Ísraelsbörn mega ei ætla að þau hafi verðskuldað Guðs miklu velgjörninga.

1Heyr þú Ísrael! í dag muntu fara yfir um Jórdan til að hrekja burtu þjóðir sem eru stærri og voldugri en þú, stórar borgir múraðar upp í háloft,2til mikillar og voldugrar þjóðar, Enakimsniðja, um hvörja þér þekkið og heyrt hafið þetta máltæki; „hvör getur staðið móti Enakimsniðjum?“3Þú munt því reyna á þessum degi að Drottinn þinn Guð, mun ganga á undan þér, sem brennandi eldur, hann mun eyða þeim og undiroka fyrir þér, hann mun reka þá í burtu, og fyrirkoma þeim snarlega, eins og Drottinn hefir lofað þér.
4En þegar Drottinn hefir útrekið þessar þjóðir fyrir þig, þá hugsaðu ekki með sjálfum þér: sökum vors réttlætis hefir Drottinn leitt oss til eignar á þessu landi, og hann hefir útrekið þessar þjóðir frá sér vegna þeirra guðleysis.
5Því hvörki vegna réttlætis þíns, eður ráðvendni hjarta þíns gengur þú að eignast landið, því að Drottinn þinn Guð útrekur þessar þjóðir fyrir þig vegna þeirra eigin guðleysis, og til þess hann haldi þau loforð sem hann gaf forfeðrum þínum Abraham, Ísaak og Jakob.6Þú skalt þá vita að Drottinn þinn Guð gefur þér ekki til eignar land þetta ið góða sökum nokkura verðleika þinna, þú ert miklu fremur harðsvíruð þjóð.
7Mundu til þess, og gleym því aldrei, hvörnin þú reittir Drottin þinn Guð til reiði í eyðimörkinni; frá því þú fyrst lagðir af stað úr Egyptalandi, og þar til þér komust hingað, hafið þér verið Drottni óhlýðnir.8Hjá Hóreb reittuð þér Drottin svo til reiði, að hann í reiði sinni ætlaði að eyðileggja yður.
9Þegar eg var kominn upp á fjallið til að taka á móti steintöflunum, töflunum sem sáttmálinn var á, er Drottinn hafði gjört við yður, og eg hélt þar til á fjallinu í 40 daga og 40 nætur, án þess að smakka þurrt eður vott (neyta matar eða drykkjar),10og Drottinn fékk mér 2 steintöflur, skrifaðar með Guðs fingri, hvar á voru öll þau orð sem Drottinn hafði talað við yður á fjallinu, mitt úr eldsloganum, daginn sem þér voruð þar samankomnir,11þá þessir 40 dagar og 40 nætur voru liðnar, fékk Drottinn mér þær 2 steintöflur sáttmálans,12og sagði við mig: stattu upp og farðu héðan fljótt, því að fólk þitt sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefur misbrotið og vikið fljótt af þeim vegi sem eg lagði fyrir þá, þeir hafa tilbúið handa sér steypt líkneski;13og Drottinn sagði við mig þessi orð: eg sé að þetta fólk er harðsvírað,14lofaðu mér að afmá það og uppræta þess nafn undir himninum, en eg vil gjöra út af þér voldugri og fjölmennari þjóð en þessi er.15Eg brá við og gekk ofan af fjallinu sem logaði í eldi, og hafði í báðum höndum þær 2 sáttmálstöflur,16þá sá eg að þér höfðuð syndgað móti Drottni Guði yðar með því að tilbúa yður steyptan kálf, og voruð þannig fljótt viknir af þeim vegi sem Drottinn hafði lagt fyrir yður;17þá greip eg bæði spjöldin, og þeytti þeim af báðum höndum, og braut þau í sundur fyrir augunum á yður;18en eg féll fram fyrir Drottin eins og áður í fyrra sinni, í 40 daga og 40 nætur, og smakkaði hvörki þurrt né vott, sökum allra yðar synda sem þér höfðuð drýgt, er þér breyttuð svo illa í hans augum að hann reiddist yður.19Því að eg var hræddur við þá reiði og heiftarbræði, sem Drottinn hafði til yðar, svo hann ætlaði að afmá yður, en þá bænheyrði Drottinn mig.20Drottinn reiddist líka mjög Aroni, svo hann vildi afmá hann en eg bað þá líka strax fyrir Aron.21En yðar synd—kálfinn sem þér höfðuð tilbúið—tók eg, brenndi hann í eldi og (muldi smátt) þangað til hann varð að dufti, en duftinu þeytti eg út á þann læk sem þar rann ofan af fjallinu.22Í Tabera, í Massa og hjá Girndargröfunum *) reittuð þér líka Drottin til reiði;23og þegar Drottinn sendi yður úr Kadesbarnea og sagði: farið og náið undir yður landinu sem eg hefi gefið yður, þá voruð þér óhlýðnir skipun Drottins yðar Guðs; þér trúðuð honum ekki, og hlýdduð ekki hans raustu,24því þér hafið verið óþekkir Drottni frá því eg þekkti yður fyrst.25Eg féll þess vegna fram fyrir hann í 40 daga og 40 nætur, og lá þannig, því hann kvaðst mundi afmá yður,26eg bað Drottin og sagði: Drottinn minn Guð, afmá ekki þitt fólk, og þinn eigindóm sem þú frelsaðir með þínum mikla krafti, sem þú útleiddir af Egyptalandi með voldugri hendi;27minnstu á þína þénara Abraham, Ísaak og Jakob, en lít ekki á þvermóðskuguðleysi og glæpi fólks þessa,28svo landið sem þú leiddir oss út úr geti ekki sagt: „Drottinn gat þá ekki leitt þá inn í landið eins og hann hafði lofað þeim“, ellegar, „af hatri leiddi hann þá burtu til að drepa þá niður í eyðimörkinni“.29Því þeir eru þín þjóð, þín eign, sem þú útleiddir með þínum mikla krafti og með þínum útrétta armlegg.

*) Um þetta nafn, sjá 4 Mós. 11,34.35.