Óþakklæti Ísraelsmanna við Guð; siðaspilling og hjáguðadýrkun þjóðarinnar.

1Þetta er sú vitran, er Esajas Amosson fékk um Júdaríki og Jerúsalemsborg, á dögum Úsíass, Jótams, Akasar og Esekíass, Júdaríkis konunga.
2Heyrið, þér himnar! Hlusta til, þú jörð! því Drottinn talar. Eg hefi fóstrað börn og uppalið þau, en þau hafa sett sig upp á móti mér.3Uxinn þekkir eiganda sinn, og asninn jötu húsbónda síns; en Ísraelslýður þekkir ekkert, mitt fólk athugar ekkert.4Vei hinni syndugu þjóð! Vei þeim lýðnum, sem sekur er í þungum misgjörðum, því afsprenginu vondra manna, þeim börnum er haga illa framferði sínu! Þeir hafa yfirgefið Drottin, hafnað hinum heilaga Guði Ísraels, og snúið baki við honum.5Til hvörs er að hirta yður framar? þér brjótist æ því meir í móti mér. Allt höfuðið er sárt, allt hjartað krankt,6frá hvirfli og allt til ilja er ekkert heilt, ekkert nema mar, kúlur, nýjar benjar, sem blóðið er ekki úr kreist, og ekki um bundið, og ekki mýktar með viðsmjöri.7Yðvart land er í eyði, yðar borgir í eldi brenndar; útlendir menn uppeta yðar akurlönd að yður ásjáendum; allt er eyðilagt, eins og þar sem útlendingar hafa umturnað öllu.8Síonsborg er ein eftir, eins og vökuskáli í víngarði, eins og næturhreysi í melónugarði a), eins og sá staður, sem sloppið hefir úr hershöndum.9Ef Drottinn allsherjar hefði ekki látið litlar eftirleifar eftir verða af oss, þá værum vér orðnir sem Sódómsborg, þá værum vér líkir Gómorraborg.
10Heyrið orð Drottins, þér höfðingjar Sódómsborgar! Hlustið á lögmál vors Guðs, þér innbyggjendur Gómorraborgar!11Hvar til skulu mér yðar mörgu fórnir? segir Drottinn. Eg em leiður orðinn á brennifórnum hrútanna, og á feiti alifjársins; eg hefi enga lysting á blóði uxanna, lambanna og hafranna.12Þér komið til þess að birtast fyrir mínu augliti; en hvör hefir beðið yður að troða fótum forgarða mína?13Framberið ekki lengur fánýtar matfórnir! Eg hefi andstyggð á reykjarfórnum, tunglkomuhátíðum, hvíldardögum og helgisamkomum; eg fæ ekki þolað syndsamlega hátíðafundi.14Eg hata yðar tunglkomuhátíðir og helgisamkomur; þær eru mér til byrði, eg em þreyttur orðinn að bera þær.15Þó þér fórnið upp höndum, þá byrgi eg þó mín augu fyrir yður; þó þér biðjið mörgum bænum, þá heyri eg þær þó ekki. Yðar hendur eru fullar af blóði.16Þvoið yður, hreinsið yður, takið yðar illskubreytni í burt frá mínum augum, og látið af að gjöra illt!17Lærið gott að gjöra, leitið þess, sem rétt er; hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður, unnið réttra laga hinum munaðarlausa, og verjið málefni ekkjunnar.18Komið síðan, og eigumst lög við, segir Drottinn. Þó yðar syndir væru sem skarlat, þá skyldu þær verða hvítar sem snjór, og þó þær væru rauðar sem skarlatsormur, þá skyldu þær verða sem ull.19Ef þér hlýðið mér fúslega, þá skuluð þér njóta landsins gæða;20en ef þér þverskallist og verðið mótsnúnir, þá skuluð þér verða sverðbitnir; það er atkvæði Drottins.
21Hvörnig stendur á því, að hin trúfasta borgin skuli vera orðin að skækju? Fyrr meir var hún full réttinda, og réttlætið hafði þar bólfestu, en nú búa þar manndrápsmenn.22Silfur þitt er orðið að málmblendingi, og vín þitt að vatnsblandi.23Höfðingjar þínir eru mótsnúnir Guði, en samlaga sig þjófum; allir elska þeir mútu, og sækjast eftir fégjöfum; þeir unna ekki réttra laga hinum munaðarlausa, og málefni ekkjunnar fær ekki að koma fyrir þá.24Þar fyrir segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, hinn voldugi Ísraels Guð: vei! eg skal svala mér á mótstöðumönnum mínum, og hefna mín á óvinum mínum.25Eg skal leggja hönd á þig aftur, og bræða þann málmblending, sem við þig loðir, uns þú verður skír, og skilja frá allt blýið;26eg skal fá þér aftur slíka dómendur, sem í öndverðu, og aðra eins ráðgjafa og fyrrum. Eftir það skaltu kallast bústaður réttvísinnar, og borgin trúfasta.27Síonsborg skal með réttum dómi frelsuð verða, og þeir af innbyggjendum hennar, sem snúa sér (frá illu), skulu frelsast fyrir réttlætið;28en yfirtroðslumenn og afbrotamenn skulu tortýnast hvör með öðrum, og þeir, sem yfirgefa Drottin, skulu undir lok líða.29Þá munuð þér blygðast fyrir þau terpentíntrén, sem yður þótti svo vænt um, og skammast yðar fyrir þá lystigarðana, sem þér höfðuð útvalið yður.30Því þér munuð verða sem það terpentíntré, er fellt hefir laufblöð sín, og eins og vatnslaus aldingarður;31hinir voldugu skulu verða sem strý, og verk þeirra sem eldneisti: hvörttveggja mun uppbrenna hvað með öðru, án þess nokkur fái slökkt.

V. 8. a. Melóna er talin með eplajurtum. V. 29. Undir terptentíntrjám og í lystigörðum voru blót framin. V. 31. Hvörttveggja, þ. e. eins og neistinn kveikir í strýinu, eins mun athæfi hinna voldugu verða þeim til glötunar.