Sama efni. Stríð við sýrlenska.

1Og spámannanna synir sögðu við Elísa: sjá! sá staður sem vér búum á hjá þér, er oss of þröngur.2Látum oss fara til Jórdan og sækja þangað sinn bjálkann hvör, og byggja oss hér stað til að búa í. Og hann svaraði: farið!3Og einn af þeim mælti: lát þér og þóknast að ganga með þínum þjónum! og hann sagði: eg skal ganga með.4Svo gekk hann með þeim, og þeir komu til Jórdan og hjuggu trén.5Og það vildi til, þegar einn af þeim var að fella (bjálka) tré, hraut öxin út í ána, og hann hljóðaði upp yfir sig og mælti: æ minn herra! og hún var léð!6Þá mælti guðsmaðurinn: hvar datt hún? Og sem hann vísaði honum á staðinn, sneið hann af tré og kastaði þangað og lét járnið fljóta.7Og hann mælti: taktu hana nú! og hann útrétti sína hönd og tók hana.
8En Sýrlandskonungur fór leiðangur móti Ísrael, og ráðfærði sig við sína menn og mælti: þar og þar mun eg setja mínar herbúðir.9Þá sendi guðsmaðurinn til Ísraelskóngs og mælti: gættu þín, að þú ekki afrækir þessa staði, því þangað ætla sýrlenskir að halda.10Og Ísraelskonungur sendi á þenna stað, sem guðsmaðurinn hafði við hann nefnt, og gefið aðvörun um, að hann gætti sín þar. Og þetta skeði ekki einu sinni eða tvisvar sinnum.11Út af þessu varð Sýrlandskóngur angurvær og kallaði sína menn og mælti við þá: getið þér ekki sagt mér hvör af vorum mönnum muni (halda) með Ísraelskonungi.12Þá sagði einn af hans mönnum: því er ekki svo varið, minn herra konungur! heldur kunngjörir spámaðurinn Elísa Ísraelskonungi þau orð sem þú talar í þínu svefnherbergi.13Og hann mælti: farið nú og vitið hvar hann er, að eg geti sent og látið sækja hann. Og menn færðu honum þá fregn og sögðu: hann er í Dotan.
14Þá sendi hann hesta og vagna og mikinn her, og þeir komu um nótt og umkringdu staðinn.15Og snemma um morguninn, þegar þjón guðsmannsins var kominn á fætur og gekk út, sjá! þá umkringdi her, staðinn, og hestar og vagnar. Og sveinninn sagði við hann: æ! minn herra! hvörnig förum við nú að?16Hann svaraði: vertu óhræddur! því fleiri eru með okkur enn með þeim.17Og Elísa bað og mælti: Drottinn opna hans augu að hann sjái! þá opnaði Drottinn augu sveinsins, og hann litaðist um, og sjá! fjallið var alþakið af eldlegum hestum a) og vögnum b) allt í kringum Elísa.
18Og þeir komu niður til hans og Elísa bað til Drottins og mælti: slá þetta fólk með blindni! þá sló hann það með blindni, eftir Elísa orði.19Og Elísa sagði við þá: ekki er þetta vegurinn, og ekki er þetta staðurinn; komið með mér, eg skal fylgja yður til mannsins, sem þér leitið að. Og hann fór með þá til Samaríu.20En sem þeir komu til Samaríu, mælti Elísa: opna nú þessara augu, að þeir sjái! þá opnaði Drottinn þeirra augu, og þeir sáu, og sjá! þeir voru mitt í Samaríu.21Og Ísraelskóngur sagði við Elísa, þegar hann sá þá: skal eg vinna á þeim, skal eg, minn faðir?22Og hann svaraði: ekki skalt þú vinna á þeim. Þú vinnur á þeim sem þú hertekur með þínum boga og sverði. Set þú fyrir þá brauð og vatn, að þeir eti og drekki c), og fari svo til síns herra.23Þá bjó hann þeim mikla máltíð, og þeir átu og drukku, og hann lét þá frá sér, og þeir fóru til síns herra. Og ránsflokkar sýrlenskra komu ekki eftir það í Ísraelsland.
24Þar eftir skeði það, að Ben-Hadad Sýrlandskonungur safnaði öllum sínum her, fór leiðangur, og settist um Samaríu.25Og þar varð mikið hungur í Samaríu, og sjá! þeir umsátu hana, þangað til asnahöfuð kostaði 80 sikla silfurs, og fjórði partur af kad með dúfnadrit, 5 sikla.26En svo bar til, að þegar Ísraelskóngur gekk upp á borgarvegginn, hrópaði kona nokkur til hans og mælti: hjálpa þú, minn herra konungur!27Og hann mælti: hjálpi Drottinn þér ekki, hvörnig get eg hjálpað þér? úr hlöðunni eða vínkjallaranum?28Og kóngurinn mælti til hennar: hvað gengur að þér? og hún sagði: konan þarna sagði við mig: legg þú fram son þinn, að við etum hann í dag, og minn son skulum við eta á morgun.29Þá suðum við minn son og átum hann d); og eg sagði við hana daginn eftir: legðu nú til þinn son að við etum hann, þá hafði hún falið son sinn.30En sem kóngur heyrði þetta tal konunnar, reif hann sín klæði (enn hann var á gangi upp á borgarveggnum) og fólkið leit til, og sjá! hann hafði sekk um sinn líkama undir klæðum d).31Og hann mælti: Guð gjöri mér svo og ennfremur e) ef höfuðið skal vera í (allan) dag á Elísa, syni Safats!
32En Elísa sat í sínu húsi og öldungarnir sátu hjá honum. Þá sendi kóngurinn mann frá sér; en áður en þessi sendimaður kom til hans, mælti hann við öldungana: vitið þér að þessi morðingjason sendir hingað til að höggva af mér höfuðið? sjáið nú til; þegar sendimaðurinn kemur, þá læsið dyrum, og ýtið honum út með hurðinni. Heyrið þér ekki fótaburð hans herra, á eftir honum?33Enn var hann við þá að tala, og sjá! þá kom þar sendimaðurinn og mælti: sjá! þessi ólukka kemur frá Drottni. Hvað skal eg lengur bíða Drottins?

V. 17. a. 2,11. b. Sálm. 68,18. V. 22. c. Orðskv. 25,21. V. 29. d. Lev. 26,29. Devt. 28,53. Jer. 19,9. Jer. H. gr. 4. 10. V. 30. e. 1 Kron. 21,27. V. 31. f. 1 Kóng. 19,2. 20,10. V. 33. Þetta er orðsending kóngsins.