Amos spáir Ísraelsmönnum eyðileggingu, og jafnvel konungsættinni; þá ákærir Amasía hann, og bannar honum að spá.

1Drottinn, hinn Alvaldi, lét mig sjá þessa sýn: Sjá, hann bjó til engisprettur, í það mund að háin tók til að spretta, eftir það að konungur hafði látið slá akra sína.2En er þær höfðu með öllu afetið grasið af jörðunni, sagði eg: Drottinn alvaldi, eg bið, fyrirgef! Hvörsu má Jakobs ætt standast? því hún má sér lítið.3Þá iðraði Drottinn þessa; „það skal ekki vera“, sagði Drottinn.4Drottinn alvaldur lét mig enn sjá þessa sýn: Sjá, Drottinn, hinn alvaldi, kallaði á eldinn til hegningar þeim, og eldurinn uppsvalg stór vötn og eyddi landinu.5Þá sagði eg: eg bið, Drottinn alvaldur, lát af! Hvörsu má Jakobsætt standast, þar sem hún er svo vanmegn?6Þá iðraði Drottinn þessa; „þetta skal ekki heldur vera“, sagði Drottinn alvaldur.7Og enn lét hann mig sjá sýn: Sjá, hinn alvaldi stóð uppi á þráðréttum múrvegg, og hélt á mæliþræði.8Drottinn sagði til mín: hvað sér þú, Amos? Eg svaraði: mæliþráð. Þá sagði hinn Alvaldi: sjá þú, eg legg mæliþráð mitt á meðal míns fólks, Ísraelslýðs; eg vil ekki lengur vægja honum.9Hörgar Ísraelsniðja skulu í eyði lagðir verða, og helgistaðir Ísraelsmanna auðir standa; eg vil rísa í gegn Jeróbóamsætt með reiddu sverði.
10Þá sendi Amasía, kennimaður í Betel, til Jeróbóams, Ísraelsmannakonungs, og lét segja: Amos hefir gjört samsæri móti þér, mitt á meðal Ísraelslýðs; landið getur eigi þolað öll hans orð;11því Amos hefir svo til orða tekið: „Jeróbóam skal fyrir sverði falla og Ísraelsmenn skulu verða herleiddir og fluttir burt úr landi þeirra“.12Þá sagði Amasía til Amos: far á burt, þú spámaður, flý til Júdalands, halt þér þar uppi og spá þar;13en í Betel máttu ekki spá framar, því þar er helgistaður konungsins og höfuðstaður ríkisins.14Amos svaraði og sagði til Amasíu: eg er engi spámaður, og ekki spámannsson, heldur er eg hirðir, og lifi á mórberjafíkjum;15en Drottinn tók mig frá hjarðargeymslunni; og Drottinn sagði til mín: gakk, og spá fyrir mínum lýð, Ísraelslýð!16Heyr þú nú atkvæði Drottins: þú bannar mér að spá í gegn Ísraelsmönnum og láta orð mín streyma gegn Ísraelsniðjum:17þess vegna (svo segir Drottinn) skal kona þín verða smánuð í borginni, synir þínir og dætur þínar skulu fyrir sverði falla, jörð þinni skal sundurskipt verða með vað, og þú sjálfur skalt deyja í heiðnu landi, en Ísraelsmenn skulu verða herleiddir og fara útlægir af sínu landi.