Job er lýst.

1Maður nokkur var í landinu Us a). Hann hét Job, hann var maður ráðvandur og hreinskilinn, óttaðist Guð og forðaðist illt.2Hann átti sjö sonu og þrjár dætur,3og hans fénaður var sjö þúsund sauða, þrjú þúsund úlfalda, og fimm hundruð pör nauta, og fimm hundruð ösnur, og mjög mörg hjú. Sá sami maður var hinn ríkasti á meðal allra austursins sona.4En synir hans voru vanir því að hafa heimboð hvör í sínu húsi, á sínum afmælisdegi, þeir buðu þá sínum þremur systrum að eta og drekka með sér.5En þá þessir veisludagar voru liðnir, var það siður Jobs, að hann sendi, og helgaði þau, þ. e. börnin, fór snemma á fætur, og offraði eins mörgum brennifórnum og börnin voru mörg; því Job hugsaði: ske má að börn mín hafi syndgað og gleymt Guði. Þetta gjörði Job ávallt.6En það bar til einn dag, þá Guðs börn gengu fram fyrir Drottin, að (mótpartur) Satan kom og með þeim.7Og Drottinn innti til við Satan og spurði: hvaðan komstu? en Satan svaraði og sagði: eg hefi farið og litið eftir öllu á jörðunni.8Þá sagði Drottinn við Satan: tókstu eftir mínum þénara Job. Þar er enginn sem hann á jörðunni, ráðvandur og hreinskilinn, sem óttast Guð og forðast hið illa.9Satan ansaði Drottni og sagði: ætla Job óttist Guð fyrir ekkert?10Hefir þú ekki varðveitt hann og hans hús á allar hliðar, og allt hvað hann á? Hans handaverk hefir þú blessað og hans fénaður fyllir landið.11En réttu nú út þína hönd, og kom við allt sem hann á; hvað um gildir; hann mun opinberlega segja skilið við þig.12Og Drottinn sagði til Satans: sjá! allt hvað hann á, það sé þér í hendi, legg þú aðeins ekki hönd á hann! þar eftir gekk Satan út frá Drottins augsýn.13Og það skeði þann dag, sem synir og dætur Jobs átu og drukku vín í húsi síns frumgetna bróðurs,14að fregn kom til Jobs sem sagði: nautin drógu plóg, og ösnurnar voru á beit í haganum þar hjá,15þá gjörðu þeir Sabear árás, og rændu þeim, og þeir drápu sveinana með beittum sverðum, en eg komst einn undan til að færa þér þessar fréttir.16Meðan þessi enn nú var að tala, kom annar og sagði: Guðs eldur (elding) kom niður af himni og kveikti í fénu og sveinunum og fortærði þeim, en eg komst einn undan til að segja þér þetta.17Þessi var ei hættur að segja frá, þegar einn kom enn og sagði: Kaldeumenn komu í þremur flokkum, yfirféllu úlfaldana og rændu þeim, og drápu sveinana með beittum sverðum. Eg einn slapp til að kunngjöra þér þetta.18Meðan þessi enn nú talaði, kom enn einn og sagði: þínir synir og dætur átu og drukku vín í húsi síns frumgetna bróðurs.19Og sjá! þar kom mikill stormur frá eyðimörkinni, og lenti á hússins fjórum hornum, svo það datt ofan á þín börn og þau dóu, eg aleinn komst burt til að segja þér þetta.20Þá stóð Job upp og sundurreif sín klæði, og klippti af sér hárið, fleygði sér niður á jörðina og bað og sagði:21nakinn kom eg af móðurlífi, nakinn mun eg aftur héðan fara. Drottinn gaf, Drottinn tók, lofað veri Drottins nafn!22Í öllu þessu syndgaði Job ekki, og ekki átaldi hann Guð fávíslega.

V. 1. a. 1 Msb. 22,21.