Vanmáttur skurðgoðanna. Drottinn ber sitt fólk á sínum armlegg, og frelsar það úr óvina höndum.

1Bel er hokinn, Nebó er boginn; líkneski þeirra eru fengin dýrum og skepnum; það sem þér (Babelsmenn) sjálfir báruð, er nú látið upp á þreyttan eyk, eins og önnur byrði.2Þeir eru bljúgir og bognir, báðir saman; þeir megna ekki að frelsa byrðina (þ. e. sjálfa sig), og sjálfir hljóta þeir að fara í útlegð.3Heyrið mér, þér kynsmenn Jakobs, og allir þér, sem eftir eruð vorðnir af Ísraels ættstofni, þér, sem eruð mér á herðar lagðir allt í frá móðurkviði, og sem eg hefi borið, frá því að þér fæddust!4Eg er yður einn og hinn sami allt til elliára, eg vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum; eg hefi búið mér byrðina, eg skal bera hana: bera skal eg hana og frelsa hana.5Við hvörn viljið þér þá jafna mér og samlíkja? Saman við hvörn viljið þér bera mig, þann er mér sé líkur?6Þeir steypa gullinu úr sjóðnum, og vega silfrið í skálum, leigja svo einhvörn gullsmið, og hann býr til úr því goð, en þeir knéfalla goðinu og tilbiðja það.7Þessu goði lyfta þeir á axlir sér, bera það, setja það á stalla, og þar stendur það, og víkur ekki úr þeim stað, sem það er sett; menn ákalla það, en það veitir engin andsvör, og frelsar engan úr vandræðum.8Hugsið eftir þessu, og blygðist! leggið það á hjarta, þér fráföllnu syndarar!9Hugsið eftir því, sem áður hefir gjörst á fyrri tíðum; því eg em Guð, en enginn annar: eg em Guð, og enginn er minn líki.10Eg kunngjöri hið ókomna frá öndverðu, og segi fyrir fram, það sem eigi er enn fram komið; eg segi: mín ráðstöfun stendur stöðug, og eg framkvæmi allt hvað mér vel líkar.11Eg kalla fugl fljúganda úr austurátt, og úr fjarlægu landi mann þann, er framkvæmir mína ráðstöfun; hvað eg tala, það læt eg einnig fram koma: hvað eg áset mér, það gjöri eg einnig.12Heyrið mér, þér harðsvíruðu, sem eruð frásnúnir réttlætinu!13Eg læt mitt réttlæti nálægja sig, það er ekki langt í burtu, og mitt hjálpræði skal ekki dvelja; því eg vil setja hjálpræðið á Síonsfjalli, og mína dýrð meðal Ísraelslýðs.

V. 1. Bel og Nebó voru goð Babelsmanna; Bel sama sem Baal, goð Sýrlendinga og Feníka; Nebó kemur hvörgi fyrir, nema á þessum stað í Esajas, en þar af ætla menn dregið nafnið Nebúkadnesar, (þ. e. Nebó, goða æðstur), Nabonassar, Nabopalassar. V. 11. Fugl fljúganda, þ. e. Sýrus konung.