Formáli þýðanda bókarinnar úr hebresku á grísku

Lögmálið, spámennirnir og síðari rit hafa látið okkur í té gnótt dýrmætra gjafa. Þeirra vegna ber Ísrael lof fyrir menntun sína og speki. Þeir sem rit þessi lesa eiga ekki aðeins að auðgast sjálfir að þekkingu heldur ber þeim einnig að leitast við það í ræðu og riti að lærdómsiðkanir þeirra verði öðrum til nytja.
Jesús, afi minn, hafði lengi sökkt sér niður í rannsókn lögmálsins, spámannaritanna og annarra rita feðra okkar. Var hann orðinn þeim einkar handgenginn. Það varð honum köllun til að leggja sjálfur sitt af mörkum til menntunar og spekiritunnar. Það gerði hann til þess að þeir sem lærdómi unna og kynntu sér rit hans gætu tekið enn meiri framförum með því að breyta eftir lögmálinu.
Ég bið ykkur nú að lesa bókina af velvilja og eftirtekt og taka ekki hart á því þótt misbrestur kunni að virðast á þýðingunni á stöku stað en allan lagði ég mig fram við verkið. En það sem upphaflega var samið á hebresku fær að einhverju leyti aðra merkingu þegar því er snúið á aðra tungu. Það á ekki aðeins við um þessa bók. Sjálft lögmálið, spámennirnir og hinar bækurnar víkja um merkingu þónokkuð frá því sem er á frummálinu.
Ég kom til Egyptalands á þrítugasta og áttunda stjórnarári Evergetesar konungs og dvaldist þar um tíma. Komst ég að raun um að fræðastörf eru þar mjög iðkuð. Fannst mér ég því knúinn til að leggja alúð og elju við þýðingu þessa rits. Allt frá þeim tíma hef ég af óþreytandi eljusemi lagt nótt við dag við að ljúka bókinni og búa hana til útgáfu í þágu þeirra sem búa í framandi landi og vilja afla sér þekkingar og hafa lífi sínu í samræmi við lögmálið.

Spekin vegsömuð

1 Öll speki er frá Drottni,
hjá honum er hún að eilífu.
2 Hver fær talið sandkorn á sjávarströnd,
dropa regns eða daga eilífðar?
3 Hver fær kannað hæð himins, víðáttu jarðar,
undirdjúpin eða spekina?
4 Fyrri öllu var spekin sköpuð,
frá eilífð voru skilningur og hyggindi.
5 Orð Guðs í upphæðum er lind spekinnar,
eilíf boð hans vegir hennar. [
6 Hverjum opinberaðist upphaf spekinnar?
Hver komst fyrir hulin rök hennar?
7 Hverjum opinberaðist þekking á spekinni
og hver hlaut skilning á allri reynslu hennar? [
8 Drottinn einn er spakur, ógurlegur mjög,
situr í hásæti sínu.
9 Hann er sá sem spekina skóp,
leit á hana og virti vel
og veitti henni yfir öll sín verk.
10 Allt sem lifir fékk hlutdeild í þeirri gjöf hans,
hann veitir þeim sem elska hann ríkulega af henni.
11 Að óttast Drottin er heiður og vegsemd,
gleði og fagnaðarsveigur.
12 Að óttast Drottin fyllir hjartað fögnuði,
veitir ánægju, gleði og langlífi.
13 Sá sem óttast Drottin mun hljóta sælan endi,
njóta blessunar á banadægri.

Upphaf spekinnar

14Upphaf spekinnar er að óttast Drottin.
Hún er ásköpuð hinum trúföstu þegar í móðurlífi.
15 Hjá mönnum hefur hún gert sér bústað,
grundvallaðan að eilífu,
niðjar þeirra munu treysta á hana. [
16 Nægtir speki er að óttast Drottin,
hún seður menn með aldinum sínum.
17 Hús þeirra allt fyllir hún lostæti,
forðabúrin afurðum sínum.
18 Kóróna spekinnar er að óttast Drottin,
hún ber blóm friðar og fullrar heilsu.
19 Drottinn horfði á spekina og mat hana mikils.
Hún lætur þekkingu og innsæi falla sem regn,
eflir vegsemd þeirra sem höndla hana.
20 Rót spekinnar er að óttast Drottin,
greinar hennar eru langlífi.
21 Guðsótti hrekur syndir á braut
og þar sem hann er að finna víkur reiðin frá. [

Hafið taumhald á lund og tungu

22 Óréttmæt reiði á engar málsbætur,
hömlulaus heift leiðir manninn til falls.
23 Þolinmóður þreyr til hentugs tíma
og honum hlotnast gleði um síðir.
24 Orðvar er hann uns tími er til,
þá hljóta hyggindi hans lof af vörum margra.

Spekin og lotning fyrir Guði

25 Spekin býr yfir fjársjóðum spakmæla
en guðhræðsla er syndurum viðurstyggð.
26 Ef þú þráir speki skaltu halda boðorðin,
þá mun Drottinn veita þér gnótt hennar.
27 Speki og menntun er að óttast Drottin,
trúfesti og auðmýkt gleðja hann.
28 Sporna ei gegn því að óttast Drottin,
gakk ei fyrir hann með svik í hjarta.
29 Hræsna þú eigi fyrir mönnum
og haf gát á vörum þínum.
30 Hreyk þér eigi upp svo að þú fallir
og leiðir vanvirðu yfir þig.
Drottinn mun þá leiða það í ljós sem þú hylur hið innra
og auðmýkja þig í augsýn safnaðarins.
Þú gekkst eigi fram í ótta Drottins,
hjarta þitt var fullt svika.