Harmakvein yfir hinni teknu borg.

1Ó! hvörsu blakkt er gullið orðið! umbreytt gullið fagra! helgu (helgidóms) steinarnir liggja á sundrung á öllum strætamótum.2Síons ágætu börn, jafnvæg hreinsuðu gulli, því eru þau nú metin jöfn leirkerum, handaverkum leirsmiðsins?3Gullúlfarnir bjóða júgrið, og láta hvolpa sína sjúga, en dóttir þjóðar minnar er (verður að vera) ómiskunnsöm, eins og strútsfuglar í eyðimörku.4Tunga brjóstbarnsins loðir við góminn á því af þorsta, ungbörnin biðja um brauð, en enginn er sem gefi þeim það.5Þeir sem (áður) borðuðu kræsingar, vanmegnast (nú) á strætunum, þeir sem uppaldir voru í skarlatsfötum, faðma nú skarnið (liggja í skarninu).6Afbrot þjóðar minnar eru stærri en synd Sódómu, sem afmáð var, svo að segja á augnabliki, án þess (manna)hendur kæmu yfir hana.7Heitbræður (4 Mós. 6,2) hennar voru hreinni en snjór, hvítari en nýmjólk, rauðleitari á að sjá en kórhallar, og útlit þeirra eins og saffir.8Nú er útlit þeirra blakkara en sverta, þeir verða ekki þekktir á götunum, skinnið á þeim er skorpið að beinunum, það er þornað eins og tré.9Sælli voru þeir, sem myrtir voru með sverði, heldur en þeir, sem deyja úr hungri, því þeir vanmegnast, og verða hungurmorða, vegna ávaxtarleysis akranna.10Viðkvæmar konur sjóða börn sín með eigin höndum, þau eru (hljóta að vera) þeim til fæðslu í neyð þjóðar minnar.
11Drottinn hefir fullkomnað bræði sína, úthellt sinni brennandi reiði, tendrað eld í Síon, sem eyðir undirstöðu hennar.12Ekki hefðu konungar jarðarinnar, né allir (allrar) veraldarinnar innbúar trúað því, að nokkur mótstöðumaður og óvinur mundi komast inn um Jerúsalems borgarhlið.13(Svo fór þó) sökum synda spámanna hennar, og illgjörða presta hennar, sem úthelltu blóði réttlátra manna mitt í henni.14Þeir ráfuðu, eins og blindir á götunum, ataðir blóði, því þeir gátu ekki varist að snerta klæði þeirra a) (þ. e. þeirra sem þeir höfðu myrt).15„Víkið úr vegi! (hann er) óhreinn“—hrópa menn um þá – „víkið úr vegi! víkið úr vegi! snertið (þá) ekki!“ því þeir eru á flótta hvar sem þeir ráfa b); á meðal heiðingjanna segja menn: „þeir skulu ekki vera hérna lengi“.16Auglit Drottins hefir tvístrað þeim, hann lítur ekki framar við þeim; engir a) skeyta um prestana, né miskunna sig yfir öldungana.
17Á meðan vér vórum enn nú við líði, horfðum vér augu vor þreytt eftir hjálp handa oss, sem þó brást; vér stóðum sífelldlega á vakt, og mændum eftir þeirri þjóð (egypskum) sem ekki gat bjargað.18Þeir (óvinirnir) rekja slóðir vorar svo vér þorum ekki að ganga um vorar eigin götur, endalykt vor nálgast, dagar vorir eru á förum, því endalykt vor er komin.19Ofsóknarmenn vorir eru léttari á sér en ernirnir í loftinu, þeir elta oss í ákafa upp á fjöll, sitja um oss í eyðimörkinni.20Andi nasa vorra, (bjargvættur vor) Drottins smurði (kóngurinn) varð fanginn í gryfjum þeirra, hann sem vér sögðum um: undir hans skugga skulum vér lifa meðal þjóðanna.
21Þó þú fagnir og gleðjist (hlakkir) Edomsdóttir, sem býr í landinu Us, þá mun bikarinn einnin koma til þín, þú munt verða drukkin og nakin.22Þinni sekt er lokið, Síonsdóttir, hann (Drottinn) mun ekki oftar láta herleiða þig; en hann mun vitja afbrota þinna, Edomsdóttir! og draga skýluna af syndum þínum.

V. 14. a. „Því þeir gátu ekki varast að snerta klæði þeirra“, aðrir: svo menn máttu ekki snerta klæði þeirra, nefnil. spámannanna og prestanna. V. 15. b. Aðr: „þá þeir eru flúnir, ráfa þeir líka til og frá.“ V. 16. a. „Engir skeyta um prestana,“ á hebr. Þeir skeyta ekki o. s. fr.