Jesús hrósar gjöf ekkjunnar er lagði í féhirslu Guðs; talar um musterisins og Jerúsalems eyðileggingu, og enda heimsins; kennir daglega í musterinu.

1Þá leit hann upp, og sá þá enu ríku, er lögðu gjafir sínar í féhirslu musterisins;2varð honum þá litið til einnar ekkju fátækrar, er lagði þar inn tvo smápeninga.3Þá sagði hann: trúið mér! þessi fátæka ekkja hefir meira lagt en nokkur annarra;4því hinir allir hafa lagt í féhirslu Guðs af því, sem þeir höfðu afgangs, en þessi gaf af fátækt sinni aleigu sína.
5Þá nokkrir töluðu um að musterið væri prýtt með fögrum steinum og heitgjöfum, ansaði hann:6þeir dagar munu koma, að af þessu, sem þér nú sjáið, mun ekki steinn yfir steini standa, sem eigi verði niðurrifinn.7Nær verður það? Meistari! spurðu þeir, og hvað skal til marks hafa um það, hvönær slíkt eigi að ske?8Hann svaraði: gjaldið varhuga við, að þér verðið ekki flekaðir, því margir munu koma í mínu nafni og segja sig Krist að vera, og nú sé tíminn kominn, en fyllið ekki flokk þeirra.9Nær þér heyrið um stríð og upphlaup, þá skelfist ekki, því þetta mun á undan fara, en endirinn er samt ekki strax kominn.10Framvegis sagði hann við þá: ein þjóð mun rísa upp gegn annarri og eitt ríki gegn öðru,11þá munu á ýmsum stöðum verða landskjálftar, hallæri og drepsóttir; þá munu sjást ógurlegir fyrirburðir og undur mikil á himnum,12en áður en allt þetta kemur fram, munu þeir leggja höndur á yður, ofsækja yður, framselja yður í samkunduhús og fangelsi, og draga yður mín vegna fyrir konunga og Landstjóra.13Og þetta mun koma fram við yður til vitnisburðar a).14Látið yður því fast í huga vera, að þér ekki fyrirfram búið yður undir málavörn yðar;15því eg mun gefa yður málsnilli og visku, hvörri allir mótstöðumenn yðar ekki munu megna að mótmæla eður móti að standa.16Þér munuð jafnvel framseldir verða af foreldrum, systkinum, frændum og vinum, og nokkra af yður munu þeir lífláta,17og allir munu yður mín vegna að hatri hafa;18en ekkert hár af yðar höfði skal þó farast.19Látið stöðuglyndi vera vörn sálum yðar.20En nær þér sjáið Jerúsalem umkringda af herflokkum, þá vitið að eyðilegging hennar er í nánd;21sá, sem þá er í Júdeulandi, flýi hann til fjalla, og hvör, sem í borginni er, flytji hann þaðan; en þeir, sem á landsbyggðinni eru, fari þeir ekki inn í borgina,22því að þessir eru hennar ströffunardagar, og mun þá framkoma allt það hér um er ritað.23Þung munu þá verða kjör óléttra kvenna, og þeirra, sem börn hafa á brjósti, því mikil harmkvæli munu þá verða í landinu, og hegning yfir þessum lýð;24menn munu falla fyrir sverðseggjum, og herleiddir verða meðal allra þjóða, og Jerúsalem mun fóttroðin verða af heiðnum mönnum, til þess þeirra tíð er á enda.25Fyrirburðir munu sjást á sólu, tungli og stjörnum, og á jörðu angist meðal þjóðanna, og ráðleysa og örvinglan manna á milli.26Sjór og haf munu þá þjóta, menn munu þá deyja af angistarfullri eftirvæntingu þess, er yfir allan heiminn mun koma, því kraftar himnanna munu hrærast,27og þá munu menn sjá Mannsins Son komanda á skýjunum með makt og mikilli dýrð.28Þegar þetta tekur til að ske, þá lítið upp og upphefjið yðar höfuð, því að lausn yðar er í nánd.29Hér við bætti hann þessu dæmi: gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám,30þegar aldini þeirra taka út að springa, þá sjáið þér á þeim, að sumarið er í nánd.31Sömuleiðis og þér, nær þér sjáið þetta framkoma, þá vitið að Guðs ríki er í nánd.32Eg segi yður fyrir satt, að þessi kynslóð mun ekki undir lok liðin, áður en allt þetta framkemur.33Himinn og jörð munu farast, en mín orð aldrei.34En gætið yðar, að hjörtu yðar ekki ofþyngist við óhóf í mat eður drykk eður búksorg, að ekki komi þessi dagur á yður óvart,35því eins mun hann koma og tálsnara yfir alla þá, sem á jörðu búa.36Verið því ávallt vakandi og stöðugt á bænum, svo þér verðið álitnir þess verðugir, að umflýja allt þetta, sem fram mun koma, og mæta frammi fyrir Mannsins Syni.
37Um daga kenndi hann í musterinu, en um nætur var hann utanborgar á því svo kallaða Viðsmjörsviðarfjalli;38En fólkið flykktist hvörn morgun í musterið að heyra hann.

V. 1–4. Mark. 12,41–44. V. 5–36. Mark. 13,1–37. Matt. 24,1–12. V. 13. a. Til vitnisburðar, þ. e. til þess yður gefist tækifæri til að vitna um mig. V. 22. sjá Mark. 24,15.