Umsátrið um Betúlúu

1 Daginn eftir bauð Hólofernes öllum her sínum og öllum þeim sem gerst höfðu bandamenn hans að halda af stað gegn Betúlúu, hertaka fjallaskörðin og leggja til orrustu gegn Ísraelsmönnum. 2 Þá um daginn tóku allir vopnfærir menn sig upp. Var tala vígra manna eitt hundrað og sjötíu þúsund fótgönguliðar og tólf þúsund riddarar auk farangurs og gífurlegs skara fótgangandi manna sem fylgdi liðinu. 3 Herinn setti upp búðir sínar í dalnum við Betúlúu, nærri lindinni. Herbúðirnar voru slíkar að umfangi að þær náðu á breiddina alla leið frá Dótan að Belbaím og á lengd frá Betúlúu til Kýamon sem er gegnt Esdrelon.
4 Þegar Ísraelsmenn sáu þennan fjölda skelfdust þeir mjög og sögðu hver við annan: „Þessir menn munu gereyða landinu öllu. Hvorki hæðir, dalir né hæstu fjöll munu bera þunga þeirra.“ 5 Þeir gripu samt allir til vopna, kveiktu elda í varðturnum sínum og héldu vörð alla þá nótt.
6 Daginn eftir fór Hólofernes ásamt öllum riddurum sínum úr herbúðunum í augsýn Ísraelsmanna í Betúlúu. 7 Hann kannaði leiðirnar upp til borgarinnar, leitaði uppi lindirnar, tók þær á sitt vald, setti vopnað lið til að gæta þeirra og sneri síðan aftur til sinna manna.
8 Allir leiðtogar Edómíta, æðstu menn Móabíta og herforingjar strandhéraðanna gengu þá til hans og mæltu: 9 „Hlýð á ráð okkar, herra. Þá mun her þinn ekki bíða neitt tjón. 10 Þessi þjóð, Ísraelsmenn, treystir ekki á spjót sín heldur á hæð fjallanna þar sem hún býr. Það er heldur enginn hægðarleikur að komast upp á fjallstinda þeirra. 11 Þess vegna skalt þú, herra, ekki leggja til atlögu við þá fylktu liði eins og venja er. Þá mun heldur enginn falla af liði þínu. 12 Þú skalt halda kyrru fyrir í herbúðum þínum en þar áttu allan her þinn óhultan. En þú skalt láta þjóna þína halda lindinni sem sprettur undan rótum fjallsins. 13 Allir Betúlúubúar sækja þangað vatn. Þegar svo þorstinn ætlar að gera út af við þá munu þeir gefa borg sína þér á vald. En við og menn okkar munum halda upp á fjallstindana í grenndinni, koma þar upp varðstöðvum og gæta þess að ekki einn einasti karlmaður komist út úr borginni. 14 Þeir, konur þeirra og börn munu þá örmagnast af hungri og hrynja niður á strætunum utan húsa sinna áður en sverðið nær til þeirra. 15 Á þennan hátt hefnir þú þess grimmilega að þeir gerðu uppreisn gegn þér í stað þess að koma friðsamlega til móts við þig.“
16 Tillaga þeirra féll Hólofernesi og öllum sem næst honum gengu vel í geð og bauð hann að farið skyldi að ráðum þeirra. 17 Her Ammóníta tók sig upp ásamt fimm þúsund Assýringum, kom sér fyrir í dalnum og tók á sitt vald vatnsból og lindir Ísraelsmanna. 18 Edómítar og Ammónítar lögðu einnig af stað upp í fjöllin og settu upp búðir í fjöllunum gegnt Dótan. Þeir sendu nokkra af mönnum sínum suðaustur í átt að Ekrebel sem er í nánd við Kús og rétt hjá Mokmúrá. Aðrir í her Assýríumanna slógu upp herbúðum á sléttunni. Tjöld Assýringa og búnaður þakti landið allt því að slík var mannmergðin og birgðirnar sem þar dreifðust um.
19 Ísraelsmenn ákölluðu Drottin, Guð sinn, enda örvæntu þeir þar sem þeir voru umkringdir öllum þessum óvinum og engin leið var til undankomu. 20 Allur her Assýríumanna, fótgöngulið, stríðsvagnar og riddaralið, sat um þá í þrjátíu og fjóra daga uns vatnsbirgðir allra Betúlúubúa voru nær á þrotum. 21 Vatnsþrærnar voru að tæmast og þeir fengu ekki að drekka nægju sína einn einasta dag, svo smátt var drykkurinn skammtaður. 22 Börnin misstu móðinn, konur og unglingar urðu örmagna af þorsta og hnigu niður á strætum borgarinnar og í súlnagöngum, svo nærri var að þreki þeirra gengið.
23 Þá safnaðist allt fólkið til Ússía og borgarráðsmanna, unglingar, konur og börn, og kallaði hárri röddu til allra öldunganna: 24 „Guð skeri úr málum okkar og ykkar! Þið hafið gert freklega á hlut okkar með því að friðmælast ekki við Assýríumenn. 25 Nú getur enginn komið okkur til hjálpar heldur hefur Guð selt okkur óvinum á vald og munum við hníga niður fyrir augum þeirra í sárustu eymd og örmagna af þorsta. 26 Gerið þeim nú boð og gefið fólki Hólofernesar og öllum her hans borgina á vald svo að þeir geti farið um hana ránshendi. 27 Eins og nú horfir er vænlegra að við verðum herfang þeirra. Að sönnu verðum við þrælar en fáum að lifa og þurfum ekki að horfa á börnin deyja og konur okkar og börn gefa upp öndina. 28 Himinn og jörð eru vitni okkar og Guð, Drottinn feðra okkar, sem hegnir fyrir syndir okkar og syndir feðra okkar. Við biðjum þess að hann geri ekki í dag eins og við höfum lýst.“
29 Öll samkundan tók að gráta og kveina einum rómi og hrópa hástöfum til Drottins Guðs. 30 En Ússía mælti: „Verið hugrökk. Við skulum afbera þetta í fimm daga enn. Áður en þeir líða mun Drottinn, Guð, auðsýna okkur miskunn að nýju. Hann mun eigi yfirgefa okkur með öllu. 31 En líði þessir dagar án þess að okkur berist hjálp þá mun ég gera eins og þið sögðuð.“ 32 Síðan lét Ússía alla fara og taka upp varðstöður sínar. Fóru þeir upp á múra og turna borgarinnar. Konur og börn sendi hann heim. Í borginni ríkti mikið vonleysi.