Hóseas ávítar Ísraelsmenn um guðleysi og illlifnað, og boðar þeim hegningu Guðs. Hann varar Júdamenn við að fylgja þeirra vondu dæmum.

1Heyrið orð Drottins, þér Ísraelsmenn! Drottinn hefir sök á hendur (mál að kæra við) innbyggjendum landsins, því í landinu finnst engi ráðvendni, engi mannelska, engi þekking á Guði.2Þeir vinna meinsæri, víg, þjófnað og hórdóm; þeir fara fram með ofríki, og ein vígsökin tekur við af annarri.3Fyrir þá sök drúpir landið, allir þess innbyggjendur eru daprir, jafnt skógardýrin, sem fuglar himinsins, og jafnvel fiskar sjávarins strjúka burt.4Til einskis er að ávíta þá eða vanda um við þá, því innbúar þínir (Ísraelsland!) eru eins þvermóðskufullir og kennimennirnir eru.5Þú munt hrasa á björtum degi, og spámaðurinn, sem þér fylgir, mun einnig hrasa á nóttunni, því höfuðborg þína mun eg í eyði leggja.6Mitt fólk glatast af þekkingarleysi; af því þú (kennimaður!) fyrirlítur þekkinguna, þá vil eg fyrirlíta þig, svo þú skalt eigi minn kennimaður vera; og eins og þú (Gyðingalýður!) gleymir lögmáli þíns Guðs, eins vil eg og gleyma þínum börnum.7Þeir syndga móti mér, eins og þeir eru margir til; þess vegna vil eg gjöra þeirra vegsemd að smán.8Þeir (kennimennirnir) lifa af syndafórnum míns fólks, og þá langar eftir þess misgjörningum.9Þess vegna skal fara fyrir kennimönnunum, eins og fyrir fólkinu; eg skal hegna þeim fyrir þeirra athæfi og gjalda þeim fyrir þeirra verk.10Þeir skulu eta, en þó ekki saddir verða, fremja saurlifnað, en þó ekki fjölga, sökum þess að þeir eru hættir að dýrka Drottin.11Saurlifnaður, vín og þrúgnalögur tekur vitið frá manni.12Mitt fólk gengur til frétta við trédrumbinn, og stafsprotinn veitir því andsvör; því saurlífisandinn leiðir það afvega, og með sínum illlifnaði villist það frá Guði sínum.13Þeir fórnfæra efst á fjallatindunum, brenna reykelsi á hæðunum, undir eikitrjám, storaxtrjám og terpentíntrjám, af því skuggi þeirra er ununarfullur. Þess vegna fremja dætur yðar saurlífi, og mágkonur yðar hórdóm.14Það gagnar ekki, þó eg hegni dætrum yðar, þá þær fremja saurlífi, eða mágkonum yðar, þá þær drýgja hórdóm: því þeir ganga sjálfir afsíðis með hórkonum, og færa fórnir með hinum ósvífnustu skækjum; og hin gálausa alþýða anar þar eftir.
15Þó þér, Ísraelsmenn, viljið drýgja hórdóm, þá láti þó Júdaríkismenn sér hið sama eigi á verða; farið ekki til Gilgals, og gangið ekki upp til Betavens, og sverjið ekki: svo sannarlega sem Drottinn lifir (Amos 8,14).16Því Ísraelslýður er óviðráðanlegur, eins og baldstýrug kvíga; nú vill Drottinn halda þeim á beit, eins og lömbum, á nógu rúmlendi.17Efraim er skurðgoðum háður; látið hann eiga sig sjálfan!18Þegar vín þeirra er uppgengið, fremja þeir saurlifnað, og höfðingjum landsins þykir mjög vænt um þetta svívirðilega athæfi.19En þegar stormurinn hefir handsamað þá með vængjum sínum, munu þeir skammast sín fyrir sínar fórnfæringar.

V. 15. Gilgal, Jós. 4, 19; gullkálfurinn stóð í Betel (1 Kóng. 12, 29), sem spámaðurinn kallar hér Bet-Aven (Syndahús). V. 19. Stormurinn með sínum vængjum, þ. e. Assýríukonungur.