Harmasöngur yfir Týrusborg: um vegsemd borgarinnar, 1–25; og um hennar ófarir, 26–36.

1Drottinn talaði til mín svolátandi orðum:2Þú mannsins son, hef þú upp harmasöng um Týrusborg!3Seg til Týrusborgar, sem liggur á sjávarbakkanum og verslar við þjóðir úr mörgum fjarlægum löndum: Svo segir Drottinn alvaldur: þú segir, Týrusborg: eg em algjör að fegurð.4Takmörk þín eru mitt í hafinu, þínir uppbyggjendur hafa fullkomnað þína fegurð:5þeir hafa smíðað alla þína byrðingu af furutrjám frá Senír, og völdu sedrusvið á Líbanon og gjörðu þar af þín siglutré:6árar þínar gjörðu þeir úr eikitrjám frá Basansfjalli, en þóftur þínar gjörðu þeir úr bússviði frá Kitteyjum, og greyptu inn í þær fílsbein;7þú lést slá út hvítum viðullardúki glitofnum frá Egyptalandi, og hafðir hann fyrir skipsmerki: tjöld þín voru úr dökkblárri ull og purpura frá Eliseyjum.8Sídonsbúar og Arvadsmenn voru hásetar þínir, en listkænir menn, sem þú sjálf áttir, Týrusborg! þeir voru þínir skipstjórnarmenn;9gamlir menn og hagleiksmenn frá Gebal voru hjá þér til að gjöra að spjöllunum; öll hafskip og sjófarendur komu til þín til að kaupa varning þinn.10Persar, Lydar og Mórlendingar þjónuðu í her þínum, og voru þínir stríðsmenn, þeir festu upp búklara og hjálma hjá þér, og þeir gjörðu þig veglega;11Arvadsmenn og þínir eigin liðsmenn voru umhverfis á múrveggjum þínum, og Gammadar í turnum þínum, þeir höfðu fest upp skjöldu sína alla vega á þínum múrveggjum, og þessir menn fullkomnuðu fegurð þína.12Tarsisborg átti kaupskap við þig, af því þú áttir gnótt alls konar kaupeyris; hún flutti silfur, járn, tin og blý á þitt kauptorg.13Javan, Túbal og Mesek keyptu við þig, og fluttu mansmenn og eirsmíði til þinnar kaupstefnu;14frá Tógarma voru reiðskjótar, stríðshestar og múlasnar færðir á þitt kauptorg.15Dedansmenn keyptu við þig (því margir eyjamenn voru þínir kaupunautar), þeir gáfu þér fílstönn og ebentré fyrir vörur þínar.16Sýrlendingar keyptu við þig, sökum þess þú áttir gnótt alls konar vörusmíðis; þeir fluttu rúbín, purpura, glitofna dúka, lín, kórhalla og krystalla á þitt kauptorg.17Júdaland og Ísraelsland keyptu og við þig, og fluttu til þinnar kaupstefnu hveiti frá Minnít, sætabrauð, hunang, viðsmjör og balsamskvoðu.18Damaskusborg keypti við þig, sökum þess þú áttir gnótt alls konar vörusmíðis og kaupeyris; hún færði þér vín frá Kalybon og mjallhvíta ull.19Vedan og Javan fluttu tóvinnu á þína kaupstefnu; smíðað járn, angviði og ilmreyr kom á þitt kauptorg.20Dedan seldi þér söðuláklæði til að ríða á.21Arabar og allir Kedars höfðingjar voru þínir kaupunautar, og seldu þér feit lömb, hrúta og hafra.22Kaupmenn frá Saba og Raema keyptu við þig, og færðu alls konar bestu kryddjurtir, dýrlega gimsteina og gull til þinnar kaupstefnu.23Haran, Kanne, Eden, og kaupmenn frá Saba, Assúr og Kilmad voru þínir kaupunautar;24þessir seldu þér á kauptorgi þínu dýrindis klæði, dökkbláar og glitofnar yfirhafnir, og fullar kistur af alla vega litum vefnaði, bundnar með taugum og vel umvandaðar.25Skip Tarsisborgar efldu mest þína kaupverslun; þar af ertu orðin auðug og mjög voldug mitt á sjávarhafinu.
26Hásetar þínir hafa flutt þig út á sjávardjúpið, en austanvindurinn sundurbrýtur þig mitt á hafinu;27þín auðlegð, þinn kaupeyrir, þínar vörur, þínir sjómenn og stýrimenn, þeir sem gjörðu að spjöllum þínum, þínir verslunarmenn, allir þeir hermenn, sem þú átt, og allur sá mannfjöldi, sem þú hefir innan borgar, munu hrapa í sjóinn, þann dag er þú gengur til grunna.28Við hljóðið af ópi þinna skipstjórnarmanna munu borgar umvörpin skjálfa.29Allir hásetar, sem á árum halda, allir skipstjórnarmenn á hafinu, munu stíga af skipun sínum, leita til lands og standa þar;30þeir munu æpa hástöfum yfir þér, hljóða upp hörmulega, ausa moldu yfir höfuð sér, velta sér í ösku,31raka sig bersköllótta út af þér, taka upp sorgarbúning, og gráta yfir þér sorgbitnir, með hörmulegu kveini;32þeirra börn munu upphefja sorgarsöng, og harma yfir þér: hvör var jafnoki Týrusborgar, þeirrar er nú liggur þögul á mararbotni?33með þínum varningi, sem fluttur var yfir höfin, fæddir þú margar þjóðir: með gnótt þinnar auðlegðar og kaupeyris auðgaðir þú konunga jarðarinnar;34nú liggur þú brotin af bylgjum, niðursökkt í sjávardjúpið: þinn varningur og allur þinn mannfjöldi sökk ásamt með þér.35Allir innbyggjendur fjarlægra landa skelfast yfir þér, og þeirra konungum blöskrar svo þeir skipta litum.36Verslunarmenn þjóðanna blístra að þér; þér hefi voveiflega verið í burtu svipt, og þú verður ekki framar til að eilífu.