Fagnaðarboðskapur um frelsi

1Andi Drottins er yfir mér
því að Drottinn hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
til að græða þá sem hafa sundurmarin hjörtu,
boða föngum lausn
og fjötruðum frelsi,
2til að boða náðarár Drottins
og hefndardag Guðs vors,
til að hugga þá sem hryggir eru
3og setja höfuðdjásn í stað ösku
á syrgjendur í Síon,
fagnaðarolíu í stað sorgarklæða,
skartklæði í stað hugleysis.
Þeir verða nefndir réttlætiseikur,
garður Drottins sem birtir dýrð hans.
4Þeir munu endurreisa fornar rústir,
reisa það við sem féll fyrir löngu,
endurbyggja eyddar borgir
sem legið hafa í rústum kynslóð eftir kynslóð.
5Framandi menn munu koma og gæta hjarða yðar,
útlendingar vinna á ökrum yðar og í víngörðum
6en þér verðið nefndir prestar Drottins
og kallaðir þjónar Guðs vors.
Þér munuð njóta góðs af auði annarra þjóða
og hljóta vegsemd af fjársjóðum þeirra.
7Þar sem smán þeirra tvöfaldaðist
og háð og spott varð hlutskipti þeirra
skulu þeir fá tvöfalda hlutdeild í landi sínu
og ævarandi gleði mun hlotnast þeim.
8Því að ég, Drottinn, elska réttlæti
en hata rán og svik,
ég mun launa þeim af trúfesti
og gera við þá ævarandi sáttmála.
9Niðjar þeirra verða þekktir meðal þjóðanna
og börn þeirra meðal þjóðflokkanna.
Allir, sem sjá þá, munu skilja
að þeir eru niðjarnir sem Drottinn hefur blessað.
10Ég gleðst yfir Drottni,
ég fagna yfir Guði mínum
því að hann bjó mig klæðum hjálpræðisins,
sveipaði mig skikkju réttlætisins.
Eins og brúðgumi setur upp höfuðdúk sinn
og brúður býr sig skarti sínu
11og eins og jörðin gefur gróðrinum vöxtinn
og garður lætur frækornin spíra
mun Drottinn Guð láta réttlæti dafna
og orðstír frammi fyrir öllum þjóðum.