Spámaðurinn er ofsóttur. Drottinn sleppir hendinni af sínu fólki. Hótanir og fyrirheit til nálægra þjóða.

1Rétt hefir þú fyrir þér, Drottinn, þegar eg fer í mál við þig, samt verð eg að sækja sök á móti þér: því er vegur hinna guðlausu lánlegur? því hinir svikulu landráðamenn með öruggu geði?2Þú plantar þá, og þeir festa rætur, vaxa og bera ávöxt. Nálægur ertu þeirra munni, en fjarlægur þeirra hjörtum.3En þú, Drottinn, þekkir mig, sér mig, og prófar mitt hjarta, hvörnig það er, þér til handa. Skildu þá frá, eins og sauði til slátrunar, og helgaðu þá drápsdeginum!4Hvörsu lengi skal landið syrgja, og allt vallanna gras uppvisna? Vegna innbúanna vonsku eru fuglar og dýr í burtu hrifin; því þeir segja: hann sér ekki vor afdrif.
5„Ef að þú mæðist, þegar þú hleypur með fótgangandi mönnum: hvörnig viltu þá hlaupa til kapps við hesta? Og þó þú sért öruggur í óhultu landi, hvað muntu gjöra í Jórdans prýði?6Því líka bræður þínir og þíns föðurs hús, þeir eru líka þér ótrúir; þeir kalla og eftir þér með háum róm. Trú þú þeim ekki, þó þeir tali vinsamlega við þig!“
7Yfirgefið hefi eg mitt hús, sleppt minni eign, eg hefi gefið það, sem inni sál var kærast, óvinum í hönd.8Mín eign er orðin mér, sem ljón í skógi, hún öskrar á móti mér, því hata eg hana.9Mín eign er mér villudýr, ólmt villudýr (hyene); villudýr sækja að henni allt um kring. Upp! upp! safnið saman öllum dýrum merkurinnar, komið með þau til ætis!10Margir hirðarar eyðileggja minn víngarð, niðurtroða minn akur; þeir gjöra að eyðimörk minn fallega litla akur.11Menn gjöra hann að auðn, sorglegt er um að litast; allt landið er eyðilagt, meðan engin lét sér það til hjarta ganga.12Eyðileggjarar koma yfir allar hæðirnar í eyðimörkinni; því sverð Drottins eyðileggur frá landsins einum enda til annars; ekkert hold hefir frið.13Þeir sáðu hveiti, uppskáru þyrna; þeir mæddust, höfðu engan ávinning. Svo verðið þér þá til skammar fyrir yðar afrakstur, sökum Drottins brennandi reiði.
14Svo segir Drottinn: móti öllum mínum vondu nábúum, sem gjöra útrás á mína eign, er eg gaf mínu fólki Ísrael: Sjá, eg ríf þá úr þeirra landi, og burtkippi Júda húsi mitt frá þeim.15En það mun ske, eftir að eg hefi þeim í burtu rykkt, að eg skal miskunna þeim, og leiða hvörn einn heim aftur til sinnar eignar og hvörn í sitt land.16Og það skal ske, ef þeir læra vegi míns fólks, svo að þeir sverja við mitt nafn, „svo sannarlega sem Drottinn lifir“! eins og þeir kenndu mínu fólki að sverja við Baal: svo skulu þeir njóta sömu gæða sem það, uppbyggðir verða meðal míns fólks.17En ef þeir hlýða ekki, svo upprykki eg slíku fólki, ríf það burt, og tortíni því, segir Drottinn.

V. 5. Jórdans prýði: Pláss við Jórdan yndislegt, en þar fólust samt hættuleg villudýr.