Um þjón Drottins og frelsun Gyðingalýðs.

1Heyrið mér, hin fjarlægu löndin! hyggið að, þér þjóðir, sem í fjarska búið! Drottinn kallaði mig allt í frá fæðingu minni, hann gjörði kunnugt nafn mitt, frá því eg var í móðurkviði.2Hann lét munn minn verða sem hvasst sverð; hann huldi mig með skugga sinnar handar; hann gjörði mig að fágaðri ör, og fól mig í örvamæli sínum.3Hann sagði til mín: þú ert minn þjón, og þú, Ísraelslýður, ert sú þjóð, á hvörri eg vil auðsýna mig vegsamlegan.4Eg svaraði: eg hefi þreytt mig til einskis, og eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust. Samt sem áður, minn dómur er hjá Drottni, og mín athöfn hjá Guði mínum.5Og nú segir Drottinn, sem skóp mig allt í frá fæðingu minni til að vera sinn þjón, til þess eg sneri Jakobsniðjum til hans, og svo Ísraelslýður gæti safnast að honum: því eg er mikils metinn hjá Drottni, og minn Guð er minn styrkur;6Hann segir: það er ekki nóg, að þú sért minn þjón til að endurreisa ættkvíslir Jakobs, og leiða heim aftur hinn frelsaða Ísraelslýð; eg set þig til að vera ljós heiðingja, og til að kunngjöra mitt hjálpræði til enda veraldar.
7Svo segir Drottinn, frelsari og heilagur Guð Ísraels lýðs, við þann, sem af mönnum er fyrirlitinn, við þann, sem þjóðin hefir andstyggð á, við þjón valdamannanna: konungar munu sjá (þig), og upp standa, landshöfðingjar (munu sjá þig), og falla fram, vegna Drottins, sem er trúfastur, og vegna hins heilaga Ísraels Guðs, sem útvaldi þig.8Svo segir Drottinn: á tíma líknarinnar bænheyrða eg þig, og á degi hjálpræðisins frelsaði eg þig; eg varðveiti þig, og set þig til að staðfesta sáttmála þjóðarinnar a), til að viðrétta landið, og úthluta hinum eyðilögðu arfahlutum,9til að segja hinum fjötruðu, „gangið út“, og þeim sem í myrkrunum eru, „látið sjá yður“. Þeir skulu halda fé sínu á beit hjá þjóðvegunum, hagbeitarland þeirra skal vera uppi á öllum hæðum.10Þá skal ekki hungra, og ekki þyrsta, hvörki hiti né sól skal angra þá, því þeirra miskunnari vísar þeim leið, og leiðir þá að vatnslindunum.11Öll mín fjöll gjöri eg greiðfær, og mínar brautir skulu hækka.12Sjá! nokkurir koma úr fjarlægum landsálfum, aðrir frá norðri og vestri, og enn aðrir frá Sínalandi.13Lofsyngið, þér himnar! gleð þig, þú jörð! hefjið fagnaðarsöng, þér fjöll! því Drottinn veitir huggun sínu fólki, og auðsýnir miskunn sínum þjáða lýð.
14Síonsborg mælti: Drottinn hefir yfirgefið mig; hinn alvaldi hefir gleymt mér.15Hvört fær móðirin gleymt brjóstbarni sínu, og verið miskunnarlaus við lífsafkvæmi sitt? Og þó hún gæti gleymt því, þá gleymi eg þér samt ekki.16Eg hefi rist þig á lófa mína; þínir múrveggir standa jafnan fyrir augum mér.17Synir þínir flýta sér (til þín), en þínir niðurbrjótendur og herjendur víkja í burt frá þér.18Hef upp augu þín, og lít í kring! þeir safnast allir saman, og koma til þín. Svo sannarlega sem eg lifi, segir Drottinn, skaltu íklæðast þeim öllum, eins og skarti, og binda þá á þig, eins og brúðarlín.19Því þó borgir þínar séu niðurrifnar og umturnaðar og land þitt í eyði lagt, þá mun þó nú verða of þröngbýlt fyrir þig, og eyðileggjendur þínir munu stökkva langt í burt frá þér.20Þú, sem nú ert barnlaus, munt á síðan heyra börn þín segja: „hér er of þrönglent fyrir mig, gef mér rúm, svo eg fái bústað“.21Þá muntú segja í þínu hjarta: hvör hefir alið mér þessi börn? Eg var þó barnlaus og einstæð, útlæg og burtrýmd. Hvör hefir uppfætt þessi börn? Sjá þú! eg var einmana eftir skilin; hvar voru þá þessi börn?22Svo segir Drottinn alvaldur: Sjá þú! eg mun banda hendi minni til heiðingjanna, og reisa upp merki mitt fyrir þjóðunum, og munu þeir þá færa hingað sonu þína í fangi sér, og bera dætur þínar á herðum sér.23Konungar skulu verða fóstrar barna þinna, og höfðingjafrúr fósturmæður þeirra. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér, og sleikja fótaduft þitt. Þannig skaltú viðurkenna, að eg em Drottinn, og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona.
24Verður nokkuð herfangið tekið af hinum sterka? og getur nokkuð bandinginn forðað sér undan kraftamanninum?25Vissulega, því svo segir Drottinn: Bandinginn skal tekinn verða af hinum sterka, og ránfengurinn sleppa úr höndum ofureflismannsins. Eg skal verja sök þína gegn sökunautum þínum, og frelsa sonu þína.26Eg skal láta þjánarmenn þína eta sitt eigið hold, og þeir skulu drukknir verða af sínu eigin blóði, eins og af vínberjalegi; svo að allir menn skulu viðurkenna, að eg Drottinn er þinn frelsari, og hinn máttugi Jakobs Guð þinn lausnari.

V. 8. a. Sjá 42,6. V. 24. Þetta eru orð Gyðinga, sem örvæntu um lausn sína úr herleiðingunni.