Landamerki Kanaanslands eru tilgreind. Tiltekið hvörjir landinu skuli skipta.

1Og Drottinn talaði við Móses og sagði:2Bjóð þú Ísraelsbörnum og seg við þau: þegar þér komið í Kanaansland, er það þetta land, sem þið munuð fá til eignar, landið Kanaan með þessum landamerkjum:3suðurhlið þess mun vera: frá eyðimörkinni Sín með endilangri Ídúmeu, og landamerkið gegnt suðri þar fyrir liggja svona: að austanverðu, frá botni Dauðahafsins,4þaðan mun því veita og fyrir sunnan Skorpíonshæðirnar, liggja svo yfir þvera eyðimörkina Sín, lenda fyrir sunnan Kades-Barnea, ná til Hadsar-Adar, liggja um Asemon,5svo á bug til lækjar Egyptalands og enda við hafið.6Í vestur mun landamerki yðar vera hafið, já landamerki yðar skal það vera, landamerki að vestanverðu.7En að norðanverðu skal þetta vera landamerki yðar: frá hafinu mikla skuluð þér taka stefnu allt að fjallinu Hór,8frá fjallinu Hór skuluð þér taka stefnu á Hamat, og þaðan til Sedads,9svo til Sifron og enda við Hasar-Enan. Þetta skal vera landamerki yðar að norðanverðu.10Svo skuluð þér tiltaka landamerki yðar að austanverðu frá Hasar-Enan til Sefam,11frá Sefam skulu þau liggja niðureftir til Ribla fyrir austan Ain og svo lengra niður á við þar til þau snerta austurhliðina á sjónum Genesaret.12Síðan skulu þau liggja niður með Jórdan og enda við Dauðahafið. Þetta land skal yður tilheyra eftir sem landamerki þess tilsegja allt í kring!13Þetta bauð Móses Ísraelsbörnum og sagði: þetta er landið sem þér skuluð skipta á milli yðar með hlutkesti, sem Drottinn bauð að gefa þeim 9 kynkvíslum og þeirri hálfu kynkvísl.14Því kynkvísl Rúbensbarna eftir ættlegg feðra þeirra og kynkvísl Gaðs eftir ættlegg feðra þeirra og hálf Manassis kynkvísl höfðu fengið sína fasteign;15hálf þriðja kynkvísl hafði fengið fasteign hinumegin Jórdanar gegnt Jeríkó að austanverðu.
16Og Drottinn talaði við Móses og sagði:17þessi eru nöfnin á þeim mönnum sem skulu skipta landinu milli yðar: presturinn Eleasar, Jósúa sonur Núns;18skuluð þið taka einn höfðingja af hvörri kynkvísl til að skipta landinu,19og eru þetta nöfn þessara manna: af Júda kynkvísl: Kaleb sonur Jefúnnis;20af Símeons kynkvísl: Semúel sonur Ammíhúðs;21af Benjamíns kynkvísl: Elidad sonur Kislons;22af Dans kynkvísl: höfðinginn Bukki sonur Jaglis;23af börnum Jóseps, af kynkvísl Manassis: höfðinginn Haniel sonur Efods;24og af Efraíms ættkvísl: höfðinginn Kemuel sonur Siftans;25af Sebúlons kynkvísl: höfðinginn Elisafan sonur Parnaks;26af Ísaskars kynkvísl: höfðinginn Paltíel sonur Assans;27af Assers kynkvísl: höfðinginn Akkihud sonur Selomis;28og af Naftalís kynkvísl: höfðinginn Pedahel sonur Ammíhuds:29þetta voru þeir sem Drottinn skipaði að skipta skyldu milli Ísraelsbarna fasteigninni í Kanaanslandi.

V. 6. Þ. e. Miðjarðarhafið. V. 11. Þ. e. Suður eftir.