1 Þegar Rehabeam hafði tryggt veldi sitt og var orðinn fastur í sessi hvarf hann frá lögmáli Drottins ásamt öllum Ísrael. 2 Á fimmta ríkisstjórnarári Rehabeams konungs hélt Sísak, konungur Egypta, í herför gegn Jerúsalem af því að íbúarnir höfðu svikið Drottin. 3 Hann kom með tólf hundruð stríðsvagna og sextíu þúsund vagnliða. Fleiri hermenn en tölu varð á komið fylgdu honum frá Egyptalandi: Líbíumenn, Súkítar og Kússítar. 4 Hann tók virkisborgirnar í Júda og komst allt til Jerúsalem.
5 Semaja spámaður kom til Rehabeams og höfðingja Júda sem höfðu hörfað undan Sísak til Jerúsalem. Hann sagði við þá: „Svo segir Drottinn: Þið hafið yfirgefið mig. Þess vegna yfirgef ég ykkur og framsel ykkur í hendur Sísaks.“ 6 Höfðingjar Ísraels og konungurinn auðmýktu sig og sögðu: „Drottinn er réttlátur.“
7 Þegar Drottinn sá að höfðingjar Ísraels og konungurinn höfðu auðmýkt sig kom orð Drottins til Semaja: „Þar sem þeir hafa auðmýkt sig ætla ég ekki að tortíma þeim. Innan skamms mun ég senda þeim hjálp. Reiði mín mun ekki hellast yfir Jerúsalem fyrir tilstilli Sísaks. 8 En þeir skulu samt verða honum lýðskyldir svo að þeir skilji hver munur er á að þjóna mér og jarðneskum konungum.“
9 Sísak, konungur Egypta, hélt því næst gegn Jerúsalem. Hann rændi fjársjóðum úr húsi Drottins og höll konungs. Hann lét greipar sópa og rændi einnig öllum gullskjöldunum sem Salómon hafði látið gera. 10 Rehabeam konungur lét gera skildi úr eir í þeirra stað og fól þá foringjum lífvarðarins til varðveislu en þeir gættu dyranna í húsi konungs. 11 Í hvert sinn sem konungur gekk í hús Drottins báru verðirnir skildina en síðan komu þeir þeim aftur fyrir í herbergi lífvarðarins. 12 Reiði Drottins vék frá Rehabeam, af því að hann hafði auðmýkt sig, og hann tortímdi þjóðinni ekki með öllu því að enn mátti finna sitthvað gott í Júda. 13 Rehabeam konungur efldist nú að völdum í Jerúsalem og ríkti áfram sem konungur.
Rehabeam var fjörutíu og eins árs þegar hann varð konungur. Hann var konungur í Jerúsalem sautján ár, borginni sem Drottinn hafði valið úr öllum ættbálkum Ísraels til þess að láta nafn sitt búa þar. Móðir hans hét Naama og var frá Ammón. 14 Hann gerði það sem illt var því að hann kappkostaði ekki að leita Drottins.
15 Það sem ósagt er af sögu Rehabeams, frá upphafi til enda, er skráð í sögu Semaja spámanns og Iddós sjáanda, í ættartölunum. Rehabeam og Jeróbóam áttu sífellt í ófriði. 16 Rehabeam var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs. Abía, sonur hans, varð konungur eftir hann.