Bæn Asarja og lofsöngur ungmennanna þriggja
Bæn Asarja
24 Þeir gengu um í logunum, sungu Guði lof og vegsömuðu Drottin.
25 Þá nam Asarja staðar, tók að biðja, hóf upp raust sína umluktur logunum og sagði:
26 Lofaður sért þú og tignaður, Drottinn Guð feðra vorra.
Vegsamað sé nafn þitt að eilífu.
27 Réttlátur ert þú í öllu sem þú gerir,
öll verk þín eru sönn,
brautir þínar beinar
og allir dómar þínir réttlátir.
28 Þeir dómar voru réttir sem þú lést yfir oss ganga
og yfir Jerúsalem, hina helgu borg feðra vorra.
Það var sakir sannleikans og réttlætisins
að þú lést þetta koma yfir oss.
Allt var það vegna synda vorra.
29 Því að vér syndguðum,
afræktum lögmálið og snerum baki við þér.
Í öllu syndguðum vér.
30 Vér hlýddum hvorki á né héldum boðorð þín
og breyttum ekki eins og þú hafðir boðið oss til blessunar.
31 Allt, sem þú lést yfir oss koma og að höndum bera,
var að öllu leyti réttlátur dómur.
32 Þú ofurseldir oss siðlausum óvinum,
fjandsamlegum guðleysingjum,
ranglátum konungi, þeim hatrammasta í heimi hér.
33 Nú er oss varnað máls
og vér, sem þjónum þér og tilbiðjum þig,
megum bera hneisu og háðung.
34 Útskúfa oss eigi um aldur og ævi sakir nafns þíns,
nem eigi sáttmála þinn úr gildi.
35 Lát þú miskunn þína eigi hverfa frá oss
sakir Abrahams sem þú unnir og Ísaks þjóns þíns
og þíns heilaga Ísraels.
36 Þú hést þeim
niðjamergð líkri stjörnum himins
eða sandkornum á sjávarströnd.
37 En vér erum, Drottinn, orðnir smærri öllum þjóðum,
auvirðilegastir allra í heimi vegna synda vorra.
38 Um þessar mundir er enginn höfðingi,
enginn spámaður eða leiðtogi,
hvorki er brenni- né sektarfórn,
matfórn eða reykelsi,
enginn staður til að bera þér fórn
og finna miskunn.
39 Tak á móti oss er vér komum
með þjakaða sál og auðmjúkan anda
40 eins og vér færðum þér hrúta og naut,
tíu þúsund feit lömb að brennifórn.
Lít þannig á fórn vora í dag,
veit oss að hlýðnast þér í öllu.
Þeir sem treysta þér munu eigi til skammar verða.
41 Vér fylgjum þér af öllu hjarta,
vér óttumst þig og leitum auglitis þíns.
42 Lát oss eigi til skammar verða.
Auðsýn oss náð þína og miklu mildi.
43 Frelsa þú oss, Drottinn,
sakir undursamlegs máttar þíns,
og gjör nafn þitt dýrlegt.
44 Lát alla þá sem vinna þjónum þínum mein
til skammar verða.
Niðurlægðu þá og sviptu þá veldi og mætti,
brjót þú styrk þeirra á bak aftur.
45 Lát þá komast að raun um
að þú einn ert Drottinn Guð,
tignaður um heimsbyggð alla.
46 Þjónar konungs, sem varpað höfðu ungmennunum inn í ofninn, kyntu hann án afláts með olíu, biki, hampi og hrísi. 47 Stóð eldstrókurinn fjörutíu og níu álnir upp af ofninum 48 og dreifðist svo að hann brenndi Kaldeumennina sem stóðu nærri honum.
49 En engill Drottins hafði stigið niður í eldinn til að vera hjá Asarja og félögum hans. Hann hratt logunum út úr ofninum 50 svo að innst í honum varð sem í úrsvölum strekkingi. Eldurinn snerti mennina ekki og gerði þeim ekki heldur neitt til miska.
Lofsöngur ungmennanna þriggja
51 Þá tóku mennirnir þrír að lofa Guð einum rómi, vegsama hann og tigna með þessum orðum:
52 Lofaður sért þú, Guð feðra vorra,
vegsamaður og miklaður að eilífu.
Lofað sé dýrlegt og heilagt nafn þitt,
vegsamað sé það stórum og miklað að eilífu.
53 Lofaður sért þú í musteri heilagrar dýrðar þinnar,
lof sé þér sungið og dýrð umfram allt annað.
54 Lofaður sért þú sem sérð ofan í djúpið
frá hásæti þínu á kerúbunum,
lofaður sért þú og hátt upphafinn að eilífu.
55 Lofaður sért þú í hásæti ríkis þíns,
lof sé þér sungið og þú hátt upphafinn að eilífu.
56 Lofaður sért þú á festingu himins,
lof sé þér sungið og miklaður sértu að eilífu.
57 Lofið Drottin, öll hans verk,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
58 Lofið Drottin, þér himnar,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
59 Lofið Drottin, þér englar hans,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
60 Lofið Drottin, vötnin öll ofar himnum,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
61 Lofið Drottin, allar hersveitir hans,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
62 Lofið Drottin, sól og máni,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
63 Lofið Drottin, þér stjörnur himins,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
64 Lofið Drottin, þér regn og dögg,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
65 Lofið Drottin, þér vindar allir,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
66 Lofið Drottin, þér eldur og breyskja,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
67 Lofið Drottin, þér frost og funi,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
68 Lofið Drottin, þér dögg og drífa,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
69 Lofið Drottin, þér dagar og nætur,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
70 Lofið Drottin, þér ljós og myrkur,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
71 Lofið Drottin, þér hrím og ís,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
72 Lofið Drottin, þér frost og hrím,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
73 Lofið Drottin, þér eldingar og ský,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
74 Lofa Drottin, jörð,
vegsama hann og mikla að eilífu.
75 Lofið Drottin, þér fjöll og hæðir,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
76 Lofa Drottin, allt sem grær á grundu,
vegsama hann og mikla að eilífu.
77 Lofið Drottin, þér höf og fljót,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
78 Lofið Drottin, þér lindir,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
79 Lofið Drottin, þér hvalir og allt sem hrærist í vötnunum,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
80 Lofið Drottin, allir fuglar himins,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
81 Lofið Drottin, búfénaður og villidýr,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
82 Lofa Drottin, mannkyn allt,
vegsama hann og mikla að eilífu.
83 Lofið Drottin, þér Ísraelsmenn,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
84 Lofið Drottin, þér prestar hans,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
85 Lofið Drottin, þér þjónar hans,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
86 Lofið Drottin, þér réttlátu sálir og andar,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
87 Lofið Drottin, þér heilögu og auðmjúku í hjarta,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
88 Lofið Drottin, þér Ananías, Asarja og Mísael,
vegsamið hann og miklið að eilífu.
Því að hann hefur hrifið oss úr helju,
frelsað oss undan valdi dauðans,
bjargað oss frá logum eldsofnsins,
úr bálinu miðju bjargaði hann oss.
89 Þakkið Drottni því að hann er góður
og miskunn hans varir að eilífu.
90 Lofið Drottin, guðanna Guð, allir þér sem dýrkið hann,
syngið honum lof og þakkargjörð
því að miskunn hans varir að eilífu.
Súsanna
Þokki Súsönnu vekur girnd tveggja dómara
1 Í Babýlon bjó maður nokkur, Jóakim að nafni. 2 Gekk hann að eiga konu sem Súsanna hét og var Hilkíadóttir. Hún var forkunnarfögur og guðhrædd. 3 Foreldrar hennar voru réttlátir og höfðu alið dóttur sína upp samkvæmt lögmáli Móse. 4 Jóakim var vellauðugur. Við hús hans var lystigarður. Gyðingar komu gjarnan saman hjá honum enda var hann mikils virtur af þeim öllum. 5 Þetta árið höfðu tveir af öldungum lýðsins verið skipaðir dómarar. Það var við þá sem Drottinn átti þegar hann sagði: „Lögleysi kom frá Babýlon frá öldungum og dómurum sem áttu að stjórna lýðnum.“
6 Báðir tveir dvöldust í húsi Jóakims og til þeirra komu allir sem áttu í málaferlum. 7 Um hádegisbil, er allir voru farnir, var Súsanna vön að fara inn í lystigarð manns síns og ganga þar um. 8 Daglega sáu öldungarnir báðir hana koma inn í garðinn og ganga um og felldu þeir girndarhug til hennar. 9 Urðu þeir svo haldnir af þessu að þeir hættu að hefja augu sín til himins og gleymdu rétti og réttlæti. 10 Liðu þeir báðir kvalir hennar vegna en ekki sögðu þeir hvor öðrum frá þjáningu sinni 11 því að þeir blygðuðust sín fyrir að gera uppskátt um losta sinn og löngun að liggja hana. 12 En dag eftir dag biðu þeir hennar með eftirvæntingu.
13 Dag nokkurn sögðu þeir hvor við annan: „Við skulum fara heim því að komið er að hádegisverði.“ Fóru þeir síðan út og hvor sína leið. 14 Síðan sneru þeir báðir aftur og mættust á sama stað. Spurðu þeir hvor annan hvernig á þessu stæði og gengust þeir þá við girnd sinni. Komu þeir sér síðan saman um tiltekna stund er þeir gætu hitt Súsönnu eina.
Dómararnir reyna að tæla Súsönnu
15 Á meðan dómararnir eigruðu um og biðu hentugs færis kom Súsanna þar að, gekk inn í garðinn eins og hún gerði jafnan og með henni voru aðeins tvær þjónustustúlkur. Heitt var í veðri og fékk hún löngun til að lauga sig í lystigarðinum. 16 Þar voru engir nema öldungarnir tveir sem höfðu falið sig og lágu á gægjum. 17 Súsanna sagði við stúlkurnar: „Sækið fyrir mig olíu og ilmsmyrsl og læsið garðhliðinu svo að ég geti baðað mig.“ 18 Þær gerðu eins og hún bað, lokuðu garðhliðinu og fóru inn um bakdyr til að sækja það sem þær voru beðnar um. Ekki sáu þær öldungana enda höfðu þeir falið sig. 19 Þegar stúlkurnar voru farnar spruttu öldungarnir báðir upp, hlupu til Súsönnu 20 og sögðu: „Garðhliðið er læst og enginn sér okkur. Við þráum þig. Láttu því að vilja okkar og leggstu með okkur. 32 Annars munum við vitna það gegn þér að ungur maður hafi verið hjá þér og þess vegna hafir þú sent stúlkurnar burt.“ 22 Súsanna kveinaði og sagði: „Öll sund eru lokuð fyrir mér. Geri ég eins og þið viljið verður það minn bani. Geri ég það ekki mun ég samt ekki ganga ykkur úr greipum. 23 En vænlegra er fyrir mig að gera þetta ekki og lenda á valdi ykkar en að syndga í augum Drottins.“ 24 Síðan hrópaði Súsanna hárri röddu og öldungarnir báðir kölluðu einnig hástöfum. 25 Hljóp annar þeirra líka til og opnaði garðhliðið. 26 Er fólkið, sem inni var, heyrði ópin í lystigarðinum þaut það út um bakdyrnar til að athuga hvað komið hefði fyrir Súsönnu. 27 Öldungarnir sögðu sögu sína og urðu þjónarnir stórum miður sín því að aldrei fyrr hafði neitt þessu líkt heyrst um Súsönnu.
Vitnisburður dómaranna gegn Súsönnu
28 Daginn eftir, þegar fólkið kom saman hjá Jóakim manni hennar, komu öldungarnir báðir staðfastir í þeim illa ásetningi sínum að fá Súsönnu dæmda til dauða. Þeir sögðu við fólkið: 29 „Sendið eftir Súsönnu Hilkíadóttur, eiginkonu Jóakims.“ Hún var sótt. 30 Kom hún, foreldrar hennar, börn og allir ættingjar hennar. 31 Súsanna var mjög þokkafull og fögur ásýndum. 32 Hún bar andlitsblæju og hrakmennin skipuðu að skýlan væri tekin af henni svo að þeir gætu notið fegurðar hennar. 33 Vandamenn hennar grétu og allir aðrir er til sáu. 34 Öldungarnir tveir tóku sér stöðu frammi fyrir fólkinu og lögðu hendur sínar á höfuð Súsönnu. 35 Hún horfði tárvotum augum til himins því að hún treysti Drottni af öllu hjarta. 36 Öldungarnir tóku til máls og sögðu: „Er við vorum einir á göngu í lystigarðinum kom þessi kona inn með tveimur þjónustustúlkum, lét læsa garðhliðinu og sendi stúlkurnar burt. 37 Kom þá ungur maður til hennar úr felum og lagðist með henni. 38 Við vorum í horninu á garðinum og er við sáum þessa óhæfu hlupum við til þeirra. 39 Við sáum að þau voru í faðmlögum en manninum gátum við ekki haldið því að hann bar okkur ofurliði, opnaði hliðið og komst undan. 40 En konu þessa gripum við og spurðum hana hver ungi maðurinn væri. 41 Það vildi hún ekki segja okkur. Að þessu erum við vitni.“ Öll samkoman trúði þeim, enda áttu öldungar og dómarar lýðsins í hlut, og dæmdi Súsönnu til dauða.
Daníel bjargar Súsönnu
42 Þá hrópaði Súsanna hárri röddu og sagði: „Eilífi Guð! Þú sem þekkir allt sem hulið er og veist allt áður en það verður. 43 Þú veist að þessir menn báru ljúgvitni gegn mér. Nú verð ég að deyja án þess að hafa drýgt nokkuð það sem þessi illmenni lugu á mig.“
44 Drottinn heyrði ákall hennar. 45 Einmitt þegar hún var leidd burt til aftöku vakti Guð heilagan anda í ungum dreng sem hét Daníel. 46 Hann hrópaði hárri röddu: „Saklaus er ég af blóði þessarar konu!“ 47 Allt fólkið sneri sér að honum og spurði: „Hvað áttu eiginlega við?“ 48 Hann tók sér stöðu mitt á meðal þess og sagði: „Hvílíkir bjálfar eruð þið, Ísraelsmenn. Þið hafið dæmt ísraelska konu til dauða án rannsóknar og án þess að kynna ykkur málavöxtu. 49 Farið aftur í réttarsalinn. Þessir menn hafa borið ljúgvitni gegn konunni.“ 50 Allir sneru þá aftur í skyndi og öldungarnir sögðu við hann: „Komdu og sestu meðal okkar og gerðu grein fyrir máli þínu. Guð hefur gefið þér öldungsvit.“ 51 Daníel sagði við þá: „Skiljið mennina að og hafið langt á milli þeirra. Ég ætla að yfirheyra þá.“ 52 Þegar þeir höfðu verið aðskildir kallaði Daníel annan þeirra til sín og sagði við hann: „Gamli syndaselur. Nú koma þér í koll þær syndir sem þú hefur áður drýgt 53 og ranglátir dómar þínir er þú dæmdir saklausa og sýknaðir seka. Þó hefur Drottinn sagt: Saklausan og réttlátan skalt þú ekki deyða. 54 Hafir þú séð konu þessa, svaraðu þá: Undir hvaða tré sástu þau láta vel hvort að öðru?“ Hann svaraði: „Undir klofnu eikinni.“ 55 „Fallega laugstu. Fyrir það muntu lífinu týna,“ sagði Daníel. „Engill Guðs hefur þegar fengið skipun frá Guði að kljúfa þig í herðar niður.“ 56 Lét hann síðan fara með hann afsíðis og leiða hinn öldunginn fram og sagði við hann: „Af Kanaan ert þú kominn en ekki Júda. Fegurðin hefur ginnt þig og girndin leitt þig afvega. 57 Þannig hafið þið leikið dætur Ísraels svo að þær hafa ekki þorað annað en láta að vilja ykkar. En þessi dóttir Júda þoldi ekki guðleysi ykkar. 58 Seg þú mér nú: Undir hvaða tré stóðst þú þau að því að láta vel hvort að öðru?“ Hann svaraði: „Undir kvistóttu björkinni.“ 59 „Fallega laugstu,“ sagði Daníel. „Fyrir það munt þú líka lífinu týna. Engill Guðs er þess albúinn að kvista þig niður með sverði sínu. Hann mun tortíma ykkur báðum.“ 60 Öll samkundan hrópaði hárri röddu og lofaði Guð sem frelsar þá sem á hann vona. 61 Þá sneri samkundan sér að öldungunum tveimur og þar sem Daníel hafði sannað með framburði þeirra sjálfra að þeir voru ljúgvitni voru þeir látnir líða hið sama og þeir höfðu í illsku sinni ætlað náunga sínum. 62 Var farið með þá að lögmáli Móse og þeir teknir af lífi. Þannig var saklausu lífi bjargað daginn þann. 63 Hilkía og kona hans lofuðu Guð fyrir að ekki sannaðist neitt ósæmilegt á dóttur þeirra. Undir það tóku Jóakim maður hennar og allir ættingjar þeirra. 64 Frá þeim degi og æ síðan var Daníel í miklum metum hjá þjóðinni.
Bel og drekinn
Daníel og Belprestarnir
1 Er Astýages konungur safnaðist til feðra sinna tók Persinn Kýrus við ríki hans. 2 Daníel var mjög handgenginn konungi og í meiri metum en aðrir vinir hans. 1 Babýloníumenn áttu sér skurðgoð sem þeir nefndu Bel. Þeir færðu því dag hvern tólf sekki af hveitimjöli, fjörutíu sauði og sex mæla víns.
4 Konungurinn tilbað goðið og fór daglega til að tigna það. Daníel féll hins vegar fram fyrir sinn Guð. Konungur spurði hann: „Hvers vegna fellur þú ekki fram fyrir Bel?“ 5 „Ég tilbið ekki skurðgoð af höndum gerð,“ svaraði hann, „heldur hinn lifandi Guð sem skapaði himin og jörð og ríkir yfir öllu sem lifir.“ 6 Þá spurði konungur: „Virðist þér Bel ekki vera lifandi Guð? Sérðu ekki hvað hann etur og drekkur mikið dag hvern?“ 7 Daníel hló við og svaraði: „Láttu ekki blekkjast, konungur. Að innan er hann leir og að utan eir og hvorki hefur hann nokkru sinni etið neitt né heldur drukkið.“ 8 Konungur reiddist og kallaði presta Bels fyrir sig og sagði við þá: „Ef þið segið mér ekki hverjir eta upp allan þennan mat þá skuluð þið týna lífinu. 9 En ef þið getið sannað að Bel hafi neytt hans þá skal Daníel láta lífið því að hann hefur lastmælt Bel.“ Daníel sagði þá við konung: „Látum svo vera.“
10 Prestar Bels voru sjötíu talsins. Þeir voru kvæntir og áttu börn. Konungur hélt til hofs Bels ásamt Daníel. 11 Þá sögðu Belprestarnir við þá: „Nú skulum við fara héðan en þú, konungur, skalt reiða fram matinn, blanda vínið og leggja það á borð. Lokaðu síðan dyrunum og innsiglaðu þær með innsigli þínu. 12 Ef þú kemst svo að raun um að Bel hafi ekki etið allt upp til agna þegar þú kemur í fyrramálið, þá skulum við láta lífið en Daníel að öðrum kosti ef hann hefur logið á okkur.“ 13 Voru þeir öruggir með sig enda höfðu þeir gert undir borðinu leynigöng, sem þeir fóru jafnan um, og átu það sem þar var fram borið. 14 Þegar prestarnir voru farnir út lagði konungur matinn fram fyrir Bel. Þá lét Daníel þjóna sína sækja ösku og stráði henni yfir allt gólf hofsins að konungi einum ásjáandi. Gengu þeir síðan út, lokuðu dyrunum og innsigluðu þær með innsigli konungs og fóru þaðan. 15 Um nóttina komu prestarnir eins og þeir voru vanir og konur þeirra og börn og átu og drukku allt upp. 16 Árla næsta morgun sneru konungur og Daníel aftur. 17 „Eru innsiglin heil, Daníel?“ spurði konungur. Hann svaraði: „Já, þau eru órofin, konungur.“
18 Óðar en dyrunum var lokið upp leit konungur á borðið og hrópaði hárri röddu: „Mikill ert þú, Bel! Alls engin svik verða hjá þér fundin.“ 19 Þá hló Daníel og tók í konung til að aftra honum að ganga inn og sagði: „Líttu á gólfið og aðgættu eftir hvern þessi spor eru.“ 20 Þá svaraði konungur: „Ég sé spor karla, kvenna og barna.“ 21 Varð konungur ævareiður og lét grípa prestana, konur þeirra og börn. Sýndu þeir honum leynidyrnar sem þeir voru vanir að koma inn um og eta það sem lagt var á borð. 22 Lét konungur síðan taka þá af lífi en gaf Daníel Bel og eyðilagði hann goðið og hof þess.
Daníel drepur drekann
23 Í borginni var einnig dreki mikill sem Babýloníumenn tilbáðu. 24 Sagði konungur við Daníel: „Ekki ætlar þú þó að halda því fram að þetta sé ekki lifandi guð? Þú skalt falla fram fyrir honum!“ 25 En Daníel svaraði: „Ég mun tilbiðja Drottin, Guð minn því að hann er lifandi Guð. 26 En ef þú, konungur, gefur mér leyfi þá skal ég drepa drekann án þess að hafa sverð eða staf.“ „Það er þér heimilt,“ svaraði konungur. 27 Þá tók Daníel tjöru, tólg og hár sem hann sauð hvað með öðru og gerði kökur af. Stakk hann þeim í gin drekans sem át þær og sprakk. „Sjáið nú hvað það er sem þið tilbiðjið,“ sagði Daníel.
28 Þegar Babýloníumenn fréttu þetta varð þeim mjög heitt í hamsi. Hófu þeir samblástur gegn konungi og sögðu: „Konungurinn er orðinn Gyðingur. Hann hefur eyðilagt Bel, drepið drekann og höggvið prestana.“ 29 Fóru þeir til konungs og sögðu við hann: „Framseldu okkur Daníel. Að öðrum kosti drepum við þig og fjölskyldu þína.“ 30 Konungur fann að hart var að honum lagt og neyddist hann til að afhenda þeim Daníel. 31 Þeir vörpuðu honum í ljónagryfju og var hann þar í sex daga. 32 Í gryfjunni voru sjö ljón. Var vaninn að færa þeim tvo menn og tvo sauði dag hvern. En nú var þeim ekkert gefið til að þau ætu Daníel.
Daníel bjargað úr ljónagryfjunni
33 Þá var spámaðurinn Habakkuk á dögum í Júdeu. Hafði hann soðið súpu og lagt brauðmola í og var á leið út á akur með skálina til að færa kornskurðarmönnum. 34 Þá sagði engill Drottins við Habakkuk: „Taktu þennan mat sem þú ert með og færðu hann Daníel sem er í ljónagryfjunni í Babýlon.“ 35 En Habakkuk svaraði: „Herra! Ég hef aldrei séð Babýlon og veit ekkert um gryfjuna.“ 36 Þá greip engill Drottins í hvirfil hans, hóf hann upp á hárinu og þaut með hann á einu andartaki til Babýlonar og setti hann niður við gryfjuna. 37 Þá hrópaði Habakkuk: „Daníel, Daníel, taktu matinn sem Guð hefur sent þér!“ 38 En Daníel sagði: „Þú hefur minnst mín, ó Guð, og ekki yfirgefið þá sem elska þig.“ 39 Stóð hann síðan upp og mataðist en engill Guðs flutti Habakkuk samstundis aftur til síns heima.
40 Sjöunda daginn kom konungur til að harma Daníel. Er hann kom að gryfjunni og leit ofan í hana þá sat Daníel þar. 41 Konungur hrópaði þá hástöfum: „Mikill ert þú, Drottinn, Guð Daníels. Enginn Guð er annar en þú!“ 42 Dró hann síðan Daníel upp en varpaði þeim sem höfðu ætlað að tortíma honum ofan í gryfjuna. Voru þeir samstundis etnir upp til agna að konungi ásjáandi.