Hegning Nebúkadnesars fyrir dramblæti sitt.

1Nebúkadnesar konungur heilsar öllum mönnum, sem á jörðunni búa, hvörrar þjóðar, hvaða lands og hvörrar tungu sem eru: yðar friður sé mikill!2Eg hefi látið mér vel líka, að kunngjöra þau tákn og furðuverk, sem hinn hæsti Guð hefir gjört við mig;3hvörsu stór eru hans tákn, hvörsu máttug hans dásemdarverk! hans ríki er eilíft ríki, og hans máttarveldi varir frá einni kynslóð til annarrar.4Eg Nebúkadnesar lifði í ró í húsi mínu, og átti góða daga í höll minni;5þá dreymdi mig draum nokkurn, sem gjörði mig óttaskelfdan; þær hugsanir, sem eg hafði í rekkju minni, og þær sjónir, sem fyrir mig báru, þær sturluðu mig.6Eg lét þá boðskap út ganga, að allir vísindamenn í Babel skyldu koma á minn fund, til þess að segja mér þýðingu draumsins.7Eftir það komu kunnáttumennirnir, stjörnuvitringarnir, Kaldeaspekingar og spásagnarmennirnir á fund minn, og sagða eg þeim drauminn, en þeir gátu ekki sagt mér þýðing hans.8Loksins kom Daníel til mín, sem kallaður er Beltsasar eftir nafni míns guðs, í hvörjum að býr andi enna heilögu guða. Eg sagði honum drauminn:9Beltsasar, þú æðsti forstjóri kunnáttumannanna! eg veit, að í þér býr andi enna heilögu guða, og að enginn leyndardómur er þér ofvaxinn. Seg mér, hvað sú sýn á að þýða, sem í draumi hefir fyrir mig borið.10Sú sýn, sem fyrir mig bar í rekkju minni, var þessi: eg sá, og sjá! tré nokkurt stóð á miðri jörðinni, geysihátt;11tréð var mikið og digurt, og svo hátt, að upp tók til himna, og mátti sjá það allavega frá ystu endimörkum jarðarinnar;12þess limar voru fagrar, og ávöxturinn mikill, svo að allt fékk fæðslu þar af: skógardýrin lágu undir þess skuggum, fuglar himinsins sátu á þess kvistum, og allar skepnur nærðust af því.13Ennfremur sá eg sjónir, sem fyrir mig báru í rekkju minni: sjá! vörður a) nokkur eða einhvör enna heilögu sté niður af himnum,14hann kallaði hárri röddu og mælti svo: höggvið upp tréð, afsníðið limarnar, slítið af því laufblöðin, og dreifið ávöxtunum víðs vegar, svo að dýrin flýi burt undan því, og fuglarnir fljúgi af þess kvistum.15Samt skuluð þér láta stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni; járnviðjum og eirfjötrum bundinn skal hann í grashögum ganga, hann skal vökna af loftsdögginni og ásamt með dýrunum skal hann hlutdeild taka í grösum jarðarinnar.16Hans hjarta skal umbreytast, svo að í honum skal ekki mannshjarta vera, heldur skal honum dýrshjarta fengið verða, uns sjö tíðir eru yfir hann liðnar.17Þetta er ályktun varðhaldaranna b), þetta er boðskapur enna heilögu, svo hinir lifendu skuli viðurkenna, að hinn hæsti hefir vald yfir ríkjum mannanna, og gefur þau hvörjum sem hann vill, og setur þá lítilmótlegustu meðal mannanna yfir þau.18Þessi er sá draumur, sem mig, Nebúkadnesar konung, hefir dreymt; en þú, Beltsasar, seg þýðing hans, fyrst enginn vísindamaður í mínu ríki getur sagt mér, hvað hann hafi að þýða, en þú getur það, því í þér býr andi enna heilögu guða.19Þá varð Daníel, sem nefndur var Beltsasar, frá sér numinn um stund, og hans hugsanir sturluðu hann. En konungurinn tók til orða og sagði: Beltsasar! lát eigi drauminn né hans útþýðing sturla þig. Beltsasar svaraði og sagði: eg vildi óska, herra, að draumurinn rættist á óvinum þínum, og þýðing hans á þínum mótstöðumönnum!20Það tré, sem þú sást, og sem bæði var mikið og gilt, og svo hátt, að upp tók allt til himins, og gat séð orðið um alla veröldina,21limar þess fagrar, ávöxturinn svo mikill, að allt fékk fæðslu þar af, skógardýrin lágu undir því, og fuglar himins sátu á kvistum þess:22þetta tré ert þú, konungur, sem ert svo mikill og máttugur, og veldi þitt svo stórt, að það nær til himins, og þín yfirdrottnun allt út til heimsenda.23En þar er konungurinn sá vörð nokkurn eða einhvörn enna heilögu niður stíga af himni, og segja: „höggvið upp tréð og eyðileggið það, en látið þó stofninn með rótum sínum kyrran eftir vera í jörðinni; járnviðjum og eirfjötrum bundinn skal hann í grashögum ganga, hann skal vökna af loftsdögginni, og ásamt með dýrunum hlutdeild hafa í grösum jarðarinnar, uns sjö tíðir eru yfir hann liðnar“;24þá hefir það þetta að þýða, konungur, og þessi er ráðstöfun hins hæsta, sem koma mun fram á mínum herra konunginum:25þú munt útrekinn verða úr mannafélagi, og búa meðal skógardýra; þú munt gras eta sem uxar, og vökna af himindögginni; þannig skulu sjö tíðir yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að sá hinn hæsti hefir vald yfir ríkjum mannanna, og veitir þau hvörjum sem hann vill.26En þar er sagt var, að stofn trésins með rótum sínum skyldi eftir verða, það merkir, að þú skalt halda ríki þínu, þegar þú kannast við, að allt valdið er á himnum.27Lát þér því, konungur, þóknast ráð mitt, frelsa syndir þínar með ölmusugjöfum, og þínar miklar misgjörðir með því að kenna í brjósti um aumingjana; má vera, að hamingjulán þitt verði við það langgæðara.28Allt þetta kom fram við Nebúkadnesar konung.29Þegar konungur að liðnum 12 mánuðum var á gangi í konungshöllinni í Babel,30tók hann til orða og mælti: „er þetta ekki sú hin mikla Babelsborg, sem eg hefi byggja látið með mínum veldisstyrk til konungsaðseturs og minni tign til frægðar“.31Meðan konungurinn hafði þessi orð á vörum sér, kom raust af himni ofan: þér gjörist hér með vitanlegt, Nebúkadnesar konungur, að konungdómurinn er vikinn í burtu frá þér;32þú skalt útrekinn verða úr mannafélagi, og eiga byggð með skógardýrum, þú skalt gras eta sem uxar, og þannig skulu sjö tíðir yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að hinn hæsti hefir vald yfir ríkjum mannanna, og veitir þau hvörjum sem hann vill.33Þessi ummæli rættust samstundis á Nebúkadnesar: hann varð útskúfaður frá mönnum, át gras sem uxar, hans líkami vöknaði af himindögginni, og um síðir vóx hár hans sem arnarfjaðrir, og neglur hans sem fuglaklær.34En að liðnum þessum tíma hóf eg, Nebúkadnesar, augu mín upp til himins, og fékk eg þá vit mitt aftur: eg vegsamaði hinn hæsta, lofaði og heiðraði þann, sem lifir eilíflega; því hans veldi er eilíft veldi, og hans ríki varir frá einni kynslóð til annarrar.35Allir þeir, sem á jörðunni búa, eru einskis virði; hann breytir himnanna her og við innbyggjendur jarðarinnar eins og hann sjálfur vill; enginn er sá, sem megni honum tálmun að gjöra, eða við hann fái sagt: hvað gjörir þú?36Á þeim sama tíma, sem eg fékk vit mitt aftur, komst eg og aftur til minnar konunglegu tignar, frægðar og vegsemdar; mínir ráðgjafar og vildarmenn leituðu mín, eg var aftur skipaður yfir ríkið, og varð enn ágætari en áður.37Þess vegna lofa eg, Nebúkadnesar, upphef og vegsama himnanna konung; því allar hans gjörðir eru sannleikur, hans vegir eru réttir, og þá, sem framganga í dramblæti, kann hann að lítillæta.

V. 13. a. Þ. e. engill, englanna. V. 17. b. Sbr. v. 13.