáfu af jarðarávaxtanna frumgróða, þá skal sú gáfa er þú framber af jarðarávaxtanna frumgróða vera þurrkað við eld, mulið korn.15Þú skalt hella þar á viðsmjöri og láta þar ofan á reykelsi. Það er rétt matfórn.16Af nokkrum hluta þess mulda korns og viðsmjörsins og öllu reykelsinu skal presturinn gjöra upptendran, minningarfórn, eldfórn Drottni til dýrðar.

V. 1. Matfórn kallast einungis þær fórnir sem voru af jarðarávöxtum, en þegar lifandi skepnum var fórnfært kallaðist það ekki matfórn, þó prestarnir og þeirra heimilisfólk æti nokkuð þar af. V. 2. Minningarfórn, því hún átti líka sem minna Guð á þann fórnfærandi og minna hann sjálfan á hvörsu hann væri upp á Guð kominn. V. 10. Ei nema nokkuð af fórnum þessum og fleirum var brennt á altarinu. Hitt tilheyrði prestunum og það af þeim sem þeir borða áttu á helgum stað (þ. e. innan musterisins vébanda) var eins heilagt eins og það, sem á altarinu var brennt.