Sagan um Súsanna og Daníel.

1Maður nokkur bjó í Babel sem hét Jójakim.2Hann tók sér konu, að nafni Súsanna, Helkíadóttur, mikið fríða og guðhrædda.3Og hennar foreldrar voru réttlátir og kenndu dóttur sinni að lifa eftir Mósis lögmáli.4Og Jójakim var mjög ríkur maður, og hafði lystigarð nálægt sínu húsi. Til hans komu Gyðingar, af því hann var heiðraður framar öllum.5Og tveir öldungar af fólkinu voru settir dómarar það sama ár, um hvörja Herrann hefir sagt: ranglætið kemur út frá Babel, frá öldungunum sem eru dómarar, sem þykjast stýra lýðnum.6Þessir voru jafnan í Jójakims húsi, og til þeirra komu allir sem mál höfðu með að fara.7Og sem fólkið var gengið burt um miðdegið, kom Súsanna inn, og gekk um kring í garði mannsins síns.8Og báðir öldungarnir sáu hana daglega ganga inn og ganga um kring, og hjá þeim kviknaði girnd til hennar,9og sinni þeirra aflagaðist, og augu þeirra beygðust frá (því rétta) svo þeir litu ekki til himinsins, né minntust réttra dóma.10Og sökum þeirra voru þeir báðir plágaðir; en hvörugur lét annan vita það sem þeir höfðu að bera.11Því þeir skömmuðust sín að láta í ljósi sína girnd, að þeir vildu með henni leggjast.12Og þeir biðu þess daglega með löngun, að þeir fengju að sjá hana.13Og þeir sögðu hvör við annan: látum oss ganga heim, því matmálstími er kominn.14Og þeir gengu burt og skildust að, en sneru við aftur og hittust á ný; og sem þeir spurðust á um orsökina, játuðu þeir hvör öðrum sína girnd; og þá tiltóku þeir hvör með öðrum tímann, nær þeir gætu fundið hana eina.
15Og það skeði, þá þeir biðu eftir hentugum degi, að hún gekk, eins og í gær og fyrradag með einum tveim þernum, og ætlaði að lauga sig í garðinum, því heitt var;16og enginn maður var þar nema öldungarnir báðir sem höfðu falið sig og umsátu hana.17Og hún sagði við þernurnar: Sækið mér nú viðsmjör og sápu og læsið garðinum svo eg geti laugað mig.18Og þær gjörðu sem þeim var sagt og læstu dyrum garðsins, og gengu út um leynidyr, til að sækja, það sem þeim var boðið; og þær sáu ekki öldungana, því þeir höfðu falið sig.19Og sem þernurnar voru burt gengnar, komu báðir öldungarnir fram og hlupu að henni og sögðu:20garðsins dyr eru læstar, og enginn sér oss, og vér höfum girnd til þín: gjör nú vora vild og leggst með oss!21En ef ekki, skulum vér vitna móti þér, að ungur maður hafi verið hjá þér, og að þú þess vegna hafir sent frá þér þernurnar.22Þá andvarpaði Súsanna og mælti: á allar hliðar þrengir að mér! Því ef eg gjöri þetta, svo er eg dauðasek; og ef eg gjöri það ekki; svo mun eg ei sleppa úr ykkar höndum.23Þó vil eg heldur ekki gjöra það og falla í ykkar hendur, en að syndga fyrir Drottni.24Og Súsanna kallaði hárri raust; en báðir öldungarnir kölluðu líka móti henni.25Og annar hljóp og lauk upp garðshurðinni.26En sem þeir í húsinu heyrðu kallið í garðinum, stukku þeir inn um leynidyrnar til að sjá hvað henni hefði mætt.27Og þá öldungarnir sögðu frá, urðu þénararnir aldeilis hissa, því aldrei hafði slíkt heyrst um Súsönnu.
28Og daginn eftir, þá fólkið kom saman til manns hennar Jójakims, þá komu öldungarnir fullir af ranglætisáformi gegn Súsönnu svo hún yrði aflífuð.29Og þeir sögðu í fólksins áheyrn: sendið eftir Súsönnu, dóttur Hilkía, sem er kona Jójakims. Og menn sendu.30Og hún kom, hún og hennar foreldrar og börn og allir hennar ættingjar.31En Súsanna var mjög nettvaxin (sælleg) og fríð sýnum,32og þeir ranglátu skipuðu að taka af henni skýluna (því hún hafði hulið sig með henni), svo að þeir gætu mettast af hennar fegurð.33En náungar hennar grétu og allir sem hana sáu.34Og báðir öldungarnir gengu fram meðal fólksins, og lögðu hendurnar á hennar höfuð.35En hún grét og leit til himins, því hennar hjarta reiddi sig á Drottin.36Og öldungarnir sögðu: þegar við vorum einir á gangi í garðinum, kom þessi inn (í hann) með tveimur þernum og læsti garðinum, og lét frá sér stúlkurnar.37Og til hennar kom ungur maður, sem hafði falið sig þar og lagðist hjá henni.38En þar eð við, sem vorum í horni garðsins, sáum misgjörninginn, hlupum við að henni.39Og við sáum þau liggja saman. En honum gátum við ekki náð þar eð hann var sterkari en við, lauk upp hurðinni og stökk í burt.40En þessa gripum við, og spurðum: Hvör var þessi ungi maður? en hún vildi ekki segja oss það. Þetta vitnum við.
41Og þeir sem vóru á þinginu trúðu þeim, svo sem öldungum fólksins og dómurum og dæmdu hana til dauða.42En Súsanna kallaði með hárri raust og mælti: Ó eilífi Guð! þú sem þekkir það sem er hulið, þú sem sér allt áður en það verður til,43þú veist að þessir hafa borið falskan vitnisburð á móti mér! og sjá, eg dey, án þess að eg hafi gjört nokkuð af því, sem þeir svo vonskulega skulda mig fyrir.44Og Drottinn heyrði hennar raust.45Og sem hún var leidd til lífláts, uppvakti Guð helgan anda ungs manns nokkurs, sem hét Daníel,46og hann kallaði hárri rödd: eg er saklaus af þessu blóði.47En allt fólkið snerist að honum og mælti: hvað er það sem þú segir?48En hann gekk mitt á meðal þeirra og mælti: eru Ísraelssynir svona heimskir? án þess að rannsaka, og án þess að hafa fengið vissu, hafið þér dæmt til dauða Ísraelsdóttur?49Snúið aftur til dómsins, því þessir hafa borið falsvitni á móti henni!50þá sneri allt fólkið aftur skjótlega. Og öldungarnir sögðu við hann: settu þig hér hjá okkur, og segðu okkur til, fyrst Guð hefir trúað þér fyrir dómaraembættinu.51Og Daníel sagði til þeirra: skiljið þá að, svo langt sé í milli þeirra; eg skal yfirheyra þá.
52En þegar búið var að skilja þá, kallaði hann annan þeirra og sagði til hans: þú afgamli skálkur! nú koma þínar syndir, sem þú hefir iðkað, þér í koll,53þá þú sagðir upp rangláta dóma og áfelldir þá saklausu, en fríkenndir þá seku, enn þótt Guð hafi sagt: þann saklausa og réttláta skalt þú ekki deyða.54Hafir þú nú séð þetta, þá seg: hjá hvaða tré sástu þau, hvört hjá öðru? hann svaraði: hjá mastixtré nokkru.55En Daníel mælti: rétt hefir þú logið gegn þínu eigin höfði. Nú þegar kemur engillinn með Guðs atkvæði og hann mun kljúfa þig í sundur í miðju í tvennt.56Og hann lét fara í burt með hann, og bauð að koma með hinn og sagði til hans: þú Kanaans en ekki Júdaniðji! fríðleikinn hefir blekkt þig, og girnd þíns hjarta umsnúið þér.57Svona hafið þið farið með Ísraelsdætur, og þær hafa fyrir hræðslu sakir samlagast ykkur; en þessi Júdadóttir þoldi ekki ykkar athæfi.58Seg mér nú: hjá hvaða tré hittir þú þau hvört hjá öðru? en hann sagði: hjá steineik nokkurri.59En Daníel svaraði: einnig hefir þú rétt logið móti þínu eigin höfði, því engill Guðs bíður og heldur á sverði, til að höggva þig sundur í miðju og uppræta ykkur.
60Og allur þingheimurinn æpti upp yfir sig með hárri raust og lofaði Guð, sem bjargar þeim, er á hann vona.61Og þeir risu móti báðum öldungunum, þar eð Daníel hafði með þeirra eigin framburði sýnt að þeir væru ljúgvottar.62Og þeir gjörðu við þá, það sem þeir vondslega höfðu hugsað náunganum, eftir Móses lögmáli, og deyddu þá, og svo var saklaust blóð frelsað á þeim sama degi.63En Hilkía og hans kona lofuðu Guð fyrir dóttur sína, og Jójakim maður hennar, og frændur hennar, að ekkert skammarlegt var fundið í fari hennar.64Og fólkinu miklaðist Daníel frá þeim sama degi og þaðan af.

Um Bel og Drekann í Babel.

1Og kóngurinn Astyages safnaðist til sinna feðra og Kyrus, sá persiski, tók við hans ríki.2Og Daníel var jafnan hjá kónginum, og var heiðraður fram yfir alla hans vini.3Og þeir í Babýlon höfðu goð, sem hét Bel, upp á það var kostað daglega 12 mælirum hveitis, 80 sauðum og 6 ámum víns.4Og kóngur heiðraði goðið og fór daglega að tilbiðja það.5En Daníel tilbað sinn Guð. Og kóngurinn sagði við hann: því tilbiður þú ekki Bel? En hann svaraði: eg heiðra ekki goð sem gjörð eru með höndum; heldur þann lifandi Guð, sem skapað hefir himin og jörð og er herra yfir öllu holdi.6Og konungur sagði til hans: heldur þú þá að Bel sé ekki lifandi guð? Eða sér þú ekki hvað mikið hann etur og drekkur daglega.7Og Daníel mælti hlæjandi: láttu ekki blekkja þig, konungur! því innan til er það leir og að utan málmur, og hefir aldrei etið.
8Þá reiddist kóngur, og kallaði sína presta og sagði til þeirra: ef þér segið mér ekki hvör því eyðir sem hér er tilkostað, skuluð þér missa lífið;9en ef þér getið sýnt mér að Bel eti það, svo skal Daníel deyja, því hann hefir atyrt Bel. Og Daníel mælti við konunginn: veri það eins og þú segir!10En Bels prestar voru 70 fyrir utan konur og börn. Og konungurinn gekk með Daníel í Bels musteri.11Og prestar Bels sögðu: sjá, vér göngum burt, en set þú nú, konungur, mat fyrir (goðið) og áfengan drykk, og læs dyrunum og innsigla þær með þínum (signets)hring.12Og komir þú á morgun, og ef þú finnur ei allt uppunnið af Bel, svo skulum vér deyja, eða Daníel sem á oss lýgur.13En þeir voru ugglausir, því þeir höfðu gjört leynigöng upp undir borðið, og gengu þau og átu (allt) upp.14Og það skeði, þá þeir voru burt gengnir, að kóngurinn setti mat fyrir Bel. En Daníel skipaði sínum þénurum að sækja ösku, og þeir stráðu henni um allt musterið svo kóngur einn horfði á. Og þeir gengu burt og læstu dyrunum, og innsigluðu þær með kóngsins hring og gengu burt.15En prestarnir komu eftir venju sinni um nóttina með konum sínum og börnum og átu og drukku allt upp.
16Og konungur var snemma á fótum um morguninn og Daníel með honum.17Og hann mælti: er innsiglið óskaddað, Daníel? En hann svaraði: óskaddað, konungur!18Og sem dyrunum var lokið upp, leit konungur á borðið og kallaði hárri raust, mikill ertu Bel, og enginn svik með þér!19En Daníel brosti og aftraði konungi að ganga inn, og mælti: Líttu þó á gólfið og gef gaum að! eftir hvörn eru þessi spor?20Og konungurinn sagði: eg sé spor karlmanna, kvenmanna og barna. Þá reiddist konungur,21og lét handtaka prestana og þeirra konur og þeirra börn, og þeir sýndu honum leynidyrnar, sem þeir höfðu gengið inn um, þá þeir átu upp það sem á borðinu var.22Og kóngur lét deyða þá og fékk Bel, Daníeli á vald, og hann braut hann niður og hans musteri.
23Og þar var mikill dreki sem Babýlons menn dýrkuðu.24Og konungur sagði við Daníel: munt þú og segja um þennan að hann sé úr eiri, sjá, hann lifir og etur og drekkur, þú getur ekki sagt að hann sé ei lifandi guð: svo tilbið hann nú!25Og Daníel mælti: Drottin minn Guð tilbið eg; því hann er lifandi Guð.26En leyf þú mér konungur, og skal eg drepa drekann, án sverðs og bareflis. Og konungurinn mælti: eg leyfi þér það.27Þá tók Daníel bik og feiti og hár og sauð það saman og gjörði úr kökur, og lét í munn drekanum, og hann át og sprakk af því. Og hann (Daníel) mælti: þetta eru yðar guðir!
28En sem Babýlonsmenn spurðu þetta, mislíkaði þeim mjög og gjörðu upphlaup móti konungi og mæltu: Gyðingur nokkur er orðinn konungur, því Bel hefir hann niðurbrotið og deytt drekann og fyrirfarið prestunum.29Og þeir komu og sögðu við konunginn: framsel oss Daníel! ef ekki, þá deyðum vér þig og þitt hús.30Og sem konungur sá, að þeir gengu fast að honum, neyddist hann til að framselja þeim Daníel.31En þeir köstuðu honum í ljónagryfju, og þar var hann, í 6 daga.32En 7 ljón voru í gryfjunni og menn gáfu þeim daglega tvo menn og tvo sauði; en þá var þeim ekkert gefið, svo þau skyldu eta Daníel.
33Og spámaður nokkur Habakuk var í Júdalandi, hann sauð sauð og braut brauð niður í skál nokkura, og fór með það út á akur til uppskerumanna.34Þá sagði engill Drottins við Habakuk: færðu matinn sem þú ber, Daníeli í ljónagryfjuna í Babýlon.35Og Habakuk mælti: Drottinn! Babýlon hefi eg aldrei séð, og ljónagryfjuna þekki eg ekki.36Þá tók engill Drottins í hans hvirfil, og flutti hann svo, með því að halda í hans höfuð hár, til Babýlon, að ljónagryfjunni í hvin vindsins.37Og Habakuk kallaði og mælti: Daníel! Daníel! tak við þeirri fæðu sem Guð sendir þér.38Og Daníel ansaði: já, þú minntist mín, Guð, og yfirgefur þá ekki sem þig elska.39Og Daníel stóð upp og át. En Drottins engill flutti Habakuk strax aftur á sinn stað.40Og konungurinn kom á sjöunda degi til að harma Daníel, og kom að gryfjunni og leit inn, og sjá! Daníel sat þar.41Þá kallaði hann með hárri raust og mælti: mikill ert þú Drottinn, Daníels Guð, og enginn annar er (Guð) heldur en þú!42Og hann lét draga hann upp, en þeim sem höfðu ætlað sér að fyrirfara honum, lét hann kasta í gryfjuna, og þeir voru óðar uppetnir fyrir hans augum.

Bæn
Bæn Asaría,
og
Lofsöngur þeirra þriggja manna í eldinum.
Dan. 3,13.

1Og Asaría stóð og bað, og lauk upp sínum munni, mitt í eldinum og mælti:2Vegsamaður sért þú Drottinn, vorra feðra Guð, og lofaður, og þitt nafn sé prísað eilíflega!3Því réttvís ert þú í öllu sem þú gjörir, öll þín verk eru rétt, og þínir vegir beinir, og allir þínir dómar sannleiki.4Og réttan dóm hefir þú álagt í öllu því sem þú hefir látið koma yfir oss og yfir þá helgu borg, borg vorra feðra, Jerúsalem; því eftir sanni og rétti léstu allt þetta koma sakir vorra synda.5Því vér höfum syndgað og brotið, svo vér vikum frá þér,6og vér drýgðum misgjörðir í öllu, og hlýddum ekki þínum boðorðum, né héldum þau, né gjörðum sem þú hafðir boðið, svo oss mætti vel vegna.7Og allt sem þú lést yfir oss koma, og allt sem þú gjörðir oss, það hefir þú gjört eftir réttum dómi.8Og þú gafst oss á vald guðlausra óvina og fjandsamlegra uppreistarmanna, og ranglátasta og versta konungs á jörðunni.9Og nú getum vér ekki lokið upp vorum munni; til svívirðingar og háðungar erum vér orðnir þínum þjónum og dýrkendum.10En útskúfa oss þó ekki algjörlega, sakir þíns nafns, og ónýt ekki þinn sáttmála.11Og drag ekki þína miskunnsemi í hlé við oss, sökum Abrahams þíns vinar, sökum Ísaks, þíns þjóns, og sökum Ísraels, þíns heilaga,12hvörjum þú hést, að fjölga kyni þeirra líkt himinsins stjörnum og sandi sjávarstrandarinnar.13Því, Drottinn, vér erum orðnir færri en allar þjóðir, og erum nú auðvirðilegir á allri jörðinni sakir vorra synda.14Og nú á þessum tíma er enginn höfðingi, enginn spámaður, enginn fyrirliði, engin brennifórn, engin sláturfórn, ekkert matoffur, engin reykelsisfórn, og enginn staður, hvar vér getum fórnað og fundið náð.15En láttu oss með sundurkrömdu hjarta og auðmjúkum anda móttöku finna.16Vor fórn fyrir þér, í þeim tilgangi að sýna þér fullkomna hlýðni, sé þér sem brennifórn hrúta og nauta og þúsunda af feitum lömbum; því þeir sem þér treysta verða ekki til skammar.17Og nú aðhyllumst vér þig af öllu hjarta og óttumst þig og leitum þíns auglitis.18Lát oss ei verða til skammar, heldur gjör við oss eftir þinni náð og eftir þinni mikilli miskunnsemi.19Og frelsa oss sakir þinna dásemdarverka, og gef þínu nafni heiður, Drottinn, svo allir þeir skammist sín sem auðsýna illt þínum þjónum,20og verði til skammar fyrir (þínu) veldi, og lát þeirra kraft brotna,21svo að þeir fái að vita, að þú ert Drottinn, sá eini Guð og vegsamlegur í öllum heimi.
22Og þeir létu ekki af, sem þeim höfðu (þangað) kastað, kóngsins þjónar, að hita ofninn með nafta og biki, hálmi og hrísi,23og loganum sló 49 álnir upp úr ofninum,24og breiddist út og brenndi þá af Kaldeumönnum, sem hann náði til allt í kringum ofninn.25En engill Drottins var genginn til þeirra sem hjá Asaría voru, inn í ofninn, og hratt eldsloganum út úr ofninum,26og gjörði mitt í ofninum sem hæga daggarvindgolu; og eldurinn snerti þá ekki, og meiddi þá ekki og gjörði engan erfiðleika.27Þá byrjuðu þeir þrír að syngja lof svo sem með einum munni og vegsömuðu og þökkuðu Guði í ofninum og sögðu:28Vegsamaður sért þú Drottinn, Guð vorra feðra, og lofaður og hátt víðfrægður að eilífu!29Og vegsamað sé þitt heilaga dýrðlega nafn, og hátt lofað og hátt upphafið að eilífu!30Vegsamaður sért þú í þínu helga dýrðlega musteri, hátt lofaður og prísaður að eilífu!31Vegsamaður sért þú, sem skoða undirdjúpin og situr á kerúbum og lofaður og hátt prísaður að eilífu!32Vegsamaður sért þú í hásæti þíns konungsdóms, hátt lofaður og hátt prísaður að eilífu!33Vegsamaður sért þú á festingu himinsins og prísaður að eilífu!34Vegsamið Drottin, öll Drottins verk, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!35Vegsamið Drottin, þér himnar, syngið lof og víðfrægið hann hátt að eilífu!36Vegsamið Drottin, þér Drottins englar, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!37Vegsamið Drottin, þér vötn og allt það sem er yfir himninum, syngið lof og hefjið hann hátt að eilífu!38Allir Drottins herskarar vegsami Drottin, syngið lof og hefjið hann hátt að eilífu.39Vegsamið Drottin, sól og tungl, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!40Vegsamið Drottin, þér himinsins stjörnur, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!41Allt regn og dögg vegsami Drottin, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!42Vegsamið Drottin, allir vindar, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!43Vegsamið Drottin, eldur og hiti, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!44Vegsamið Drottin, frost og ylur, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu.45Vegsamið Drottin, dögg og skúrir, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu.46Dagar og nætur, vegsamið Drottin, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!47Vegsamið Drottin, ljós og myrkur, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!48Ís og frost, vegsamið Drottin, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu.49Héla og snjór, vegsamið Drottin, syngið lof, og prísið hann hátt að eilífu!50Vegsamið Drottin, eldingar og ský, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!51Jörðin vegsami Drottin, syngi lof og prísi hann hátt að eilífu.52Fjöll og hæðir, vegsamið Drottin, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!53Allt sem á jörðinni vex, vegsami Drottin, syngi lof og prísi hann hátt að eilífu!54Vegsamið Drottin, þér uppsprettur, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!55Vegsamið Drottin, sjór og ár, syngið lof og prísið hann að eilífu!56Vegsamið Drottin, þér hvalfiskar, og allt sem hrærist í vatninu, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!57Þér allir himinsins fuglar, vegsamið Drottin, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!58Vegsamið Drottin, öll dýr og fénaður, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!59Vegsamið Drottin, mannanna synir, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!60Ísrael vegsami Drottin, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!61Þér prestar, vegsamið Drottin, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!62Vegsamið Drottin, þér þénarar, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!63Vegsamið Drottin, þér andar og sálir enna réttlátu, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!64Vegsamið Drottin, þér guðræknu og af hjarta auðmjúku, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu!65Vegsamið Drottin, þér Ananía, Asaría, Misael, syngið lof og prísið hann hátt að eilífu! því hann þreif oss úr helju, og hjálpaði oss úr dauðans hönd, og frelsaði oss úr þeim brennandi eldsofni, og bjargaði oss úr loganum.66Þakkið Drottni! því hann er góður, því hans miskunn varir að eilífu.67Vegsamið Drottin, þér enir guðhræddu, syngið lof og þakkir gjörið guðanna Guði! því hans miskunn varir að eilífu.