Frá Rabsaka, hershöfðingja Senakeribs.

1Svo bar til á 14da ríkisári Esekíass konungs, að Senakerib Assýrakonungur fór herför gegn öllum víggirtum borgum Júdaríkis, og tók þær.2Þá sendi Assýrakonungur Rabsaka með miklum liðstyrk frá Lakisborg til Jerúsalemsborgar móti Esekías konung; hann nam staðar hjá veituskurði hinnar efri tjarnar, á veginum við akur bleikjarans.3Þá gengu þeir út til hans, Eljakim Hilkíason dróttseti, Sebna kanseleri og Jóak Asapsson ritari.4Rabsaki mælti til þeirra: Segið Esekíasi: Svo segir hinn mikli konungur, Assýrakonungur: hvört er það athvarf, er þú treystir á?5Það er ætlan mín, að þín ráðastofnan og hernaðarstyrkur sé eintómt hégómamál. Á hvörn treystir þú nú, að þú skulir gjöra uppreisn í gegn mér?6Þú munt reiða þig á Egyptaland, þann hinn brákaða reyrsprotann, sem stingst í gegnum hönd hvörs þess, er við hann styðst. Eins er faraó konungur öllum þeim, er á hann treysta.7Svo er og um það, er þú segir við mig: „vér reiðum oss á Drottin, vorn Guð“. Er það ekki hann, hvörs fórnarhæðir og ölturu Esekías hefir afmáð a), og sagt til Júdaríkismanna og Jerúsalemsborgarmanna: „fyrir þessu altari b) skuluð þér fram falla og tilbiðja“?8Kom til og veðja við drottin minn, konung Assýríumanna: eg vil gefa þér tvö þúsund hesta, ef þú getur fengið þér jafnmarga riddara.9Hvörnig máttu reisa rönd við einum höfuðsmanni meðal hinna minnstu þjóna Drottins míns? og þó reiðir þú þig á hervagna og riddaralið Egyptalands!10Hugsar þú, að eg hafi farið upp hingað án atkvæða Drottins, til að leggja í eyði land þetta? Nei, Drottinn sagði til mín: far þú inn í þetta land, og legg það í eyði!11Þá sögðu þeir Eljakim, Sebna og Jóak til Rabsaka: Tala þú til vor, þjóna þinna, á sýrlensku, því vér skiljum það mál; en tala eigi til vor á Júdatungu, í áheyrn fólksins, sem uppi er á borgarveggnum.12Rabsaki svaraði: hefir nokkuð minn herra sent mig til þíns herra eða til þín, til þess að flytja þetta erindi? Hefir hann ekki sent mig til þeirra manna, sem þar sitja uppi á borgarveggnum, og eiga þann kost fyrir höndum ásamt með yður, að eta sinn eigin vallgang og drekka þarfagang a) sinn?13Þá gekk Rabsaki fram, og kallaði hárri röddu á Júdatungu og mælti: Heyrið orð hins mikla konungs, Assýríukonungs!14Svo segir konungurinn: Látið eigi Esekías tæla yður, því hann fær ekki frelsað yður.15Látið eigi Esekías koma yður til að treysta á Drottin, með því að segja: „Drottinn mun vissulega frelsa oss; þessi borg skal ekki verða Assýríukonungi í hendur seld“.16Hlýðið eigi Esekíasi, því segir Assýríukonungur: ef þér takið mér vingjarnlega og gangið á hönd mér, þá skal hvör yðar mega eta af sínum vínviði og fíkjutré, og drekka vatn af sínu vatnsbóli,17þar til er eg kem, og flyt yður til þess lands, sem jafnast við yðar land, til þess lands, sem er gott kornland og vínland, brauðland og víngarðaland.18Látið eigi Esekías tæla yður, er hann segir: „Drottinn mun frelsa oss“. Hafa nokkuð annarra þjóða guðir frelsað hvör sitt land af hendi Assýrakonungs?19Hvar eru guðir Hamatsborgar og Arpadsborgar (10,9)? Hvar eru guðir Seffarvajimsborgar? og hafa nokkur goð frelsað Samaríu af minni hendi?20Hvör eru þau af goðum allra þessara landa, er frelsað hafi lönd sín undan minni hendi? Skyldi þá Drottinn fá frelsað Jerúsalemsborg af minni hendi?21Menn þögðu og svöruðu honum öngvu; því konungur hafði boðið og sagt, að menn skyldu öngvu ansa honum.22Eftir það fóru þeir Eljakim Hilkíasson dróttseti, Sebna kanseleri og Jóak Asapsson ritari til Esekías með sundurrifnum klæðum, og sögðu honum frá orðum Rabsaka.

V. 7. a. Senakerib hefir heyrt eitthvað sagt frá þeirri siðabót, sem Esekías kom á í ríki sínu (2 Kóng. 18,4. 2 Kron. 31,1), en ekki skilið rétt, hvörnig á henni stóð. b. Fyrir altarinu í Jerúsalemsborg, 2 Kóng. 18,22. 2 Kron. 29,20–1.29. V. 12. a. Sökum drykkjar skorts og matleysis í umsátrinu.